Sigurður Gunnar Daníelsson tónlistarmaður fæddist á Siglufirði 26. maí 1944. Hann lést á Þórshöfn 25. október 2023.

Foreldrar hans voru Daníel Þórhallsson, landskunnur söngvari, f. 1. ágúst 1913, d. 7. september 1991, og Dagmar Fanndal, f. 24. september 1915, d. 24. ágúst 2002. Bróðir hans var Þórhallur Daníelsson skrifstofumaður, f. 29. ágúst 1941, d. 16 október 2010.

Systur hans eru Soffía Svava, f. 9. mars 1948, maki Birgir Guðjónsson, f. 21. maí 1948, og Ingibjörg, f. 16.10. 1950.

Sigurður bjó í nokkur ár með Elinborgu Sigurgeirsdóttur, f. 1951, og eignuðust þau soninn Daníel Geir hinn 30. október 1984. Kona hans er Elinor Anderson. Þau búa í Gautaborg í Svíþjóð. Dóttir þeirra er Erla Dagmar, f. 2022. Dóttir Elinborgar og fósturdóttir Sigurðar er Vigdís Gígja Ingimundardóttir, f. 1977, gift Eyjólfi Snædal Aðalsteinssyni og eiga þau dæturnar Ylfu Ásgerði, f. 2006, og Eyju Móheiði, f. 2009.

Sigurður var fyrst og fremst tónlistarmaður. Hann starfaði víða, m.a. á Raufarhöfn, Blönduósi og Skagaströnd, á Tálknafirði, Suðureyri og Þingeyri, alls staðar sem tónlistarkennari, skólastjóri, kirkjuorganisti og kórstjóri.

Sigurður hafði einnig mörg áhugamál, m.a. myndlist og skák. Hann bjó mörg síðustu árin á Raufarhöfn, en andaðist á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Nausti á Þórshöfn.

Útför hans verður frá Raufarhafnarkirkju í dag, 18. nóvember 2023, klukkan 14.

Kæri Sigurður.

Mig langar til þess að þakka þér fyrir tímann sem við áttum saman á lífsleiðinni. Þú varst mér sem faðir og mér þykir vænt um hvað við náðum að halda góðu sambandi alla tíð.

Við Daníel bróðir ólumst upp við mikið tónlistarlíf í kringum ykkur mömmu þegar við bjuggum í tónlistarskólanum á Blönduósi, þar sem þið voruð bæði við kennslu og kórastarf, og var alltaf mjög líflegt í húsinu. Ég var dugleg að passa Daníel á efri hæðinni á kvöldin þegar þið voruð á æfingum niðri, það var gott að hafa ykkur svona nálægt og fyrirkomulagið var þægilegt fyrir alla.

Einhverjum kennarafræjum var sáð þarna því við Daníel erum nú bæði menntaðir kennarar þar sem bæði tónlist og myndlist kemur ríkulega við sögu. Þú varst listrænn og lagðir mikla áherslu á teikningu og hvattir mig áfram á því sviði og svo síðar stelpurnar mínar, sem þér fannst hafa náð geysigóðum árangri síðast þegar við hittumst og þær teiknuðu myndir fyrir þig. Það var mikið stuð þar sem þú varst og þú spilaðir gjarnan á píanóið og söngst með, hlóst og gantaðist, alltaf með húmorinn að leiðarljósi. Þú gast líka verið afar einbeittur þegar þú varst að teikna, mála og tefla, en skák var stór partur af þínu lífi, sem þú stúderaðir mikið og skrifaðir um. Þú varst lífskúnstner og þegar við hittumst vildir þú helst vera að gera eitthvað eins og að teikna, spila yatzy, sem þú varst meistari í, eða skoða landslagið og náttúruna. Mér er minnisstætt síðasta sumarið sem þú áttir heima á Raufarhöfn, þegar við komum í tuttugu stiga hita og sólsetrið var himneskt. Við fórum með þér og keyrðum Melrakkasléttuna og það voru svo fallegir litir og þú naust þess í botn. Og þá meina ég í botn. Við erum ennþá að gleðjast yfir þessari ferð og hversu ánægður þú varst með umhverfið þitt á Raufarhöfn þrátt fyrir að vera langt frá fjölskyldunni sem vildi svo gjarnan geta verið meira í þinni návist. Það er líka táknrænt að þegar þú komst inn í líf okkar mömmu vorum við með annan fótinn á Raufarhöfn og þar byrjaði skólagangan mín. Fjölskyldan mín minnist þín með gleði í hjarta, því minningarnar eru góðar og sannar og minningarnar lifa. Hvíldu í friði, kæri Sigurður, og takk fyrir allar góðu samverustundirnar.

