Ofstækið er lýðræðinu hættulegt

Eftir að vanmáttur tæknikrata heimsins varð ljós í alþjóðlegu fjármálakreppunni má segja að popúlismi hafi verið í uppgangi víða um veröld og Ísland ekki undanskilið. Það gerðist með því að fram komu ýmsir nýir leiðtogar, hreyfingar og flokkar með nýjar og einfaldar lausnir, en jafnframt tömdu stöku gamlir flokkar sér popúlismann. Tóku jafnvel upp umdeild stefnumál þaðan.

Það gerðist bæði til hægri og vinstri, því popúlismi er ekki stjórnmálaskoðun heldur aðferð.

Kosningasigrar Giorgiu Meloni á Ítalíu, Javiers Mileis í Argentínu og Geerts Wilders í Hollandi gefa vísbendingar um popúlíska hægrisveiflu í þeim löndum. Á hinn bóginn bendir staða Sinn Fein á Írlandi, Skoska þjóðarflokksins, La France Insoumise í Frakklandi, að ógleymdum Græningjum í Þýskalandi, Die Linke og klofningsflokki Söruh Wagenknecht, ekki til þess að popúlískir þjóðernissósíalistar á vinstrivængnum gefi þeim neitt eftir. Öðru nær.

Þessir popúlísku vinstriflokkar eru fyrirsjáanlega á móti frjálsu framtaki og með ríkisforsjá, en sumir andsnúnir Úkraínu og margir á móti innflytjendum. Síðustu vikur hefur hið popúlíska vinstri um alla Evrópu svo fylkt sér um fána Palestínu í slíkri sefasýki að á hryðjuverk Hamas er ekki minnst, jafnvel afneitað; sumir hylla Hamas og gamaldags gyðingahatur vellur fram án viðnáms.

Fæstir vinstrimenn vilja þó kannast við að það sé viðurstyggilegur popúlismi af verstu sort, hvort sem þeir nú þramma með eða ekki. En þeir sem hafa trú á vestrænum, frjálslyndum og lýðræðislegum gildum mega ekki loka augunum fyrir því sem þar er á ferð, heldur andæfa og fordæma ofstækið, óháð því hvaðan það kemur.