Hjá Höllu Sigurpáll og Halla voru í kappi við tímann þegar þau hentu ónýtum matvælum á vetingastað sínum í gær.
Hjá Höllu Sigurpáll og Halla voru í kappi við tímann þegar þau hentu ónýtum matvælum á vetingastað sínum í gær. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hjónunum Höllu Maríu Svansdóttur og Sigurpáli Jóhannessyni vannst ekki tími til þess að hreinsa lagerinn á veitingastaðnum sínum Hjá Höllu í Grindavík þegar bærinn var rýmdur fyrir rúmri viku. Eðlilega hafa sum matvæli skemmst en í gær fengu þau…

Agnar Már Másson

agnarmar@mbl.is

Hjónunum Höllu Maríu Svansdóttur og Sigurpáli Jóhannessyni vannst ekki tími til þess að hreinsa lagerinn á veitingastaðnum sínum Hjá Höllu í Grindavík þegar bærinn var rýmdur fyrir rúmri viku. Eðlilega hafa sum matvæli skemmst en í gær fengu þau tækifæri til að henda ónýtum vörum, svo að myglaður matvælalager tæki ekki á móti þeim þegar þau kæmu til baka.

„Við vorum bara að hreinsa til og henda því sem var ónýtt þannig að það skemmi ekki út frá sér,“ segir Halla María í samtali við Morgunblaðið en hjónin hafa rekið veitingastaðinn í tum 12 ár.

„Í rauninni fengum við bara það stuttan tíma að maður náði ekki að taka neitt meira en það. Við vorum bara að hreinsa til það sem var orðið skemmt,“ bætir hún við. „Hitt fékk náttúrlega allt að sitja eftir. Það er fullbúinn veitingastaður þarna af ferskvöru enn þá.“

Auk veitingastaðarins í Grindavík reka hjónin systurstað í Leifsstöð og bjóða einnig upp á fyrirtækjaþjónustu, sem liggur nú niðri. „Við vorum búin að koma okkur fyrir á öðrum stað til þess að hafa aðstöðu til að reka hann [veitingastaðinn í Leifsstöð] áfram. Við erum náttúrlega líka með fyrirtækjaþjónustu sem við rekum á Suðurnesjum og í Reykjavík, og þetta leggst allt niður,“ segir Halla.

Vika er liðin frá því að Grindvíkingar þurftu að yfirgefa heimili sín í kjölfar þess að almannavarnadeild ríkislögreglustjóra lýsti yfir neyðarstigi vegna yfirvofandi eldgoss í bænum. Enn ríkir mikil óvissa um það hvort, og þá hvenær, taki að gjósa. Tæplega fjögur þúsund manns hafa þurft að leita skjóls annars staðar en heima hjá sér.

Halla og Sigurpáll hafa fengið að dvelja hjá dóttur sinni í Reykjavík frá því að þau þurftu að yfirgefa Grindavík. Aðspurð segir Halla að ástandið í heimabænum hafi lagst mjög illa í hjónin. „Þetta er náttúrlega allt í óvissu,“ bætir veitingakonan við að lokum.