Hilmar Björnsson fæddist á Sauðárkróki 8. mars 1926. Hann lést á Dvalarheimilinu Jaðri Ólafsvík 11. nóvember 2023.

Foreldrar hans voru Björn Magnússon, f. 17.3. 1879, d. 26.1. 1939, og Karitas Jóhannsdóttir, f. 3.3. 1894, d. 11.9. 1979. Bróðir Hilmars er Björgvin H., f. 20.5. 1932, og er eiginkona hans Erla Ásgeirsdóttir, f. 29.9. 1932. Dætur þeirra eru: Birna, f. 21.12. 1954, dóttir Birnu er Kristín Erla, f. 18.4. 1980, eiginmaður hennar er Valgeir Halldórsson og eiga þau fjögur börn. Lovísa Karín fósturdóttir, f. 4.12. 1971.

Hilmar var kvæntur Lovísu Haraldsdóttur, f. 28.8. 1920, d. 1.10. 1971. Börn Hilmars og Lovísu eru: 1) Kristín Björg, f. 24.4. 1953, sambýlismaður hennar er Hörður B. Nielsson. Börn Kristínar eru: a) Lovísa Karín, f. 4.12. 1971, eiginmaður hennar er Robert Flapper og sonur Jayh Christopher. b) Hilmar Björn, f. 29.4. 1976, börn hans eru Freyja Lind og Daníel Thor. c) Pétur Már, f. 6.7. 1978, eiginkona hans er Silja Stefánsdóttir og dætur þeirra eru Adda Kristín og Ída Margrét, dóttir Silju úr fyrra sambandi er Tara Tíbrá. d) Karólína, f. 12.9. 1982, eiginmaður hennar er Tryggvi Þór Tryggvason og börn þeirra Auður Harpa og Gunnar Sölvi. Börn Tryggva úr fyrra sambandi eru María Lilja, Tómas Eyþór og Ísak Andri. 2) Björn Haraldur, f. 9.5. 1960, eiginkona hans er Guðríður Þórðardóttir, f. 10.1. 1963. Börn þeirra eru: a) Guðni, f. 26.9. 1995, sambýliskona Lena Hulda Örvarsdóttir. b) Hilmar, f. 7.6. 2000. c) Aðalsteinn, f. 13.7. 2010.

Sambýliskona Hilmars til 30 ára var Sigríður Gestsdóttir, f. 10.6. 1924, d. 30.9. 2003. Börn Sigríðar eru: 1) Ragnhildur Guðbrandsdóttir, f. 25.11. 1950, eiginmaður hennar er Ragnar Blöndal Birgisson. Börn Ragnhildar eru a) Guðbrandur Viðar, f. 31.12. 1971. Sambýliskona Guðbrands er Guðrún Kristinsdóttir. Þeirra börn eru Nói Snær og Nökkvi Blær, fyrir átti Guðbrandur Bóel Sigríði. b) Ísak Þór, f. 5.5. 1980, eiginkona hans er Silja Steinarsdóttir, þeirra börn eru Freyja Rún og Baldur Týr. 2) Rúnar Guðbrandsson, f. 24.5. 1956. Börn Rúnars eru: a) Mist, f. 16.6. 1984. b) Gunnlöð Jóna, f. 25.2. 1992. c) Guðbrandur Loki, f. 5.11. 1993. d) Rökkvi Rúnar, f. 22.6. 2009. e) Úlfhildur Erna og Hallgerður Júlía, f. 21.9. 2011.

Hilmar ólst upp á Sauðárkróki en hugur hans stefndi strax á sjóinn. Eftir fráfall föður síns var hann orðinn fyrirvinna fjölskyldunnar aðeins 12 ára gamall. Hann hóf sjómennsku 14 ára gamall á bátum frá Króknum. Á þessum árum var atvinnuleysi mikið og þar kom að hann fékk 19 ára gamall leyfi móður sinnar til að fara til Reykjavíkur í leit að vinnu. Hann stundaði sjóinn á fiskibátum, vitaskipum, varðskipum og, eftir að hann lærði til stýrimanns, fraktskipum Eimskipafélags Íslands. 1962 hætti hann á sjó og hóf vinnu í landi, fyrst hjá Skipafélaginu Jöklum og síðar hjá Tollvörugeymslunni hf. Þar vann hann við smíðar og viðhald þar til hann lauk störfum sökum aldurs. Áhugamál Hilmars og Sigríðar voru ferðalög, óperur og sumarbústaðurinn á Þingvöllum, þar sem þau bjuggu sér sinn sælureit. Árið 2013 flutti hann til Ólafsvíkur með syni sínum og fjölskyldu en síðustu ár sín bjó hann á Dvalarheimilinu Jaðri, þar sem hann undi hag sínum vel við kærleika og fagmennsku starfsfólksins.

Útför Hilmars fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 21. nóvember 2023, klukkan 11. Streymt verður frá athöfninni:

https://fb.me/e/3eOrTSQ1m

Elsku pabbi minn.

Ég var stödd í Norrænu úti á miðju hafi með Lovísu dóttur minni, þegar mágkona mín hélt símanum upp að eyranu þínu seinna kvöldið mitt á sjónum og ég kvaddi þig. Þá vissum við að það yrði ekki langt í það að þú færir í ferðalagið sem við öll förum í.

Góða nótt elsku pabbi minn sagði ég og fékk til baka góða nótt. Þarna voru okkar síðustu samskipti. Bjössi bróðir hringdi í mig rúmlega fjögur um nóttina, þá vissi ég það í hjartanu að þú værir farinn. Ég var ekki tilbúin að kveðja þig, eflaust er maður aldrei tilbúinn.

Það sem sefaði sorgina eitt augnablik var að ég trúði því að amma mín Karítas, yndislegasta og hlýjasta kona sem ég þekkti, tæki á móti þér ásamt konunum í þínu lífi, mömmu og Siggu.

Sem lítil stúlka hafði ég aldrei séð fallegri mann en þig þegar þú gekkst niður landganginn á Reykjarfossi, hávaxinn og dökkhærður í stýrimannaeinkennisfatnaði með húfuna á höfði eða undir hendinni, með útbreiddan faðminn til að fagna okkur við heimkomu. Eða þegar ég fékk að flauta nokkru sinnum á gamlárskvöldi um miðnætti í brúnni á skipinu sem þú varst á, þar sem það lá við bryggju í Reykjavíkurhöfn.

Einnig man ég eftir þeim Þorláksmessum þar sem við tvö gengum niður í miðbæ að kvöldi til að kaupa gjöf handa mömmu, þú varst í mínum augum flottasti maðurinn í Reykjavík, í frakka og með hatt. Við settumst alltaf inn á veitingahús til að fá okkur heitt kakó og vöfflu, og enduðum stundum kvöldið í kaþólskri miðnæturmessu í Landakotskirkju.

Í þau einu skipti sem ég sá þig með vindil var um áramót og þegar Haraldur móðurafi minn frá Akranesi kom í heimsókn. Þá sátuð þið uppi í efri stofunni og kveiktuð ykkur í vindlum og fenguð ykkur viskídreitil í glas. Mikið var vindlalyktin góð.

Elsku móðir mín lést í október 1971, það var erfiður tími fyrir okkur litlu fjölskylduna. Bjössi bróðir minn aðeins 11 ára og ég 18 ára ófrísk að mínu fyrsta barni sem fæðist 4. desember. Tveimur árum seinna hittust þið Sigga og áttuð þið 30 ár saman. Ástúðin og hamingjan skein úr augum þínum þegar þú talaðir um ferðalögin ykkar innanlands og erlendis. Það var yndislegt að heimsækja ykkur í Njörvasundið og ég tala nú ekki um þegar fjölskyldurnar hittust á annan í jólum við kaffihlaðborðið hjá þeim mæðgum.

Ferðin okkar norður fyrir mörgum árum er núna dýrmæt minning. Við stoppuðum hjá Karólínu yngstu dóttur minni sem bjó þá í Húnaþingi vestra. Gistum þar eina nótt í góðu yfirlæti og talaðir þú oft um það hvað hún og Tryggvi tóku vel á móti okkur. Í þeirri ferð gistum við á Edduhóteli á Akureyri í tvær nætur. Skoðuðum alla Akureyri, fengum okkur ísinn fræga, ásamt því að heimsækja kaffihús. Heimsóttum Pétur og Silju sem voru með litlu dúllurnar með sér í sumarhúsi á Illugastöðum. Seinasta kvöldið bauðstu mér á Greifann í kvöldverð, þar skáluðum við í rauðvíni fyrir vel heppnaðri og skemmtilegri ferð. Það sem við gátum spjallað og skemmt okkur í þessu ferðalagi.

Við áttum góðan tíma á Sauðarkróki, fæðingabæ þínum. Skruppum í Verslunina H. Júlíusson, þar bauð eigandinn þér inn á kontór, þar sem þið höfðingjarnir töluðuð um gömlu góðu dagana. Þessi yndislegi tími og allar mínar minningar eiga góðan stað í mínu hjarta.

Þegar ég var að þurka tárin og hugsa til þín eftir andlátið, inni í káetunni í Norrænu, þá horfði ég út á hafið á öldurnar, fann fyrir skipinu, heyrði í vélinni og sagði upphátt elsku pabbi minn. Þá fann ég frið.

Góða nótt elsku pabbi.

Þín dóttir,

Kristín.

Fyrirmyndin mín í lífinu, hann pabbi, hefur kvatt okkur. Þegar við hjónin settumst niður til að minnast þín kom ótalmargt upp í hugann. Þvílíkur maður sem þú varst. Alla tíð studdir þú og leiðbeindir af hógværð. Sýndir okkur ótakmarkaða þolinmæði, stundum við erfiðar aðstæður eins og þegar ég var í neyslu. Í þínum augum var glasið ætíð hálffullt, þú sást alltaf það jákvæða í lífinu og gafst endalaust af þér. Stærstan hluta lífs míns bjuggum við saman. Eftir að við Guðríður kynntumst bjóst þú hjá okkur þar sem þú áttir stóran þátt í uppeldi drengjanna okkar, Guðna, Hilmars og Aðalsteins. Samband ykkar Guðríðar var afar náið og einkenndist af virðingu og vináttu. Þið tvö áttuð sameiginleg áhugamál svo sem lestur bóka og ljóða. Fyrir þetta er ég afar þakklátur því það var okkur ómetanlegt að hafa afa á heimilinu.

Síðustu árin þín bjóstu á heimilinu Jaðri í Ólafsvík við kærleika, umhyggju og hlýju starfsfólksins.

Síðustu mánuði töluðum við oft um hvað biði okkar hinum megin og fann ég það sterkt að þú hræddist það ekki. Ég trúi að núna sé gaman hjá þér þar sem þú hittir allt fólkið okkar sem er gengið. Þú kenndir mér öll góðu gildin í lífinu sem hafa reynst mér vel.

Við sjáumst síðar elsku pabbi, tengdapabbi og afi.

Björn Hilmarsson.

Fallinn er frá elskulegur tengdafaðir minn, Hilmar Björnsson, 97 ára. Hann var stór og sterkur maður sem lítið fór fyrir en hafði þó sterka nærveru. Hann var heilsteyptur maður, samkvæmur sjálfum sér, hreinn og beinn, mjög skipulagður, sjálfstæður og kunni að njóta sín. Þegar ég lít til baka er eins og við hefðum ekki þurft tíma til að kynnast. Hann tók mér strax opnum örmum og lét mig finna að ég væri velkomin, fyrir utan fyrsta andartakið þegar hann heilsaði mér, þá hélt hann góða stund í hönd mér og mældi mig út, síðan bar aldrei skugga á okkar samband.

Að koma of seint var nokkuð sem hann lét aldrei henda sig og þegar hann var að fara eitthvað í heimsókn var ég oft hissa á hversu snemma hann dreif sig af stað, varð það þá að viðkvæði að hann þyrfti að koma við í Borgarnesi.

Sterkminnugur var hann og aldrei kom það fyrir að hann gleymdi einhverju sem hann hafði lofað og sögurnar frá fyrri tíð var oft gaman að hlusta á, alltaf nefndi hann alla fullu nafni.

Hann var minn eini og besti drykkjufélagi. Það kom fyrir að við opnuðum rauðvínsflösku með pítsunni á föstudagskvöldum og með því að fara með glas inn til hans á sunnudagskvöldum, þegar Downton Abbey eða aðrir góðir þættir voru í sjónvarpinu, náðum við að botna flöskuna.

Hilmar hlustaði oft á tónlist og urðu þá karlakórar og óperur fyrir valinu. Þá mótaði hann þá sterku hefð í fjölskyldunni á aðfangadag að hlusta á Jussi Björling. Þegar hann var búinn að klæða sig upp barst rakspírailmur úr herbergi hans með tónum sálmsins O helga natt. Síðan fór hann með strákunum um húsið og hjálpaði þeim að kveikja á kertunum og þá var komin hátíð í bæ.

Hilmar var mjög jákvæður maður að eðlisfari og stundum finnst mér eins og hann hafi líka tekið meðvitað þá skynsamlegu afstöðu að vera jákvæður. Hann vissi jú að það sem við fáum frá öðrum er oft spegilmynd þess sem við gefum.

Einhvern tímann var haft á orði við mig hvernig það gengi upp að búa með tengdapabba mínum. Jú það gekk og gekk vel, ekki vegna þess að hann var pabbi Bjössa heldur vegna þess að hann var sá sem hann var.

Elsku Hilmar, þú kvaddir saddur og sáttur lífdaga. Takk fyrir allt og Guð geymi þig.

Guðríður Þórðardóttir.

Elsku yndislegi afi minn.

Er með sorg í hjarta og tár á vanga á meðan ég skrifa þetta.

Minningarnar úr Hlaðbrekkunni eru mér svo ljóslifandi, einnig skemmtilegu heimsóknirnar með Björgvini og Erlu til ykkar Siggu í sumarbústaðinn á Þingvöllum.

Þegar þú fórst einn út í fyrsta skipti eftir að hafa farið með Siggu þinni í mörg ár til Kanaríeyja, þá ákváðum við Robert að við skyldum skreppa á sama tíma í tvær vikur til eyjunnar og koma þér á óvart. Við stóðum við rútuna þegar þú komst, brostum allan hringinn og vinkuðum þér við gluggann. Þegar rútan stoppaði við hótelið biðum við spennt eftir því að þú kæmir út, þú leist á okkur en gekkst hröðum skrefum beint að móttökunni á hótelinu án þess að segja halló eða kinka kolli, ég leit á Róbert og sagði jæja og hann varð eitt spurningarmerki í framan. Við fórum að sundlaugargarðinum og sátum þar í sólinni með Jayh. Afi kemur stuttu seinna í garðinn, kominn í sumarfötin, og þegar hann sér okkur breiðir hann út faðminn og hlær, fagnaðarfundirnir urðu yndislegir. Honum fannst þetta vera við, en var ekki viss af því að hann var svo einbeittur að koma sér úr rútunni og þurfa kannski að bíða lengi í móttökunni og missa þá af góðri íbúð. Við hlógum að þessu og settumst svo niður til að fagna samverunni.

Mamma kom seinni vikuna og var þetta einstaklega skemmtilegur og ljúfur tími.

Ég og litla fjölskyldan mín sem búum í Hollandi eigum svo góðar minningar frá heimsóknum okkar til Íslands og til þín. Allt þetta og myndirnar sem Robert minn hefur tekið af þér og okkur í gegnum tíðina munu lifa í hjörtum okkar að eilífu.

Góða ferð elsku afi minn.

Þín

Lovísa, Robert og

Jayh Christopher

barnabarnabarn.

Kynni okkar Hilmars spanna fimmtíu ár. Þau hófust er móðir mín Sigríður Gestsdóttir og Hilmar fóru að draga sig saman. Þau höfðu að vísu vitað hvort af öðru frá því á árum áður. Grunar mig að einhver neisti hafi verið til staðar frá þeim tíma. En lífið er hverfult. Hilmar og móðir mín misstu maka sína um svipað leyti. Hilmar og Lovísa heitin áttu tvö börn, þau Kristínu og Björn, og við börn Sigríðar vorum einnig tvö.

Mamma mín og Hilmar rugluðu aldrei alveg saman reytum, þ.e.a.s. þau héldu hvort sínu heimilinu gangandi alla tíð. Það var þeirra leið til þess að leyfa okkur börnunum að vera á okkar æskuheimilum. Falleg hugsun, aðrir tímar. Samband þeirra var alla tíð alveg einstakt, fallegt og ástríkt. Þau voru mjög samstiga í lífinu.

Hilmar missti föður sinn ungur að aldri. Byrjaði hann því snemma að bera björg í bú fyrir móður sína. Hilmar átti einn bróður, Björgvin. Alltaf hefur verið mjög kært með þeim bræðrum. Ungur fór Hilmar á sjó, en seinustu starfsár hans voru hjá Tollvörugeymslunni, þar sem starf hans var mjög vel metið, enda dugnaðarforkur í vinnu.

Hilmar var greindur maður, handlaginn og hagyrtur, orti ótal ljóð um ævina.

Með elju og dugnaði hafði Hilmar smíðað sumarbústað á Þingvöllum í samstarfi við vin sinn Jóhannes, sem einnig átti bústað þar. Ófáum stundum eyddu þau þar, móðir mín, Hilmar, Jóhannes og Lilla kona Jóhannesar. Þar var þeirra sælureitur. Þar var soðinn siginn fiskur, slátur og ýmiskonar matur, sem við sjáum ekki oft á borðum nú til dags. Þar var alltaf opið hús fyrir gesti og gangandi og við börnin og barnabörnin nutum gestrisni þeirra. Barnabörnin elskuðu að sitja í lautinni á lóðinni þeirra og spjalla og einnig að fara niður að vatni með afa Hilmari á meðan amma Sigga var að baka pönnukökur.

Hilmar og mamma elskuðu að ferðast, voru dugleg að ferðast um Ísland.

Fóru iðulega á æskuslóðir hans norður á Sauðárkrók, og á Kirkjubæjarklaustur, þangað lágu líka sterkar taugar. Til útlanda fóru þau líka, Danmörk, Róm, Sikiley og Kanarí. Þar nutu þau aldeilis lífsins og í seinni tíð er ég heimsótti Hilmar eftir lát móður minnar, hún lést fyrir tuttugu árum, þá hefur hann rifjað upp þessar ferðir þeirra. Þau voru líka menningarleg. Fóru að sjá allar íslensku kvikmyndirnar, mikið í leikhús og í óperuna, þar áttu þau alltaf fasta miða. Hilmar elskaði tónlist. Tenórarnir þrír, Pavarotti, Domingo og Carreras, voru hans menn.

Hilmar var mjög þakklátur fyrir lífið og tilveruna.

Eftir andlát móður minnar, þegar Björn sonur Hilmars flutti til Ólafsvíkur með fjölskyldunni á æskuslóðir Guðríðar, flutti hann með þeim vestur. Var það hans gæfa í ellinni. Ekki spillti fyrir þegar dóttir hans Kristín og sambýlismaður hennar Hörður fluttu einnig vestur. Þar naut hann sín vel.

Þegar ellikerling fór að banka upp á fékk hann inni á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Jaðri. Þar undi hann hag sínum vel og var óspar á hrósið um starfsfólkið þar. Þau eiga þakkir skilið.

Elsku Hilmar hvíl þú í friði. Takk fyrir allar gæðastundirnar.

Ragnhildur
Guðbrandsdóttir.