Að tafli Hjörvar Steinn Grétarsson tefldi á 1. borði fyrir íslenska liðið.
Að tafli Hjörvar Steinn Grétarsson tefldi á 1. borði fyrir íslenska liðið.
Íslenska liðið í opnum flokki á Evrópumóti landsliða í skák í Budva í Svartfjallalandi lauk keppni í gærkvöldi með því að gera jafntefli við Tyrki, 2-2. Öllum skákunum í þeirri viðureign lauk með jafntefli en þar var teflt til þrautar og tvær…

Íslenska liðið í opnum flokki á Evrópumóti landsliða í skák í Budva í Svartfjallalandi lauk keppni í gærkvöldi með því að gera jafntefli við Tyrki, 2-2. Öllum skákunum í þeirri viðureign lauk með jafntefli en þar var teflt til þrautar og tvær skákanna fóru yfir 100 leiki áður en keppendur sættust á skiptan hlut. Liðið endaði í 24. sæti af 38 liðum með 9 stig, vann fjórar viðureignir, gerði jafntefli í einni en tapaði fjórum.

„Við erum að yngja upp í liðinu og þessi árangur lofar góðu,“ sagði Ingvar Jóhannesson, annar tveggja liðsstjóra, við Morgunblaðið. „Við tefldum við mjög sterkar sveitir og unnum meðal annars bæði Norðmenn og Dani.“

Hjörvar Steinn Grétarsson, sem tefldi á 1. borði, náði bestum árangri í íslenska liðinu, fékk 4,5 vinninga í 8 skákum. Aðrir liðsmenn voru Hannes Hlífar Stefánsson, Vignir Vatnar Stefánsson, Guðmundur Kjartansson og Hilmir Freyr Heimisson. Helgi Ólafsson var landsliðsþjálfari. Serbar urðu Evrópumeistarar í fyrsta skipti, fengu raunar jafn mörg stig og Þjóðverjar eða 15 en höfðu betra vinningshlutfall.

Íslenska kvennaliðið á Evrópumótinu tapaði síðustu viðureign sinni, sem var gegn Tyrkjum, 0-4. Liðið stóð sig þó framar vonum og endaði í 26. sæti af 32 liðum með 7 stig, sem er besti árangur sem íslenskt kvennalið hefur náð á þessu móti. Liðið vann þrjár viðureignir, ein var jöfn en fimm töpuðust, sumar raunar með minnsta mun.

Lenka Ptácníková og Hallgerður Þorsteinsdóttir náðu bestum árangri, 3,5 vinningum í 8 skákum. Auk þeirra tefldu Olga Prudnykova, Jóhanna Björg Jóhannsdóttir og Lisseth Acevedo Mendez í liðinu. Búlgaría vann Evrópumeistaratitilinn í kvennaflokki.