Vatnsframkvæmdir Hitaveita Seltjarnarness varð af 20 milljónum á þessu ári vegna mistaka í stjórnsýslu. Gjaldskrárhækkanir eru í pípunum.
Vatnsframkvæmdir Hitaveita Seltjarnarness varð af 20 milljónum á þessu ári vegna mistaka í stjórnsýslu. Gjaldskrárhækkanir eru í pípunum. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Þetta er auðvitað mjög óheppilegt. Við urðum af þessum tekjum sem gert var ráð fyrir í áætlunum ársins 2023,“ segir Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi. Mistök í stjórnsýslu bæjarins ollu því að gjaldskrárhækkun hjá Hitaveitu Seltjarnarness, sem samþykkt hafði verið og átti að taka gildi um síðustu áramót, tók ekki gildi. Umrædd hækkun hefði skilað hitaveitunni um 20 milljónum króna það sem af er ári að sögn Þórs. Hún hefur nú tekið gildi en fyrir vikið mega íbúar bæjarins búast við frekari gjaldskrárhækkunum á nýju ári.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Þetta er auðvitað mjög óheppilegt. Við urðum af þessum tekjum sem gert var ráð fyrir í áætlunum ársins 2023,“ segir Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri á Seltjarnarnesi. Mistök í stjórnsýslu bæjarins ollu því að gjaldskrárhækkun hjá Hitaveitu Seltjarnarness, sem samþykkt hafði verið og átti að taka gildi um síðustu áramót, tók ekki gildi. Umrædd hækkun hefði skilað hitaveitunni um 20 milljónum króna það sem af er ári að sögn Þórs. Hún hefur nú tekið gildi en fyrir vikið mega íbúar bæjarins búast við frekari gjaldskrárhækkunum á nýju ári.

Í lok síðasta árs var samþykkt að hækka gjaldskrár vegna fráveitu, kalds vatns og heits vatns um 15% á Seltjarnarnesi. Umhverfisráðuneytið gerði athugasemd við hækkun á heita vatninu þar eð orkulög kveða á um 7% hámark á arðgreiðslu og hafði Seltjarnarnes farið yfir það að einhverju leyti árin 2020 og 2021 að sögn bæjarstjórans. Hækkunin hefur þó fengist samþykkt núna og hefur verið auglýst í Stjórnartíðindum og tekið gildi. Mannleg mistök á skrifstofu bæjarfélagsins ollu því hins vegar að skilaboðum um að hækkunin hefði ekki tekið gildi í ársbyrjun var ekki komið áleiðis til æðstu stjórnenda.

„Ég viðurkenni að ég átti að hafa eftirlit með þessu en ég uggði ekki að mér. Það sem blindaði mig voru fjármagnsliðir af stóru láni sem við tókum fyrir nýrri borholu. Við erum auðvitað að eiga við nánast 10% verðbólgu og við töldum einfaldlega að þessir fjármagnsliðir lána væru farnir að hafa svona mikil áhrif á tekjustreymið,“ segir Þór.

Bæjarbúar mega búast við frekari gjaldskrárhækkunum vegna hitaveitunnar. Ofan á þetta 20 milljóna tap er ýmis kostnaður sem þarf að ná utan um. „Við erum að byggja upp hitaveituna, ráða nýjan hitaveitustjóra og uppfæra og fjárfesta í dælubúnaði til að tryggja rekstraröryggi veitnanna. Þetta er hitaveita frá 1973 og hún þarfnast ákveðins viðhalds,“ segir Þór sem vill þó ítreka að enn sé verðið á heita vatninu nokkuð hagstætt hjá hitaveitunni. „Einingaverð til húshitunar verður 146 krónur hjá okkur samanborið við 192 krónur hjá Veitum. Við erum alla vega töluvert undir þeim.“