Sigurmark Landsliðsfyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir fagnar sigurmarki sínu í sigrinum gegn Wales á Laugardalsvelli hinn 27. október.
Sigurmark Landsliðsfyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir fagnar sigurmarki sínu í sigrinum gegn Wales á Laugardalsvelli hinn 27. október. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sandra Sigurðardóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir eru ekki í leikmannahóp íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu sem mætir Wales og Danmörku í lokaleikjum sínum í 3. riðli Þjóðadeildar kvenna í desember

Þjóðadeildin

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Sandra Sigurðardóttir og Sveindís Jane Jónsdóttir eru ekki í leikmannahóp íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu sem mætir Wales og Danmörku í lokaleikjum sínum í 3. riðli Þjóðadeildar kvenna í desember.

Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska liðsins, tilkynnti leikmannahóp sinn fyrir komandi verkefni á blaðamannafundi í höfuðstöðvum KSÍ á Laugardalsvelli í gær en alls gerir hann þrjár breytingar á hópnum frá síðasta verkefni gegn Danmörku og Þýskalandi á Laugardalsvelli í lok október.

Markverðirnir Fanney Inga Birkisdóttir og Guðný Geirsdóttir koma inn í hópinn en Guðný, sem er samningsbundin ÍBV, er valin í fyrsta sinn. Þá er Ólöf Sigríður Kristinsdóttir, leikmaður Þróttar úr Reykjavík, einnig í hópnum en ásamt Söndru detta þær Aldís Guðlaugsdóttir og Arna Eiríksdóttir einnig út.

Ísland mætir Wales í Cardiff 1. desember og svo Danmörku í Viborg hinn 5. desember en Ísland er sem stendur þriðja sæti riðilsins með 3 stig. Ísland getur ekki endað ofar í riðlinum en liðið gæti hins vegar endað í neðsta sætinu, tapi það fyrir bæði Wales og Danmörku.

Eitt stig dugar til þess að tryggja sér þriðja sæti riðilsins og takist það mun liðið fara í umspil í febrúar þar sem sæti í A-deildinni er í húfi. Liðið sem endar í neðsta sætinu fellur hins vegar í B-deild Þjóðadeildarinnar.

Sveindís áfram meidd

Sandra Sigurðardóttir, sem tók hanskana af hillunni í sumar eftir að hafa lagt þá á hilluna eftir tímabilið 2022, gaf ekki kost á sér af persónulegum ástæðum og Sveindís Jane er að glíma við meiðsli. Landsliðsþjálfarinn á þó von á því að Sveindís verði orðin klár í slaginn í janúar og hún gæti því leikið með liðinu í febrúar, endi liðið í þriðja sæti riðilsins, en hún hefur ekkert leikið með liðinu í Þjóðadeildinni.

„Þetta er þriðji glugginn í röð þar sem litlar breytingar eru á hópnum,“ sagði Þorsteinn á blaðamannafundinum í gær.

„Fyrri hluta ársins vorum við að gera mikið af breytingum á hópnum og reynslumiklir leikmenn voru að detta út en við höfum náð að halda betri dampi seinni hluta ársins, sem er jákvætt. Ég vonast til þess að þessi stöðugleiki skili sér inn í spilamennsku liðsins og að við höldum áfram að bæta okkur sem lið.

Ég tel að síðasti gluggi hafi verið skref fram á við, þó við höfum vissulega ekki fengið stig út úr þeim glugga. Ég er hins vegar sannfærður um það að ef frammistaðan heldur áfram að batna, líkt og hún hefur verið að gera í síðustu leikjum, þá mun það skila okkur einhverjum stigum í hús í komandi verkefnum,“ sagði Þorsteinn.

Fyrri leik Íslands og Wales á Laugardalsvelli lauk með 1:0-sigri Íslands og þar var það landsliðsfyrirliðinn Glódís Perla Viggósdóttir sem skoraði sigurmark leiksins á 18. mínútu.

„Fyrirfram er leikurinn gegn Wales hálfgerður úrslitaleikur, upp á það að halda sér í þessu þriðja sæti. Við gerum okkur fulla grein fyrir því að sá leikur er gríðarlega mikilvægur upp á framhaldið að gera og stig þar myndi tryggja okkur þriðja sætið.

Við förum hins vegar inn í þann leik með það að markmiði að vinna hann. Við ætlum að sýna góða frammistöðu gegn Wales. Það var margt jákvætt í okkar leik í síðasta glugga en gegn þessum stærri þjóðum snýst þetta um að nýta færin sín og þú þarft að skora úr þeim ef þú ætlar þér að ná í úrslit.“

Leikmannahópur Íslands:

Markverðir:

Telma Ívarsdóttir, Breiðabliki

Fanney Inga Birkisdóttir, Val

Guðný Geirsdóttir, ÍBV

Varnarmenn:

Glódís Perla Viggósdóttir, Bayern München

Ingibjörg Sigurðardóttir, Vålerenga

Guðrún Arnardóttir, Rosengård

Guðný Árnadóttir, AC Milan

Arna Sif Ásgrímsdóttir, Val

Hafrún Rakel Halldórsdóttir, Breiðabliki

Sædís Rún Heiðarsdóttir, Stjörnunni

Miðjumenn:

Alexandra Jóhannsdóttir, Fiorentina

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, Leverkusen

Selma Sól Magnúsdóttir, Rosenborg

Amanda Jacobsen Andradóttir, Val

Hildur Antonsdóttir, Fortuna Sittard

Berglind Rós Ágústsdóttir, Val

Lára Kristín Pedersen, Val

Sóknarmenn:

Agla María Albertsdóttir, Breiðabliki

Sandra María Jessen, Þór/KA

Hlín Eiríksdóttir, Kristianstad

Diljá Ýr Zomers, OH Leuven

Ólöf Sigríður Kristinsdóttir, Þrótti R.

Bryndís Arna Níelsdóttir, Val