Lögregla Umtalsvert færri kynferðisbrot hafa verið skráð í ár.
Lögregla Umtalsvert færri kynferðisbrot hafa verið skráð í ár. — Morgunblaðið/Eggert
Lögreglan skráði tilkynningar um 126 nauðganir fyrstu níu mánuði ársins. Það er umtalsvert minna en verið hefur á liðnum árum en til samanburðar var 191 nauðgun tilkynnt á sama tímabili í fyrra. Nemur fækkunin 34% milli ára

Lögreglan skráði tilkynningar um 126 nauðganir fyrstu níu mánuði ársins. Það er umtalsvert minna en verið hefur á liðnum árum en til samanburðar var 191 nauðgun tilkynnt á sama tímabili í fyrra. Nemur fækkunin 34% milli ára. Að meðaltali eru skráðar tilkynningar um 14 nauðganir á mánuði hjá lögreglunni. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu ríkislögreglustjóra um kynferðisbrot frá janúar og út september.

„Við vonumst til að þetta endurspegli fækkun brota en við getum aldrei fullyrt það fyrr en við höfum skoðað betur kannanir og það sem fólk er að segja við okkur þar,“ segir Eygló Harðardóttir, verkefnastjóri afbrotavarna hjá ríkislögreglustjóra.

Í skýrslunni er rakið að lögregla skrái bæði hvenær brot eru tilkynnt og hvenær þau áttu sér stað. „Ástæða þess er að í kynferðisbrotum líður oft tími á milli þess að brotið á sér stað og tilkynnt er um það til lögreglu. Þegar horft er til tíma brots, var tilkynnt um 89 nauðganir sem áttu sér stað fyrstu níu mánuði ársins, eða tíu nauðganir á mánuði, sem samsvarar 45% færri brotum frá sama tímabili í fyrra.“

Alls skráði lögreglan 388 tilkynningar um kynferðisbrot á tímabilinu, eða 1,4 á dag. „Öllum tegundum skráðra kynferðisbrota fækkar samanborið við sama tímabil í fyrra og ekki hafa jafnfáar nauðganir verið tilkynntar til lögreglu á tímabilinu 2010 til 2023 sem skýrslan nær yfir.“ hdm@mbl.is