Ferðaþjónustan Reyna að sporna við villandi upplýsingum erlendis.
Ferðaþjónustan Reyna að sporna við villandi upplýsingum erlendis. — Morgunblaðið/Eggert
Verið er að grípa til aðgerða og samræmingar innan ferðaþjónustunnar til þess að sporna við villandi upplýsingum erlendis um eldgosahættu á Reykjanesskaga. Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að verið sé að efla…

Verið er að grípa til aðgerða og samræmingar innan ferðaþjónustunnar til þess að sporna við villandi upplýsingum erlendis um eldgosahættu á Reykjanesskaga.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir að verið sé að efla upplýsingaflæði á milli tilheyrandi stofnana, þannig að allir geti gengið í takt og veitt viðeigandi upplýsingar hverju sinni.

Hann segir þó snúið mál að stýra umfjölluninni erlendis og að erfitt sé að henda reiður á umfangi umfjöllunar á samfélagsmiðlum og þá að hafa stjórn á henni.

„Það er orðið eitthvað um ferðamenn sem aflýsa ferðum sínum, sem er svo sem ekkert óeðlilegt,“ segir hann, en segist vera bjartsýnn að þegar þessu ástandi ljúki verði ferðaþjónustan fljót að taka við sér aftur.

Sveinn Birkir Björnsson, forstöðumaður markaðssamskipta hjá Íslandsstofu, segir að í stórum dráttum hafi fjölmiðlaumfjöllun stærri miðla erlendis ekki reynst mikið vandamál, en að fyrirsagnir geti verið villandi.

Sveinn segir þau í ferðaþjónustunni vera að reyna að samræma upplýsingagjöf og að þau hjá Íslandsstofu séu að uppfæra upplýsingarnar á vefmiðlum sínum í takt við upplýsingar frá Veðurstofu Íslands.

Hann segir þau einnig vinna með utanríkisráðuneytinu við að miðla upplýsingum til sendiráða erlendis.