Hvað finnst þér ómissandi að gera á aðventunni?
„Kaupa mandarínur og drekka heitt súkkulaði með rjóma. Svo er alltaf gaman að fara í göngutúr um miðbæinn þegar er búið að skreyta og kveikja á jólaljósunum. Ég reyni að horfa á eins margar jólamyndir og ég get. Þær sem eru alveg ómissandi eru The Holiday, Love Actually og Elf.“
Ertu með einhverjar jólahefðir sem þú verður að halda í?
„Já, ég verð að hlusta á bjöllurnar hringja inn jólin klukkan sex og skála við fjölskyldumeðlimi. Þetta var alltaf gert á mínu heimili þegar ég var barn. Í hitteðfyrra urðu einhverjir tæknierfiðleikar sem urðu til þess að ég missti af bjöllunum og ég varð miður mín.“
Hvernig er að eignast maka og púsla saman sínum hefðum við hans?
„Það er auðvitað frábært að hafa maka til að halda upp á jólin með. Við höfum reynt að skapa okkar eigin hefðir sem og að sameina eldri hefðir. En það er eitt sem okkur hefur ekki tekist að sameina og það er desertinn á aðfangadag. Við erum því bæði með ris a l'amande sem tengdamamma gerir og marengsinn hennar mömmu minnar, þar vorum við hvorugt tilbúin að fórna okkar.“
Breytast jólin með börnum?
„Já. Ég var og er mikið jólabarn og það er svo gaman að upplifa þetta í gegnum þau aftur. Eftirvæntingin eftir jólasveinunum, pakkarnir, sparifötin. Þetta er allt svo skemmtilegt.“
Hver sér um eldamennskuna?
„Maðurinn minn sér um aðalréttinn, hann er mikill hátíðarkokkur og ég sé um meðlæti og eftirrétt. Marengstertan hennar mömmu verður að vera en við erum ekki alltaf með sama matinn, okkur finnst gaman að breyta til. Ef það gefst tími finnst mér gaman að baka smákökur, en þar sem ég vinn svo mikið í kringum jólin er ég farin að kaupa smákökurnar sem er auðvitað ekki eins, en þær eru samt gómsætar.“
Hafa hugmyndir þínar um gjafir eitthvað breyst í gegnum árin?
„Já, mér finnst ekki lengur gaman að gefa bara eitthvað í gjöf. Ég vil helst gefa gjafabréf í upplifun, eitthvað sem nýtist heimilinu eða þá eitthvað sem ég veit að einstaklinginn vantar. Ég vil sleppa því að gefa dót sem endar á haugunum, í þessu samhengi verðum við að hugsa aðeins um umhverfið. Mér finnst ótrúlega gott að fá bækur, sokka eða náttföt, það er svo jólalegt að lesa á jóladag í nýjum náttfötum.“
Hvernig jólatré eruð þið með?
„Það er alltaf lifandi normannsþinur sem verður fyrir valinu, eins stór og við mögulega komumst upp með. Við höfum oft þurft að skera af botni og toppi til að koma því fyrir inni í stofu!“
Hvernig jólaskrauti ertu hrifin af?
„Ég vil helst ekki skreyta of mikið, en ég á litlar viðar- og keramikstyttur sem ég raða um húsið, kertastjaka og ljósaseríur. Svo látum við alltaf hvíta ljósaseríu í tréð fyrir utan húsið, það birtir svo til með því. Við reynum að hafa það út febrúarmánuð til að koma okkur í gegnum skammdegið.“
Eru einhver jól sem eru sérstaklega eftirminnileg?
„Já, fyrstu jól sonar míns árið 2019. Hann varð svo lasinn og svaf yfir öll hátíðahöldin og ég auðvitað áhyggjufull. En þá leið mér eins og ég væri orðin svo fullorðin. Jólin voru haldin á mínu heimili og ég fékk að ráða hvað var í matinn. Mér fannst það mjög fullorðins!“