Stríðstímar „Stundum fór ég ekki í skólann því vitað var af því að það ætti að sprengja,“ er haft eftir Jasminu.
Stríðstímar „Stundum fór ég ekki í skólann því vitað var af því að það ætti að sprengja,“ er haft eftir Jasminu. — Ljósmynd/Heiða Helgadóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jasmina Vajzovic Crnac frá Bosníu Í blóðugum skóm „Það verður siðrof í stríði, samfélagið er snarklikkað og öll gildi gjörbreytt. Á götum voru hermenn sem áreittu stelpur eins og mig, og það gerðu einnig eldri strákar

Jasmina Vajzovic Crnac frá Bosníu Í blóðugum skóm

„Það verður siðrof í stríði, samfélagið er snarklikkað og öll gildi gjörbreytt. Á götum voru hermenn sem áreittu stelpur eins og mig, og það gerðu einnig eldri strákar. Ég þurfti að fara krókaleiðir í skólann til að forðast þessa stráka því þeir voru óútreiknanlegir, ég vissi aldrei hvað þeir myndu gera. Þeir sögðu kannski: „Næst þegar ég hitti þig ætla ég að nauðga þér.“

Auðvitað var ég hrædd en ég varð að bjarga mér. Oft fór ég eftir lestarteinunum í skólann til að þurfa ekki að ganga í gegnum byggðina. Við erum að tala um karlmenn sem voru komnir undir þrítugt, enga krakka. Ég var fjórtán ára og rétt að byrja að skynja heiminn, þetta voru hræðileg skilaboð. Það tók mig hálftíma að ganga í skólann, það voru engir peningar til fyrir strætó. Þá var gott að fara yfir brúna og svo eftir lestarteinunum.

Það voru aðrar áskoranir; föt og skór. Ég gat notað sömu föt og mamma, við vorum komnar í sömu stærð. Við fengum föt frá Rauða krossinum og frændi okkar sem bjó á Íslandi sendi okkur líka föt, hvernig sem hann fór að því en þau komust til okkar. Það var verst með skóna, ég er fótstærri en mamma og fékk aldrei skó í réttri stærð, var alltaf í alltof stórum skóm af pabba eða alltof litlum af mömmu sem var oftar, annað var ekki í boði. Fætur mínir voru alltaf blóðugir þegar ég kom heim, ég fékk tíu sentimetra stórar blöðrur sem voru fullar af blóði. Ekki var til plástur til að setja á þetta og svo fór ég alltaf í sömu blóðugu skóna morguninn eftir. Þetta voru eins og pyntingar en svona var þetta.

Í dag er gert grín að mér fyrir hvað ég á mikið af skóm. Það er rétt, ég kaupi mér dýra og vandaða skó. Ég get ekki gengið í hverju sem er, fæturnir á mér þola það ekki. Þegar ég fór eitt sinn til læknis hér á Íslandi sagðist hann aldrei áður hafa séð unga konu með svona illa farna fætur. Þeir voru alltaf krepptir og fengu ekki að stækka. Jú, þetta var erfitt. Og svo á veturna var frost, snjór og bleyta og gat á skónum. Þá fór ég í poka innan undir en samt varð allt rennandi blautt og þannig sat ég kannski í fimm klukkutíma í skólastofunni og gekk síðan heim í blautum skónum. Þetta var raunveruleikinn. Við bjuggum líka við þann raunveruleika að það var ekki til neinn matur. Við borðuðum það sem Rauði krossinn og Rauði hálfmáninn gáfu okkur. Stundum var bara til hveiti og kartöflur. En á sumrin ræktuðu foreldrar mínir grænmeti en það var ekkert hægt að geyma af því til vetrarins, það var ekkert rafmagn, enginn kælir og ekki hægt að frysta neitt.

Við mamma þvoðum þvottinn úti, stundum í 15 stiga frosti í ísköldu vatni, og svo þurfti að reyna að þurrka hann. Svo voru það sprengjurnar. Stundum fór ég ekki í skólann því vitað var af því að það ætti að sprengja og það kom alveg fyrir að við sætum dögum saman í neðanjarðarbyrgjum.

Pabbi var kallaður í þjónustu við hermenn, hann þurfti að aðstoða þá uppi á fjalli við að gefa þeim mat og vatn, færa þeim sárabindi ef þeir særðust, bera hergögn og slíkt.

Það var herskylda, nágrannar okkar voru kallaðar í herinn og komu ekki aftur. Annar þeirra átti tvo litla stráka sem misstu þarna föður sinn. Hinn nágranninn missti barnið sitt. Ég horfði á hann ganga með strákinn sinn í fanginu og blóðið lak um allt, þarna misstu margir börnin sín. Og maður skildi þetta ekki af hverju þetta var. Bara af því að við vorum af einhverju þjóðerni? Á sama tíma var ég að þroskast og reyna að skilja heiminn, reyna að átta mig á því hvernig hlutirnir virkuðu. Þetta var svo langt frá því að vera eðlilegt líf. Ég þurfti að taka ábyrgð, ég átti enga vini, var ekki úr þessu héraði þar sem ég var lögð í einelti af því að ég var flóttamaður. Það hjálpaði ekki til að mér gekk mjög vel að læra og kennararnir hrósuðu mér, svo var ég sæt og strákarnir í bekknum sýndu mér áhuga sem heimastelpunum gramdist. Þær voru grimmar og bjuggu til sögur um mig, baktöluðu mig og ég var mikið á milli tannanna á þeim. Ég var kölluð afæta.