Hörmungar Miklar skemmdir hafa orðið á götum og húsum í Grindavík síðustu tíu daga og óvíst er hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir íbúa bæjarins.
Hörmungar Miklar skemmdir hafa orðið á götum og húsum í Grindavík síðustu tíu daga og óvíst er hvað framtíðin ber í skauti sér fyrir íbúa bæjarins. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is Stóru viðskiptabankarnir eru með til skoðunar frekari aðgerðir vegna eldvirkninnar á Reykjanesskaga og rýmingar Grindavíkur. Fundahöld voru um helgina og búast má við tíðindum á næstu dögum.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

Stóru viðskiptabankarnir eru með til skoðunar frekari aðgerðir vegna eldvirkninnar á Reykjanesskaga og rýmingar Grindavíkur. Fundahöld voru um helgina og búast má við tíðindum á næstu dögum.

Fjármálastofnanir hafa fengið á sig holskeflu gagnrýni fyrir að hafa einungis boðið Grindvíkingum upp á frystingu lána án þess að fella niður vexti og verðbætur sem bætast ofan á höfuðstól lánanna. Lilja Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, sagði fyrir helgi að fjármálastofnanir yrðu að sýna samfélagslega ábyrgð.

„Bankarnir vinna saman að því með stjórnvöldum að móta heildstæða lausn sem kemur til móts við þá erfiðu stöðu sem Grindvíkingar eru í. Hugur okkar allra er hjá Grindvíkingum og bankarnir hafa fullan hug á að koma til móts við bæjarbúa með sanngjörnum hætti. Óvissan er ennþá mikil eins og fram hefur komið og mikilvægt að vanda til verka. Niðurfelling á vöxtum og verðbótum er meðal þess sem verið er að skoða en málið mun skýrast betur á næstu dögum,“ segir í svari Íslandsbanka við fyrirspurn Morgunblaðsins.

Samkvæmt upplýsingum blaðsins var jákvæður andi á fundum vegna málsins um helgina en ekki hafa fengist nákvæmar upplýsingar um þau fundahöld. Samtök fjármálafyrirtækja og bankarnir munu meðal annars hafa komið að viðræðum ásamt embættismönnum. Hermt er að allir aðilar hafi verið á sömu blaðsíðu varðandi fyrstu skref aðgerða en flókið sé að móta fullbúinn aðgerðapakka þar eð ekki sjái fyrir endann á hamförunum suður með sjó. „Við vitum ekki hvert tjónið er og hvar það endar,“ sagði einn viðmælenda blaðsins. Búist er við því að næstu skref aðgerða verði kynnt síðar í vikunni.

Hjá Landsbankanum fengust þær upplýsingar að frekari aðgerðir til að koma til móts við Grindvíkinga væru í skoðun. Starfsfólk Arion banka setti sig aftur í samband við þær tæplega 60 fjölskyldur frá Grindavík sem eru með íbúðalán þar um helgina til að skilja betur stöðu þeirra.

„Fjármálafyrirtæki og stjórnvöld hafa síðustu daga átt gott samtal um hvað þurfi að gera til að styðja við íbúa Grindavíkur. Við munum ekki skorast undan því að vera hluti af þeim lausnum sem nauðsynlegar eru,“ segir í svari bankans við fyrirspurn blaðsins.

Lilja fagnar því að bankarnir ætli að styðja frekar við bakið á Grindvíkingum á þessum erfiðu tímum. „Það þarf að tryggja afkomutryggingu, húsnæðisskjól og svo viðbótarstuðning vegna ýmiss konar kostnaðar sem fellur á fólk í þessum aðstæðum.“