Vigdís Gígja
Ingimundardóttir.

Við fráfall Sigurðar G. Daníelssonar koma margar minningar í hugann. Hann bjó um árabil með Elinborgu systur og voru þá okkar samfundir tíðir. Þau bjuggu saman nokkur ár á Blönduósi, kenndu þar bæði við Tónlistarskóla A-Hún. Þá var Sigurður organisti og kórstjóri á Blönduósi og Skagaströnd og tónlistarkennari á Húnavöllum. Hann stjórnaði Samkórnum Björk á Blönduósi og á þeim tíma gaf kórinn út hljómdisk. Einnig voru þau Elinborg saman um tíma hér á Hvammstanga og kenndu bæði við Tónlistarskóla V-Hún.

Það var ávallt gaman að hitta Sigurð, hann var léttur í lund og gat gantast, einkum við píanóið, en þar lék hann við hvern sinn fingur. Hann gaf út einn hljómdisk, Dinner I, með dinnertónlist, en þá tónlist hafði hann í fingrunum. Sigurður var mikill skákmaður, m.a. félagi í skákfélaginu Goðanum, varð þar skákmeistari 2016 og tefldi þar síðast á skákmóti 2022.

Hann starfaði víða sem tónlistarmaður og má fullyrða að hann hafi auðgað mannlífið þar sem hann var hverju sinni. Glaðværð hans og framkoma laðaði fram kátínu og gleði hjá þeim sem hann umgekkst. Faðir hans, Daníel Þórhallsson, var landskunnur tenórsöngvari og söng m.a. með Karlakórnum Vísi á Siglufirði. Eftirminnilegur er hann í flutningi lagsins Vor í dal, þar sem hann syngur einsöng. Sjálfur hafði Sigurður háa tenórrödd.

Samband Sigurðar við Daníel Geir son sinn var fallegt og eftirtektarvert, þótt oft væri langt milli vina. Þegar þeir hittust var gjarnan slegið upp skákborði og teflt í nokkra klukkutíma. Þeir spiluðu einnig oft á spil, af miklu kappi. Fjölskyldan hittist oftast um jólin, stundum í boði Ólafar Pálsdóttur frænku, sem lánaði þá íbúð sína á Hvammstanga. Daníel býr nú í Svíþjóð með konu sinni, Elinor, og ungu dótturinni, Erlu Dagmar. Áform voru um jólasamveru fjölskyldunnar á Íslandi, en þau áform hafa nú breyst.

Sigurður hafði margvíslega list í höndum sér, hann var nokkuð góður listmálari og skildi eftir sig dágott safn málverka og var ósínkur á að gefa myndverk. Einnig var hann prýðiskokkur og nutum við Anne kona mín þess á góðum stundum. Nú berast ekki fleiri jólakort frá Sigurði, þau voru listilega gerð með eins konar skrautskrift og útflúri og góðum kveðjum.

Sigurður átti síðustu árin góðan tíma á Raufarhöfn, ekki síst þegar heilsan lét undan. Síðustu mánuðina dvaldi hann við góða hjúkrun á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Nausti á Þórshöfn og andaðist þar 25. október sl. Útför hans verður að hans ósk frá Raufarhafnarkirkju í dag.

Við hjónin viljum færa eftirlifendum innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Sigurðar G. Daníelssonar.

Karl Ásgeir Sigurgeirsson.

Látinn er kær vinur og samferðamaður, Sigurður Gunnar Daníelsson. Kynni okkar hófust árið 1983. Það ár var ég við skólastjórn Tónlistarskóla Norður-Þingeyjarsýslu. Sigurður starfaði í Reykjavík. Haustið 1984 hófum við störf við Tónlistarskóla Austur-Húnavatnssýslu. Við unnum við tónlistarkennslu og kórastarf, Sigurður sem stjórnandi og ég sem undirleikari. Einnig sinnti

Sigurður organistastörfum bæði á Blönduósi og Skagaströnd. Við trúlofuðum okkur árið 1984 og eignuðumst soninn Daníel Geir Sigurðsson 30. október sama ár. Sigurður gekk dóttur minni, Vigdísi Gígju Ingimundardóttur, í föðurstað. Hún er fædd 1977 og var því sex ára.

Lífið á Blönduósi var ljúft og alltaf nóg að gera. Við fórum oft í heimsókn í Bjarg, þar sem ég ólst upp, og unnum við það sem til féll hverju sinni. Ein minning kemur upp í hugann, ég átti hest sem var uppátækjasamur. Eitt sinn voru tónleikar í vændum og skrúfaði hesturinn þá frá vatninu og við þurftum að fara úr sparifötunum og bjarga málunum.

