Magnús Bernharðsson
Magnús Bernharðsson — AFP/Ahmad Gharabli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það er mjög erfitt að meta ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs eins og staðan er, en það er aukin pressa á Ísraela að þeir stöðvi framgang sinn á Gasasvæðinu og krafan um vopnahlé verður sífellt háværari,“ segir Magnús Þorkell…

Viðtal

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

„Það er mjög erfitt að meta ástandið fyrir botni Miðjarðarhafs eins og staðan er, en það er aukin pressa á Ísraela að þeir stöðvi framgang sinn á Gasasvæðinu og krafan um vopnahlé verður sífellt háværari,“ segir Magnús Þorkell Bernharðsson, prófessor í sögu Mið-Austurlanda við Williams-háskólann í Bandaríkjunum. „Fleiri alþjóðlegir leiðtogar hafa verið að setja þessa pressu bæði með beinum og óbeinum hætti. Á sama tíma hafa Ísraelar lýst því yfir að stríðið sé langtímaverkefni og þeir ætli sér að klára þetta verkefni þótt það taki tíma.“

Þegar Magnús er spurður hvaða möguleikar séu í stöðunni nefnir hann þrjú atriði. „Það eru í fyrsta lagi ytri áhrif eins og að pressan aukist frá stjórnvöldum í Bandaríkjunum um vopnahlé. Í öðru lagi að það verði vopnahlé vegna þess að samið verði um að gíslunum á valdi Hamas verði sleppt. Í þriðja lagi gæti það líka gerst innan Ísraelríkis sjálfs, þar sem er mikil ólga meðal Ísraela um framgang stríðsins.“

Er staðan til bóta fyrir Ísrael?

Magnús segir Ísraela sjá mótmæli víða um heim og gagnrýni á stefnu og aðgerðir Ísraelsstjórnar þannig að það gæti komið sterkari andstaða gegn stríðinu frá þeim sjálfum. Þar sé fyrst og fremst mikil gagnrýni á stjórnvöld fyrir hvað það gangi seint að frelsa gíslana og að það eigi að vera forgangsmál fram yfir stríðið gegn Hamas. „Þá eru líka einhverjir sem efast um að til lengdar sé þessi staða sem komin er upp til bóta fyrir Ísraelsríki og það gæti vakið andstöðu gegn sitjandi stjórnvöldum. Þá vaknar spurningin hvort þessi leið sem farin hefur verið tryggi yfirhöfuð öryggi Ísraela betur eða geri stöðu þeirra enn viðkvæmari,“ segir hann en bætir við að staðan sé gífurlega óljós og erfitt að spá um framhaldið.

„Síðast en ekki síst þá var fundur í Sádi-Arabíu um síðustu helgi þar sem leiðtogar arabaríkjanna og Írans hittust og það var ekkert sem kom út úr því sem gaf til kynna að þessi ríki ætluðu að blanda sér í hernaðarátökin, því þeir töluðu um stríðið sem mál Palestínumanna,“ segir Magnús sem segir það benda til að stríðið muni ekki breiðast út, þótt vissulega sé sá möguleiki enn fyrir hendi.

„Það eru margar stórar spurningar í þessu máli og sú sem brennur mest á Ísraelum eru afdrif og frelsun gíslanna,“ segir Magnús og bætir við að það sé líka nálgun Bandaríkjastjórnar sem vill fá vopnahlé í gegnum frelsun gíslanna. „Svo er líka mikill óróleiki á Vesturbakkanum, sem og við landamæri Ísraels og Líbanons, þannig að stríðið er ekki bara háð á Gasasvæðinu. Síðan má ekki gleyma því að um 25% íbúa Ísraels eru ekki gyðingar og það gæti verið önnur hætta innan ríkisins sjálfs. Þetta stefnir ekki í jákvæða útkomu eins og staðan er núna.“

Ekkert breyst í tæp 60 ár

Magnús minnist á Oslóarfriðarsamkomulagið, sem var undirritað 1993 og 1995, og hvað lítið hefur gerst frá þeim tíma. „Þá var talið að staðan væri að þróast í ákveðna átt og að mál færu að leysast. En ekkert hefur gerst á þessum 30 árum og það hefur bætt stöðu Ísraela sem hafa styrkst að miklum mun á þessum árum. Þannig að ef þetta stríð myndi enda á morgun án þess að svara þessum grundvallarspurningum deilunnar, þá væri það frekar Ísrael í hag en Palestínu.“

Hann bætir við að Ísraelar sjái það sem hluta af sínu lífi að þola tímabundið árásir frá Palestínu, rétt eins og Íslendingar sem búa við hliðina á eldfjöllum sjái það sem hluta af því að búa á eldfjallaeyju.

Grundvallarspurningin

„En það sem gerðist 1967 þegar Ísraelar hernámu allt land Palestínu, Gasasvæðið og Vesturbakkann í sex daga stríðinu hefur mikil áhrif á þessa deilu. Þá myndaðist ákveðið samband milli hernámsaðila og Palestínu og frá þeim tíma hefur Ísrael hefur stjórnað öllu sem kemur inn og út frá Palestínu. Það er ekki eðlilegt ástand, en nú hefur það varað í tæp 60 ár. Þetta er samband tveggja sjálfstæðra þjóða, það er alveg ljóst. Þar liggur líka grundvallarvandinn og erfitt að sjá að hægt sé að leysa nokkur mál á þessu svæði til langs tíma nema tekið sé á þessu grundvallarmáli.“

Síðan bendir hann á að Bandaríkjamenn hafi verið helsti stuðningaðili Ísraelsríkis frá 1967 og það sé ekki síst vegna þess að þeir hafa mjög öruggan og stöðugan bandamann í Mið-Austurlöndum sem getur verið framvarðarsveit þeirra á því svæði. „En þetta er mjög flókið, því stuðningur Bandaríkjanna við Ísrael flækir líka samband þeirra við aðrar þjóðir á þessu svæði. Svo það er ekkert einfalt í þessu.“

Hernám Gasa og Vesturbakkans í sex daga stríðinu 1967

Sambýli misrétthárra þjóða

Sex daga stríðið hófst 5. júní árið 1967 milli Ísraels og Egyptalands, Jórdaníu og Sýrlands. Því lauk 10. júní sama ár með sigri Ísraela sem hernámu þá allt land Palestínu, Vesturbakkann og Gasasvæðið auk Gólanhæða og Sínaískagans í Egyptalandi. Árið 1975 sömdu Egyptar við Ísraela um að skila Sinaískaganum.

Þótt Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hafi samþykkt árið 1967 tilskipun 242 sem sagði m.a. að Ísraelar skyldu fara frá hernumdu svæðunum, þá hafa samningaviðræður alltaf siglt í strand. Afstaða Ísraela er sú að hernumdu svæðin séu þeim nauðsynleg til varnar árásum arabaheimsins.

Samkvæmt alþjóðalögum eru landnemabyggðir Ísraela á Vesturbakkanum og í Austur-Jerúsalem ólöglegar, en í þessari stöðu má finna helsta ágreiningsefni Palestínu við Ísrael. Mikið valdamisvægi er milli þjóðanna því Ísrael stjórnar öllum landamærum. Vegna þessarar stöðu hafa Palestínumenn orðið mjög háðir hagkerfi Ísraela og reiði yfir stöðunni hjálpar hryðjuverkahópum eins og Hamas að þrífast í landinu.