Grindavík Grindvíkingar eru farnir að svipast um eftir íbúðum á höfuðborgarsvæðinu og til skoðunar er að aðstoða þá við íbúðakaup.
Grindavík Grindvíkingar eru farnir að svipast um eftir íbúðum á höfuðborgarsvæðinu og til skoðunar er að aðstoða þá við íbúðakaup. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stjórnvöld eru með til skoðunar að aðstoða Grindvíkinga við íbúðakaup og mögulegt er talið að fundin verði leið til þess með samstarfi Seðlabankans,…

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Stjórnvöld eru með til skoðunar að aðstoða Grindvíkinga við íbúðakaup og mögulegt er talið að fundin verði leið til þess með samstarfi Seðlabankans, viðskiptabankanna og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Þetta staðfestir Vilhjálmur Árnason alþingismaður í samtali við Morgunblaðið og nefnir að hugmyndin sé víða í skoðun og hafi einnig verið rædd í ríkisstjórn.

Vilhjálmur bendir á að leigumarkaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafi verið erfiður fyrir og versnað enn þegar 1.200 grindvískar fjölskyldur hafi bæst þar við.

„Það eru margar íbúðir til sölu sem verktakar geta ekki leigt en verða að selja til að geta komist áfram í næsta fasteignaverkefni. Ef stjórnvöld aðstoða Grindvíkinga við að kaupa sér eign, þá ná þeir stöðugleika á meðan ástandið gengur yfir og geta farið að búa til verðmæti aftur í stað þess að greiða 300 til 400 þúsund á mánuði í leigu. Þegar staðan verður komin í lag í Grindavík getur fólk tekið ákvörðun um að fara til baka og selt,“ segir Vilhjálmur.

„Með þessu móti er hægt að leysa margt. Það er talsvert til af lausum íbúðum sem eru til sölu en ekki til leigu. Þá kemst hreyfing á markaðinn og Grindvíkingar fá stöðugleika í sín íbúðamál. Ef farin yrði svona leið yrði minni pressa á stjórnvöldum og fólk myndi sjálft leysa úr húsnæðisvanda sínum í stað þess að ríkið myndi fara að kaupa fjölda íbúða og útdeila meðal fólks. Ég legg gríðarlega áherslu á þetta,“ segir hann og bætir við: „Þetta mun líka tryggja meiri andlega ró hjá Grindvíkingum, að fá fastan punkt og geta farið að byggja eitthvað upp, að geta farið að búa til nýjan griðastað á meðan óvissan er í gangi.“

Gunnar Bergmann Jónsson, fasteignasali hjá Eignamiðlun, staðfestir í samtali við Morgunblaðið að fasteignasalan hafi þegar haft milligöngu um sölu nokkurra íbúða til Grindvíkinga undanfarna daga og margir séu að skoða. Hann bendir á að verktakar sem eru í samstarfi við fasteignasöluna séu með talsvert á annað hundrað íbúðir tilbúnar til sölu og afhendingar á næstu dögum og vikum. Hann segir einnig að ef framangreindar hugmyndir komast til framkvæmda muni það hafa mjög jákvæð áhrif á íbúðamarkaðinn og geri verktökum kleift að snúa sér að byggingu nýrra íbúða sem auka muni framboð á markaði þar sem mikil þörf sé fyrir nýjar íbúðir.

Þá segist Páll Þorbjörnsson, fasteignasali hjá Allt fasteignasölu, hafa orðið var við að Grindvíkingar séu að leita sér að íbúðum til kaups á höfuðborgarsvæðinu.