Átta Leonharð Þorgeir Harðarson skoraði átta fyrir FH-inga í gær.
Átta Leonharð Þorgeir Harðarson skoraði átta fyrir FH-inga í gær. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Úrvalsdeildarliðin FH, Valur og KA tryggðu sér í gær sæti í átta liða úrslitum bikarkeppni karla í handbolta með sigrum á neðrideildaliðum. FH átti ekki í teljandi vandræðum með að vinna ÍR, sem féll úr efstu deild á síðustu leiktíð, á útivelli

Úrvalsdeildarliðin FH, Valur og KA tryggðu sér í gær sæti í átta liða úrslitum bikarkeppni karla í handbolta með sigrum á neðrideildaliðum.

FH átti ekki í teljandi vandræðum með að vinna ÍR, sem féll úr efstu deild á síðustu leiktíð, á útivelli. Urðu lokatölur 38:25. Jafnræði var með liðunum framan af og var staðan 6:6 eftir tíu mínútna leik. Þá tók við góður kafli hjá FH, því staðan í hálfleik var 19:13 FH-ingum í vil. Reyndist seinni hálfleikur formsatriði fyrir FH-inga.

Leonharð Þorgeir Harðarson var markahæstur hjá FH með átta mörk og Einar Örn Sindrason gerði sjö. Baldur Fritz Bjarnason og Hrannar Ingi Jónsson skoruðu sex hvor fyrir ÍR-inga.

KA þurfti að hafa meira fyrir sigri á Fjölni í Grafarvogi, en KA-menn unnu að lokum 27:23. Var staðan 22:22 þegar skammt var eftir, en KA-liðið var sterkara í lokin og vann fjögurra marka sigur.

Dagur Árni Heimisson skoraði átta mörk fyrir KA og eistneski landsliðsmaðurinn Ott Varik skoraði sjö. Björgvin Páll Rúnarsson átti stórleik fyrir Fjölni og skoraði tíu mörk. Óðinn Freyr Heiðmarsson kom næstur með fjögur.

Loks vann Valur, topplið úrvalsdeildarinnar, auðveldan 42:19-útisigur á B-liði ÍBV í Vestmannaeyjum. Tölfræði úr leiknum var ekki aðgengileg þegar blaðið fór í prentun.

Úrvalsdeildarliðin Stjarnan, Selfoss og Afturelding höfðu áður tryggt sér sæti í átta liða úrslitum.