Bandið Arnar Gíslason (trommur), Margrét Rúnarsdóttir (söngur), Rúnar Þórisson (gítar, píanó og söngur), Lára Rúnarsdóttir (söngur), Birkir Gíslason, (gítar) Daði Birgisson (hljómborð) og Hálfdán Árnason (bassi).
Bandið Arnar Gíslason (trommur), Margrét Rúnarsdóttir (söngur), Rúnar Þórisson (gítar, píanó og söngur), Lára Rúnarsdóttir (söngur), Birkir Gíslason, (gítar) Daði Birgisson (hljómborð) og Hálfdán Árnason (bassi). — Ljósmynd/Spessi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Rúnar Þórisson gítarleikari er einn af þessum listamönnum sem státa af skýru höfundareinkenni. Ég segi skýru þó að mér vefjist tunga um tönn við að koma orðum að því nákvæmlega hvað það er sem er svona skýrt

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

Rúnar Þórisson gítarleikari er einn af þessum listamönnum sem státa af skýru höfundareinkenni. Ég segi skýru þó að mér vefjist tunga um tönn við að koma orðum að því nákvæmlega hvað það er sem er svona skýrt. Gítarhljómurinn er alltént sérstakur. Það heyra allir sem hafa hlustað á Grafík og gítarleikurinn er sömuleiðis óviðjafnanlegur – fraseringarnar og fingrasetningin. Leggðu þetta svo saman við lagasmíðarnar og til verður þetta je ne sais quoi sem maður merkir um leið og maður heyrir lag eftir Rúnar.

Það má heldur ekki gleyma því að Rúnar er afkastamikill listamaður og iðinn. Það hjálpar alltaf til. Fyrir utan þær sex plötur sem Grafík sendi frá sér hefur Rúnar, að meðtöldum þeim tveimur sem hér um ræðir, sent frá sér átta breiðskífur (jafnvel fleiri eftir því hvernig maður telur).

Ég byrja á því að spyrja hann út í Latin America, einleiksplötu þar sem Rúnar flytur verk eftir suðuramerísk tónskáld; Astor Piazzolla, Agustin Barrious Mangoré, Dilermandio Reis og fleiri.

„Ég lærði á klassískan gítar á sínum tíma, kláraði burtfararpróf hér heima og fór svo í framhaldsnám til Svíþjóðar. Eftir nám gáfum við út – ég og samnemandi minn – dúettaplötu með klassískum verkum þar sem við spiluðum einnig latín-tónlist. Við kölluðum okkur Duo de Mano. En þessi plata hér Latin America er fyrsta platan þar sem ég spila einleik á klassískan gítar og gef út,“ segir Rúnar.

Hvað er það við þessa hefð sem heillar?

„Það er eitthvert sambland af trega og gleði sem höfðar til mín. Þetta er dansvæn tónlist að mörgu leyti en um leið er sterk lýrík og ljúfsárar melódíur sem heilla mig. Á tímabili var þessi gítartónlist spiluð minna en sú spænska, að Villa-Lobos og Barrios kannski undanskildum, en það hefur verið að aukast að klassískir gítarleikarar leiti í þessa hefð.“

Þótti þessi spænska hefð þá vera fínni, eða?

„Ég veit það ekki. Klassíski gítarinn hefur alla tíð verið tengdur Spáni sterkum böndum og oft er klassíski gítarinn kallaður spænski gítarinn og mörg höfuðtónskáld gítarsins hafa verið þaðan.“

Hvernig valdirðu lögin?

„Maður fer bara á YouTube og hlustar. Sumt höfðar til manns meira en annað og þannig velur maður lögin hægt og bítandi. Það má segja að ég hafi byrjað á þessari rannsókn 2016. Þá fer ég að hlusta á þessa tónlist meira og velja verk til að æfa. Ég tók reyndar upp fleiri verk en enduðu á plötunni.“

Platan er tekin upp í Saurbæjarkirkju í Hvalfirði. Hvernig kom það til?

„Ég hef mikið verið í Hvalfirði, spilað töluvert á Hótel Glymi og notið þess mikið að vera þarna í sveitinni. Einn daginn rambaði ég inn í kirkjuna og fékk þá hugmynd að því að taka plötuna upp þarna í ró og næði. Var þarna í þrjá daga við upptökur. Tók með mér fjögur pör af hljóðnemum og gerði ýmsar tilraunir.“

Ég hafði gaman af að heyra andardráttinn undir gítarleiknum. Var það viljandi gert?

„Já og nei. Eitt sem manni var kennt í náminu var að maður ætti að anda á milli frasa. Þetta er bara svipað og að vera söngvari. Ég útskýri þetta oft þannig fyrir nemendum mínum að tónlist er frasaskipt því að elsta hljóðfærið er auðvitað röddin og söngvarar verða að anda á milli frasa og ég held að hljóðfæraleikur sé mótaður af þessu. Þetta má líka heyra í ljóðum. Það er alltaf ákveðið andartak eða pása á milli hendinga.“

Hin platan sem Rúnar sendir frá sér í ár nefnist Upp hátt. Lögin voru að hans sögn öll samin á píanó sem er óvanalegt en skýrist e.t.v. af því að áhrifin sækir hann til Nicks Caves, sér í lagi platnanna Skeleton Key og Ghosteen.

„Lögin voru fyrst tekin upp heima við þar sem ég spila á píanó og svo snemma í ferlinu kom Hálfdán Árnason bassaleikari, vinur og frændi minn, inn sem gaf tónlistinni ákveðinn blæ með bassa og synthasándum sem tónaði fullkomlega við þá tilfinningu sem ég vildi ná fram og hafði hugsað mér.“

Rúnar segir að bæði tónlistin og textarnir risti djúpt tilfinningalega, komi virkilega við kvikuna og séu persónuleg úrvinnsla hans á því að horfa upp á sér nákomna manneskju lenda í áfalli.

„Það er sárt að horfa upp á einhvern sem þú elskar þjást og titill plötunnar er eins konar hvatning til þeirra sem eru vegvilltir – að þeim auðnist að fylgja vörðum sem vísa veginn upp hæðina, að teygja þar hendur upp hátt, horfa á sólina rísa að morgni og stjörnurnar skína í sátt að kveldi,“ segir Rúnar að lokum. Í tilefni af útkomu Upp hátt verða útgáfutónleikar á föstudaginn kemur kl. 20 í Salnum í Kópavogi. Miðasala er á tix.is.

Höf.: Höskuldur Ólafsson