Sorgin sem sækir að Grindvíkingum þegar þeim er skipað að yfirgefa bæinn sinn tengist meðal annars minningum sem geymast mann fram af manni

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Af grein sem Hrafn Sveinbjarnarson, héraðsskjalavörður Kópavogs, birti á Skjalavefnum 29. október 2023 má ráða að breytt viðhorf þjóðskjalavarðar, Hrefnu Róbertsdóttur, til héraðsskjalasafna hafi orðið kveikjan að væntanlegri lokun Borgarskjalasafna og Héraðsskjalasafna Kópavogs sem ákveðin var vorið 2023 þrátt fyrir hávær mótmæli margra – en greinilega ekki nógu margra.

Þegar mennta- og barnamálaráðherra, Ásmundur Einar Daðason, boðaði að sameina skyldi Menntaskólann á Akureyri (MA) og Verkmenntaskólann á Akureyri (VMA) risu þeir sem báru góðan hug til skólanna upp og mótmæltu svo kröftuglega að ráðherrann dró í land og hefur nú tilkynnt að horfið sé frá sameiningu framhaldsskóla.

Menningarmálaráðherra, Lilja D. Alfreðsdóttir, fagnaði tilkynningu meirihluta borgarstjórnar Reykjavíkur um niðurlagningu Borgarskjalasafnsins og benti á lóð undir Þjóðskjalasafnið á Melunum, fyrir austan Bændahöllina sem er orðin hluti húsakosts Háskóla Íslands. Verði ráðist í að reisa hús yfir Þjóðskjalasafn þar er líklegt að byggingin verði ef til vill risin innan 20 ára sé mjög vel að verki staðið.

Í grein sinni minnir Hrafn á að þjóðskjalavörður hafi haldið því fram að þjónusta Þjóðskjalasafnsins við neytendur yrði sú sama og hjá aflögðu söfnunum. Starfsmaður Þjóðskjalasafnsins hafi tekið í sama streng. „Þetta er villandi málflutningur og undarlegur af hálfu Þjóðskjalasafnsins, og virðist til þess fallinn að afla tekna til Þjóðskjalasafns frá sveitarfélögum,“ segir Hrafn og bendir á að strax árið 2014 við setningu laga um skjalasöfn hafi Félag héraðsskjalavarða varað við að til slíkrar fjáröflunar kynni að koma. Segir hann að „svikamyllan“ sem héraðsskjalaverðir óttuðust sé nú farin í gang.

Hrafn segir að forverar núverandi þjóðskjalavarðar hafi hvatt til stofnunar héraðsskjalasafna einmitt vegna þess að Þjóðskjalasafnið annaði ekki þeim verkefnum sem það hafði þá þegar í þjónustu við ríkið og hefði ekki rými fyrir skjöl sveitarfélaga í ofanálag.

Hrafn Sveinbjarnarson segir frá því í grein sinni að 1. október 2023 hafi gengið í gildi reglur um eyðingu (grisjun) skjala settar af þjóðskjalaverði. Afleiðingar reglnanna séu svo „víðtækar og ískyggilegar“ að reynt hafi verið að draga fjöður yfir alvöru málsins með því að segja þetta heimild til að eyða skjölum úr fjárhagsbókhaldi sveitarfélaga en ekki skyldu til grisjunar. Við setningu reglnanna var að sögn Hrafns þagað um rökstudd andmæli nokkurra héraðsskjalavarða.

Svanhildur Bogadóttir borgarskjalavörður hefur brugðist einstaklega vel við óskum um varðveislu einkaskjalasafna. Sum söfnin má skoða skönnuð í netheimum. Fyrr á árinu var hluti einkaskjalasafns sýndur á vegum Borgarskjalasafns í Kringlunni og anddyri Laugardalslaugar.

Stafræn þjónusta Borgarskjalasafnsins hefur örugglega auðveldað mörgum rannsóknir og hvatt til aukins áhuga á sögu og mannlífi í borginni.

Dapurlegt er fyrir þá sem trúað hafa Borgarskjalasafni og Héraðsskjalasafni Kópavogsbæjar fyrir einkaskjalasöfnum að lesa það sem Hrafn segir um hug þjóðskjalavarðar til slíkra safna.

„Hugmyndin er að skilja hreinlega eftir einkaskjöl, sem Borgarskjalasafni og Héraðsskjalasafni Kópavogs hefur verið trúað fyrir af einstaklingum og félagasamtökum á svæðum þeirra, í höndum óskilgreindra stofnana sem hafa ekki opinbera skjalavörslu að hlutverki og ekki á að skipa starfsfólki með þjálfun til hennar,“ segir Hrafn.

Hann veit ekki hvers vegna ákveðið er að setja þessi söfn skör neðar en annan safnkost en ástæðan kunni að vera sú að ólíklegt megi telja „að hægt verði að gera Reykjavíkurborg og Kópavogsbæ skylt að greiða meðgjöf með einkaskjalasöfnum til langtímavörslu í Þjóðskjalasafni, en þau taka rými“.

Segir Hrafn réttilega að þannig sýni „bæði sveitarfélögin og Þjóðskjalasafn þessum menningarverðmætum algert virðingarleysi“ og dæmi „þau til glötunar með því að láta þau hægt og rólega hverfa í óskilgreindum stofnunum sem ekki hafa á að skipa sérhæfðum skjalavörðum“.

Undir þau orð Hrafns skal tekið að verði einkaskjalasöfnum sýnt tómlæti á þennan hátt séu það „svik við þá sem afhent hafa Borgarskjalasafni og Héraðsskjalasafni Kópavogs einkaskjöl sín ofan á þau svik meirihluta sveitarstjórnanna við þá, sem fólust í að leggja skjalasöfnin niður“.

Að staðið verði að meðferð gagna í opinberum skjalasöfnum eins og hér er lýst er fjarri því sem nokkur gat ímyndað sér. Vanhugsaðar aðgerðir leiða til misheppnaðrar niðurstöðu og í þessu tilviki brota á rétti þeirra sem afhent hafa safni skjöl. Eftir að einkaskjöl eru afhent Borgarskjalasafni eru þau óafturkræf nema meinbugir séu á afhendingu og/eða meðferð skjalanna.

Um miðja vikuna fóru tíu starfsmenn Þjóðskjalasafns Íslands að frumkvæði safnsins til Grindavíkur og aðstoðuðu starfsmenn mannauða bæjarins við að bjarga mikilvægum skjölum frá hættu af völdum jarðskjálfta og hugsanlegra jarðelda.

Skjölin varða dagleg úrlausnarefni eins og lóðir, málefni fatlaðra, barnaverndarmál og réttindamál bæjarbúa. Óbætanlegt tjón yrði með öðrum orðum hefðu bæjaryfirvöld ekki áfram aðgang að skjölunum.

Sorgin sem sækir að Grindvíkingum þegar þeim er skipað að yfirgefa bæinn sinn tengist meðal annars minningum sem geymast mann fram af manni. Við þessar minningar ber að leggja rækt. Þar gegna héraðsskjalasöfn miklu hlutverki.

Heimamenn virða best minningar heimahaganna. Það ber að viðurkenna í verki.