Borgin Máli Mörtu var vísað frá í tvígang af forsætisnefnd.
Borgin Máli Mörtu var vísað frá í tvígang af forsætisnefnd. — Morgunblaðið/Ómar
Innviðaráðuneytið telur forsætisnefnd borgarinnar ekki hafa farið eftir sveitarstjórnarlögum þegar hún hafnaði í tvígang að taka fyrir mál Mörtu Guðjónsdóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á fundi borgarstjórnar

Geir Áslaugarson

geir@mbl.is

Innviðaráðuneytið telur forsætisnefnd borgarinnar ekki hafa farið eftir sveitarstjórnarlögum þegar hún hafnaði í tvígang að taka fyrir mál Mörtu Guðjónsdóttur borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins á fundi borgarstjórnar.

„Það kemur skýrt fram í áliti ráðuneytisins að forsætisnefnd braut gegn sveitarstjórnarlögum um skýlausan rétt sveitarstjórnarmanna að setja á dagskrá þau málefni sem varða hagsmuni borgarbúa.“

Álit ráðuneytisins kemur tæpu ári eftir að Marta sendi inn kvörtun varðandi afgreiðslu forsætisnefndar á máli sínu. Hún segir athyglisvert hve langan tíma málið hafa verið til afgreiðslu. „Þarna töldum við vera um mjög brýnt mál að ræða sem ráðuneytið hefði þurft að bregðast strax við.“

Mál Mörtu snerist um hlutafjáraukningu Ljósleiðarans ehf., en fyrirtækið er að öllu leyti í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, sem er í eigu þriggja sveitarfélaga, þar á meðal Reykjavíkurborgar. Því taldi Marta að réttast væri að taka málið fyrir á fundi borgarstjórnar.

Ómaksins vert að kvarta

Marta lagði málið fyrir forsætisnefnd fyrst þann 16. desember 2022, en þá hafnaði nefndin málinu. Hún hafnaði því í seinna skiptið á fundi sínum 30. desember 2022 og bar nefndin fyrir sig í báðum tilfellum að ekki væri unnt að taka málið fyrir að svo stöddu á fundi borgarstjórnar, þar sem gagnaöflun á vettvangi rýnishóps stæði enn yfir.

Fram kemur í áliti innviðaráðuneytisins að forsætisnefnd borgarinnar hafi með því að hafna beiðni Mörtu ekki farið eftir sveitarstjórnarlögum.

Ráðuneytið lagði áherslu á í áliti sínu að réttur sveitarstjórnarmanna samkvæmt sveitarstjórnarlögum til að koma málefnum á dagskrá væri ríkur. Þannig hefði borgarstjórn verið í fullum rétti að ákveða framgang málsins á fundi sínum, en forsætisnefnd borgarinnar hafði ekki tilheyrandi rétt til þess að vísa málinu frá.

„Það getur komið upp á, að mál á dagskrá sé ekki tekið fyrir á fundi borgarstjórnar, en forsætisnefnd hefur ekki heimild til þess að hafna því að taka mál á dagskrá,“ segir Marta og bætir við:

„Miðað við niðurstöðurnar tel ég það hafa verið ómaksins vert að leggja fram þessa kvörtun og tel það mjög mikilvægt að kjörnir fulltrúar standi vörð um grundvallarréttindi sín og skyldur, enda er það grunnþáttur í lýðræðislegri stjórnskipun.“