Hlíðarendi Bandaríkjamaðurinn Joshua Jefferson, sem átti stórleik fyrir Valsmenn í gær, með boltann gegn Hetti á Hlíðarenda í gærkvöldi.
Hlíðarendi Bandaríkjamaðurinn Joshua Jefferson, sem átti stórleik fyrir Valsmenn í gær, með boltann gegn Hetti á Hlíðarenda í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Njarðvíkingar unnu ansi sterkan 101:97-heimasigur á ríkjandi Íslandsmeisturum Tindastóls í framlengdum spennuleik í 7. umferð úrvalsdeildar karla í körfubolta í gærkvöldi. Fyrir vikið er Njarðvík eitt þriggja liða á toppnum með tíu stig, en…

Körfuboltinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Njarðvíkingar unnu ansi sterkan 101:97-heimasigur á ríkjandi Íslandsmeisturum Tindastóls í framlengdum spennuleik í 7. umferð úrvalsdeildar karla í körfubolta í gærkvöldi. Fyrir vikið er Njarðvík eitt þriggja liða á toppnum með tíu stig, en Tindastóll er eitt fimm liða sem koma þar á eftir með átta stig.

Var leikurinn jafn og spennandi allan tímann, en Njarðvík var þó með 67:61-forskot fyrir fjórða og síðasta leikhlutann. Þar voru meistararnir sterkari og tókst þeim að knýja fram framlengingu. Eftir mikla spennu vann Njarðvík framlenginguna 13:9 og leikinn í leiðinni.

Hefur Njarðvík nú unnið tvo leiki í röð, eftir tvö töp í röð þar á undan. Tindastóll hefur hins vegar tapað tveimur leikjum í röð.

Chaz Williams skoraði 21 stig og tók 13 fráköst fyrir Njarðvík og þeir Mario Matasovic og Dominykas Milka gerðu 20 stig hvor. Callum Lawson skoraði 28 stig fyrir Tindastól og Þórir Guðmundur Þorbjarnarson 19.

Valur stakk af í seinni hálfleik

Valsmenn eru einnig með tíu stig eftir 80:69-heimasigur á Hetti. Hattarmenn voru sterkari í fyrri hálfleik og var staðan eftir hann 52:42. Valsmenn voru hins vegar mun sterkari aðilinn í seinni hálfleik. Vann Valur þriðja leikhlutann 17:9, fjórða leikhlutann 21:8 og leikinn sannfærandi í leiðinni.

Valur lék án fyrirliðans Kristófers Acox í gær, en hann er að glíma við meiðsli. Í fjarveru hans skoraði Bandaríkjamaðurinn Joshua Jefferson 30 stig. Kristinn Pálsson bætti við 23 stigum. Deontaye Buskey og David Ramos gerðu 16 stig hvor fyrir Hött.

Hefur Valur nú unnið þrjá leiki af síðustu fjórum, en Höttur tapað þremur af síðustu fimm.

Þórsarar aftur á sigurbraut

Þór frá Þorlákshöfn er þriðja liðið sem er með tíu stig á toppnum, en liðið komst aftur á sigurbraut er það mætti Breiðabliki á heimavelli. Urðu lokatölur 120:104. Er Breiðablik enn án stiga og á botninum ásamt nýliðum Hamars.

Þórsarar voru með frumkvæðið nánast allan leikinn og var staðan fyrir fjórða og síðasta leikhlutann 93:67. Gátu heimamenn slakað á í seinni hálfleik og fengu yngri leikmenn að spreyta sig, án þess að forskotinu hafi verið ógnað að ráði.

Nigel Pruitt átti stórleik fyrir Þór og skoraði 34 stig. Tómas Valur Þrastarson gerði 27 stig, tók sex fráköst og gaf sjö stoðsendingar.

Keith Jordan skoraði 28 stig, tók níu fráköst og gaf átta stoðsendingar fyrir Breiðablik. Sölvi Ólason gerði 26 stig fyrir Kópavogsliðið.

Keflavík skellti nýliðunum

Keflvíkingar lögðu grunninn að 97:78-heimasigri á nýliðum Álftaness með góðum fyrri hálfleik, en staðan eftir hann var 47:33. Náði Álftanes ekki að jafna í seinni hálfleik, þrátt fyrir fína spretti. Eru liðin í sjöunda og áttunda sæti með átta stig, tveimur stigum á eftir toppliðunum þremur.

Eru þau bæði með tvo sigra og tvö töp hvort í síðustu fjórum umferðunum.

Remy Martin var stigahæstur í jöfnu liði Keflavíkur með 22 stig. Halldór Garðar Hermannsson gerði 17 stig og Jaka Brodnik 16. Daniel Love skoraði 20 stig fyrir Álftanes og þeir Dúi Þór Jónsson og Haukur Helgi Pálsson 13 stig hvor.