Hamborgaraát „Þrátt fyrir marga kosti er Morðinginn einfaldlega langdregin og leiðinleg mynd.“
Hamborgaraát „Þrátt fyrir marga kosti er Morðinginn einfaldlega langdregin og leiðinleg mynd.“
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Netflix The Killer / Morðinginn ★★½·· Leikstjórn: David Fincher. Handrit: Alexis Nolent, Luc Jacamon og Andrew Kevin Walker. Aðalleikarar: Michael Fassbender. 2023. Bandaríkin. 118 mín.

Kvikmyndir

Jóna Gréta

Hilmarsdóttir

Nýjasta mynd Davids Finchers fær heitið The Killer eða Morðinginn og er líkt og margar fyrri myndir hans fullkomið dæmi um gauramynd (e. dude-flicks). Eyja Orradóttir gerir grein fyrir hugtakinu „gauramyndir“ í BA-ritgerð sinni „Gauramyndir: Karlmennska í vinsælum kvikmyndum“ sem aðgengileg er í Skemmunni og ber það saman við þekktara hugtakið „skvísumyndir“ (e. chick-flicks). „Gauramyndir“ er hugtak sem er sjaldan notað á meðan „skvísumyndir“ hefur fest í sessi. Þrátt fyrir mikil líkindi hljóta kvikmyndagreinarnar mismikið vægi í kvikmyndageiranum enda um að ræða mjög karllægan iðnað.

Eyja tekur sérstaklega fyrir kvikmyndina Fight Club (1999) eftir Fincher sem skólabókardæmi vegna vinsælda hennar og áherslu á karlmennsku. Morðinginn er annað dæmi um gauramynd og í raun nákvæmlega það sem við var að búast af Fincher. Sömu eiginleikar eru ríkjandi í Morðingjanum eins og Fight Club og öðrum fyrri myndum hans en þeir eru; völd, fullkomnunarárátta og þráhyggja. Þessir eiginleikar koma ekki einungis fram í sögunni eða sögupersónum heldur líka í allri umgjörð kvikmyndarinnar. Tökuvélin sjálf virðist til dæmis vera haldin fullkomnunaráráttu af því að hún er alltaf í takt við hreyfinguna í rammanum, ef karakterinn stendur upp þá eltir tökuvélin hann og svo framvegis. Þessi kvikmyndastíll er sannarlega áhugaverður en ekki allra enda getur hann virkað mjög vélrænn og stífur.

Morðinginn er byggð á samnefndri teiknimyndabókaseríu (e. graphic novel series) skrifuð af Alexis Nolent og teiknuð af Luc Jacamon. Sagan fylgir leigumorðingja og algjörum fullkomnunarsinna (Michael Fassbender) sem klúðrar einu verkefni og neyðist þar af leiðandi til þess að hylja slóð sína. Kvikmyndin byrjar í París en þar fylgist morðinginn með viðfangi sínu í þrjá daga. Hann nælir sér í McDonald’s-borgara, hlustar á Smith og klæðir sig eins og þýskur ferðamaður svo enginn vilji tala við hann. Undirrituð sá myndina í bíóhúsi í Berlín og er óhætt að segja að brandarinn um þýska túrista hafi slegið í gegn.

Morðinginn, sem er nafnlaus, er líka sögumaður myndarinnar og lýsir öllu því sem hann gerir, hvort sem það er að borða McDonald’s-hamborgara eða réttlæta morðin sem hann fremur. Mantran sem hann notar síðan til þess að staðsetja sig í núinu hljómar svona: „Ekki sýna miskunn.“ Eflaust finnst einhverjum þessar langdregnu lýsingar fyndnar og skýr gagnrýni á neyslusamfélagið en undirrituð er á þeirri skoðun að Fincher sé of upptekinn af því að reyna að vera töff með myndinni og það verði til þess að áhorfendur fái kjánahroll.

Faflan virkar spennandi en þegar það er búið að fletja hana út í nánast tveggja klukkustunda mynd þá er spennan farin. Faflan býður hins vegar upp á áhugaverða stuttmynd en margir virtir leikstjórar virðast vera svolítið hræddir við að fara aftur í stuttmyndaformið eins og það sé skref aftur á bak í ferlinum. Í raun er glæsilega stiklan (e. trailer) sterkasti hluti myndarinnar og nóg að horfa á hana. Í stiklunni fær Tilda Swinton líka hlutfallslega miklu meiri skjátíma en í myndinni. Eitt sterkasta atriði myndarinnar er þegar leigumorðinginn hittir Swinton eða svokallaðan sérfræðinginn (e. the expert) á fínum veitingastað og bæði eru meðvituð um það að þetta gæti orðið seinasta máltíðin þeirra.

Þrátt fyrir marga kosti er Morðinginn einfaldlega langdregin og leiðinleg mynd. Eftir myndina er maður engu nær um hver boðskapur myndarinnar er og af hverju maður ætti að hafa áhuga á að horfa á hana. Rýnir, líkt og eflaust margir, horfði bara á myndina af því að Fincher leikstýrði henni. Morðinginn er vissulega mjög í takt við hans fyrri myndir en það vantaði þennan stóra snúning á fléttunni (e. plot twist) sem við þekkjum úr myndum hans. Óvænta atriðið átti sér stað í byrjun og undirrituð var alltaf að bíða eftir því að meira kæmi í ljós um persónurnar sem yrði til þess að áhorfendur myndu sjá söguna í allt öðru ljósi en slíkt atriði kom aldrei og myndin kláraðist. Persónusköpunin var líka svo takmörkuð að það hefði líklegast verið erfitt að koma með einhverja óvænta uppákomu, áhorfendur vissu ekkert um aðalpersónuna, en sú sem hér skrifar hafði trú á að Fincher gæti gert það. Undirrituð getur hins vegar vel ímyndað sér að myndin veiti einhverjum ánægju enda margt spennandi tæknilega séð í myndinni og mörg atriði einstaklega flott framsett eins og t.d. fyrsta og langa bardagaatriðið. Það sakar því ekki að horfa á myndina en undirrituð varar áhorfendur við lítilli spennu og litlum hasar þrátt fyrir að kvikmyndin flokkist helst undir þá kvikmyndagrein, þ.e. sem spennu- og hasarmynd.