Efst er mér í huga þakklæti til Sigurðar Gunnars fyrir samfylgdina og eins vil ég nota tækifærið til að þakka fjölskyldu hans fyrir mjög góða viðkynningu. Tengdaforeldrar mínir, Daníel Þórhallsson og Dagmar Fanndal, voru mér mjög góð. Farðu í friði kæri vinur og hafðu þökk fyrir einlæga væntumþykju.

Elinborg Sigurgeirsdóttir.

Daníel Þórhallsson, útgerðarmaður í Siglufirði, söng einsöng með Karlakórnum Vísi undir stjórn Þormóðs Eyjólfssonar í laginu „Vor í Dal“ eftir Peter Wulsing. Þetta naut mikilla vinsælda upp úr miðri öldinni sem leið; heyrðist oft leikið í Ríkisútvarpinu að beiðni hlustenda. Þormóður var bróðir Sigurðar Birkis, söngmálastjóra þjóðkirkjunnar. Upphaf hins ástsæla ljóðs Freysteins Gunnarssonar er svona: „Þó að æði ógn og hríðir / aldrei neinu kvíða skal. / Alltaf birtir upp um síðir, / aftur kemur vor í dal.“

Um lagavalið í Óskalagaþætti sjúklinga sagði íslenskur rithöfundur, að af því mætti ráða, að það yrði aldrei neinn músíkalskur maður veikur. En það er önnur saga.

Sigurður, sonur Daníels, var raddmaður ágætur eins og faðir hans. Minntist Sigurður þess, að þegar hann hefði unglingsmaður rekið upp rokur einsöngvarans í umræddu lagi, stokkið með öllu hindrunarlaust og án erfiðismuna í hæstu hæðir í stað þess að láta nægja að benda á háa tóninn uppi í rjáfri, hefði hann undantekningarlaust verið beittur höstugu aðkalli: „Viltu gjöra svo vel að hætta að herma eftir honum pabba þínum, Sigurður!“

Sigurður Daníelsson var hæfileikamaður og fjölmargt til lista lagt. Hann var sterkgreindur, sleipur skákmaður, flinkur teiknari, músíkalskur í besta lagi, skemmtilegur í viðræðu og búinn næmri kímnigáfu. Hann lék á píanó og var prýðilega lipur organisti; hafði vel á valdi sínu svonefnda módúlasjón, þ.e. tóntegundaskipti, er ljá guðsþjónustunni samfelldan svip og forða því að óþarfa gat komi í athöfnina eða kindarlegt hlé.

Gerum ráð fyrir að nú ljúki organisti sálmi í C-dúr, en síðan eigi prestur að upphefja messutón, er falla skuli að svari kórs og safnaðar í B-dúr. Prestur velur þá tónhæð, er honum hentar, en söfnuður svarar í hinum fyrirskrifaða B-dúr. Messufólkið hrekkur við; þetta stingur óþægilega í eyrun. Það hefur orðið hljómfræðilegur árekstur milli prests og söngflokks. Prestur hefði getað bjargað þessu með því að taka réttan tón, án þess organistinn gæfi honum hann. Orgelleikarinn hefði líka getað liðsinnt með því að gefa presti tóninn, annað hvort einan sér, ellegar, sem betur fer á, með módúlasjón.

Allt gekk þetta skafið þar sem Sigurður Daníelsson var organisti.

Prestur einn, sem lengi þjónaði á Vestfjörðum og kunni að lesa hljóð af blaði, hafði jafnan sálmasöngsbókina á altarinu og tók því ávallt réttan tón. Ungur kollega, sem var söngvinn að hófi, brynjaði sig gegn tónfræðilegum skakkaföllum með því að hafa hjá sér það einfalda, en gagnsamlega verkfæri, tónkvísl.

Sigurður heitinn úrsmíðameistari og organisti lengi Fríkirkjunnar í Reykjavík Ísólfsson var undrafimur að færa sig stystu leiðina á milli tóntegunda. Guðfræðinemi, sem var að bjástra við að skrifa ritgerð um módúlasjón, spurði Sigurð hvernig hann hefði lært þessa list. Sigurði varð þá þetta að svari: „Fingurnir rata alveg af sjálfu sér.“ En Sigurður var raunar sjení.

Með mikilli þökk og í bæn um blessun Guðs er Sigurður G. Daníelsson kært kvaddur. Friður Guðs sé yfir legstað hans og blessun yfir endurfundum hans við ástvinina, sem á undan honum eru farnir af þessum heimi. Guð blessi hann og ástvini hans alla, bæði þessa heims og annars.

Gunnar Björnsson
pastor emeritus