MAST Matvælastofnun sætir gagnrýni Ríkisendurskoðunar.
MAST Matvælastofnun sætir gagnrýni Ríkisendurskoðunar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Það sem mér finnst vera rauði þráðurinn í þessum ábendingum Ríkisendurskoðunar, og er í takti við það sem áður hefur komið fram í úttektum Ríkisendurskoðunar, er að fjármögnun stofnunarinnar er ekki nægjanleg og gjaldskráin stendur ekki undir sér

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

„Það sem mér finnst vera rauði þráðurinn í þessum ábendingum Ríkisendurskoðunar, og er í takti við það sem áður hefur komið fram í úttektum Ríkisendurskoðunar, er að fjármögnun stofnunarinnar er ekki nægjanleg og gjaldskráin stendur ekki undir sér. Það gerir það að verkum að við náum ekki að sinna þeim lögbundnu verkefnum sem okkur eru falin,“ segir Hrönn Ólína Jörundsdóttir forstjóri Matvælastofnunar, MAST, í samtali við Morgunblaðið.

Viðbragða hennar var leitað við úttekt Ríkisendurskoðunar á stofnuninni sem greint var frá í blaðinu í gær, þar sem starfemi og starfshættir MAST voru gagnrýnd. Þar á meðal var fundið að því að stofnunin hefði sýnt langlundargeð í einstaka málum þar sem velferð dýra er ábótavant, stofnunin þyrfti að tryggja betri yfirsýn með vöktun frávika, bæta ímynd sína og efla lögbundið samráð og samstarf við hagaðila, svo nokkuð sé nefnt.

Hrönn Ólína segir að fjárskortur leiði af sér ýmis önnur vandamál, t.a.m. að ekki sé hægt að sinna eftirliti sem MAST telji nauðsynlegt. „En ef mál eru þannig vaxin að dýr séu í raunverulegri hættu þá höfum við tól og tæki til að bregðast við og við gerum það,“ segir Hrönn Ólína.

Ríkisendurskoðun bendir á að stofnuninni hafi ekki tekist að byggja upp nægilegt traust.

„Þetta hefur komið fram í úttekt Ríkisendurskoðunar áður og þar er m.a. vísað í ábendingar þeirra um að við ættum að ráða okkur fjölmiðlafulltrúa. Við þurftum að leggja það starf niður í sparnaði 2021 til þess að geta forgangsraðað í þágu eftirlits. Við erum eftirlitsstofnun og það mikilvægasta sem við gerum er að tryggja að okkar eftirlit sé með þeim hætti að við tryggjum öryggi og heilbrigði okkar skjólstæðinga sem eru bæði neytendur og dýr,“ segir Hrönn Ólína.

Drög að nýrri gjaldskrá lögð fram

– En hvað ætlið þið að gera?

„Við höfum lagt fyrir ráðuneytið drög að nýrri gjaldskrá sem kynnt var í samráðsgátt stjórnvalda í vor, en hefur því miður ekki fengið brautargengi. Við horfum í þær athugasemdir sem þarna koma fram og erum í stöðugri vinnu við að bæta okkar verklag sem við höfum verið að þróa sl. tvö ár. Þeirri vinnu verður haldið áfram til að gera stofnunina eins skilvirka, málefnalega og hnitmiðaða og mögulegt er. En það breytir því ekki að við erum í dag að nýta fjármagn sem ætlað er öðrum lögbundnum verkefnum en eftirliti til þess að forgangsraða í þágu eftirlits, en við getum ekki rukkað nema um helming af raunkostnaði fyrir það eftirlit sem við framkvæmum. Það er gríðarlega alvarlegt,“ segir Hrönn Ólína Jörundsdóttir.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson