Landris mælist enn mikið við Svartsengi en ný gögn Veðurstofunnar frá í gær staðfesta að kvika flæði enn inn undir Svartsengi. Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri hjá Veðurstofu Íslands, rýndi i nýjustu gögn og gervitunglamyndir á samráðsfundi…

Landris mælist enn mikið við Svartsengi en ný gögn Veðurstofunnar frá í gær staðfesta að kvika flæði enn inn undir Svartsengi.

Benedikt Gunnar Ófeigsson, fagstjóri hjá Veðurstofu Íslands, rýndi i nýjustu gögn og gervitunglamyndir á samráðsfundi ásamt öðrum vísindamönnum í gærmorgun og þar sást að landris mælist enn mikið við Svartsengi og talsvert hraðara en áður en kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember. „Það er kvika ennþá að flæða inn undir Svartsengi og við sjáum mjög hratt landris þar. Þetta er alls ekki óvænt. Þetta gerist nánast alltaf við svona atburði og við bjuggumst alveg við þessu. Við höfum svona aðeins verið að meta hversu stór hluti af þessu er innflæði og hversu stór hluti gangurinn,“ sagði Benedikt Gunnar við mbl.is eftir fund almannavarna í Skógarhlíð í gær. Aðspurður um líkur á eldgosi sagði hann geta gosið hvenær sem væri.

Veðurstofan gaf síðdegis í gær út uppfært hættumatskort fyrir svæðið í kringum Grindavík og Svartsengi. Með nýja kortinu er hættusvæðið stækkað frá því sem áður var. Nýtt hættusvæði hefur verið gert yfir miðjum kvikuganginum við Hagafell og Þorbjörn þar sem mestar líkur eru taldar á að kvikan komi upp.