EM 2024
Víðir Sigurðsson
vs@mbl.is
Ísland verður í hópi þeirra tólf liða sem taka þátt í umspili í mars þar sem barist verður um síðustu þrjú sætin í lokakeppni Evrópumóts karla í knattspyrnu, sem fer fram í Þýskalandi næsta sumar.
Þetta komst endanlega á hreint í gærkvöld þegar Tékkar tryggðu sér keppnisrétt á EM með því að sigra Moldóvu á heimavelli, 3:0, í lokaumferð E-riðils keppninnar.
Ef Tékkar hefðu tapað fyrir Moldóvu hefði íslenska liðið þurft að treysta á að Úkraína ynni Ítalíu til að komast í umspilið. Sá leikur endaði með markalausu jafntefli sem þýðir að Ítalía fer á EM en Úkraína í umspilið.
Dregið á fimmtudaginn
Ísland fer annaðhvort í A- eða B-riðil umspilsins en dregið verður á fimmtudaginn um hvort Finnland, Úkraína eða Ísland færist upp í A-riðil umspilsins.
Tuttugu lið fara beint á EM, tvö efstu liðin í hverjum riðli undankeppninnar, og Þýskaland er 21. liðið sem gestgjafi. Að lokum bætast síðan við sigurliðin úr umspilsriðlunum þremur.
Síðasta sætið í kvöld
Nítján af þessum tuttugu sætum eru á hreinu en í kvöld ræðst hvort Króatía eða Wales verður 20. liðið til að komast beint áfram úr riðlakeppninni.
Niðurstaðan í riðlunum tíu er þessi:
A-riðill: Spánn og Skotland fara á EM.
B-riðill: Frakkland og Holland fara á EM.
C-riðill: England og Ítalía fara á EM.
D-riðill: Tyrkland fer á EM. Króatía fer áfram með sigri á Armeníu heima í kvöld, annars getur Wales farið áfram með því að sigra Tyrkland.
E-riðill: Albanía og Tékkland fara á EM.
F-riðill: Austurríki og Belgía fara á EM.
G-riðill: Ungverjaland og Serbía fara á EM.
H-riðill: Danmörk og Slóvenía fara á EM.
I-riðill: Rúmenía og Sviss fara á EM.
J-riðill: Portúgal og Slóvakía fara á EM.
Umspilsriðlarnir þrír
Umspilsriðlarnir þrír líta þannig út fyrir lokaleikina í kvöld:
A-riðill: Króatía eða Wales, Pólland, Úkraína/Ísland/Finnland, Eistland.
B-riðill: Ísrael, Bosnía, Finnland/Úkraína/Ísland (tvö af þremur).
C-riðill: Georgía, Grikkland, Kasakstan, Lúxemborg.
Fyrsta lið mætir fjórða liði og annað lið mætir þriðja liði í undanúrslitum riðlanna 21. mars og sigurliðin mætast í úrslitaleikjum viðkomandi riðla 26. mars. Á fimmtudaginn kemur verður dregið um hvaða lið fá úrslitaleikina á heimavelli en sem kunnugt er mun Ísland þurfa að leika þann úrslitaleik erlendis, þó liðið fái heimaleik, vegna vallarskilyrða hérlendis.
Þrír möguleikar
Þrír möguleikar eru fyrir hendi með mótherja Íslands í undanúrslitum umspilsins.
Ef Ísland dregst í A-riðilinn og Króatía vinnur sér EM-sæti í kvöld verður Wales andstæðingurinn á útivelli.
Ef Ísland dregst í A-riðilinn og Wales vinnur sér EM-sæti í kvöld verður Pólland andstæðingurinn á útivelli.
Ef Ísland dregst í B-riðilinn verður Ísrael andstæðingurinn á útivelli.
Staða í Þjóðadeild dýrmæt
Árangur liða í síðustu Þjóðadeild karla ræður því hvaða lið komast í umspilið, en ekki niðurstaðan í undankeppninni sem lýkur í kvöld. Þau tólf lið sem náðu bestum árangri í Þjóðadeildinni en unnu sér ekki EM-sæti fara í umrætt umspil.
Fjögur efstu lið A-deildar Þjóðadeildarinnar, fjögur efstu lið B-deildar og fjögur efstu lið C-deildar voru örugg með umspilssæti ef þau kæmust ekki beint á EM. Síðan koma næstu lið inn eftir því hve mörg liðanna fyrir ofan þau í röðinni tryggja sér EM-sætin.
Næsta lið í röðinni
Ísland hafnaði í 7. sæti af 16 liðum B-deildar og þar sem tvö lið fyrir ofan Ísland í deildinni, Serbía og Skotland, komust beint á EM, ásamt því að aðeins tvö lið úr A-deildinni unnu sér ekki inn EM-sæti, komst Ísland í umspilið sem næsta lið í röðinni úr B-deildinni.
Eistland var þó fyrsta þjóð inn í umspilið og fer í A-riðilinn sem sigurvegari D-deildar Þjóðadeildarinnar en síðan var Ísland næst í goggunarröðinni sem efst þeirra þjóða sem ekki voru þegar komnar á EM eða í umspil. Þegar ljóst varð í gærkvöld að Tékkar, sem voru í A-deildinni, þyrftu ekki að fara í umspilið, losnaði sæti fyrir Ísland.
Noregur og Svíþjóð sátu eftir
Þau lið í B-deildinni sem sitja eftir með sárt ennið fyrir aftan Ísland eru Noregur, Írland, Svartfjallaland, Svíþjóð og Armenía, auk Rússlands sem fékk ekki að taka þátt í Þjóðadeildinni vegna innrásarinnar í Úkraínu.
Í C-deildinni voru Aserbaídsjan, Kósóvó, Búlgaría og Færeyjar næstu lið í röðinni en tvö C-deildarlið, Tyrkland og Slóvakía, unnu sér sæti á EM.