Jarðhræringar Stærsti jarðskjálfti gærdagsins mældist 3 að stærð.
Jarðhræringar Stærsti jarðskjálfti gærdagsins mældist 3 að stærð. — Morgunblaðið/Eggert
Að minnsta kosti 1.600 skjálftar mældust á Reykjanesskaga í gær, föstudag. Ríkey Júlíusdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að skjálftarnir séu mun færri en mældust sólarhringinn þar á undan, en þá voru þeir 2.100 talsins

Að minnsta kosti 1.600 skjálftar mældust á Reykjanesskaga í gær, föstudag. Ríkey Júlíusdóttir, náttúruvársérfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að skjálftarnir séu mun færri en mældust sólarhringinn þar á undan, en þá voru þeir 2.100 talsins.

Bendir hún á að meðaldýpi skjálftanna sé enn um 5 km. Hún segir að gliðnun og landsig við Grindavík hafi hægt á sér. Það sé þó lítið hægt að segja um hver þróun jarðhræringanna á Reykjanesskaga verður.

Sá stærsti 3 að stærð

„Það er rosalega lítið hægt að spá hvort það sé stutt í einhvern atburð,“ segir Ríkey. Stærsti skjálftinn sem mældist í gær var 3 að stærð og átti upptök sín rétt norðvestan Hagafells. Stærstu skjálftar undanfarinna daga hafa átt upptök sín við fjallið, sem er nálægt Grindavík. Frá því að jarðskjálftahrinan hófst síðdegis föstudaginn 10. nóvember hafa að minnsta kosti 14.300 skjálftar mælst á Reykjanesskaga.