Jónas Haraldsson
Jónas Haraldsson
Eru þessi orð í samræmi við framkomu Kínverja sjálfra árum saman gagnvart öðrum þjóðum og þjóðarbrotum?

Jónas Haraldsson

Hinn 16. nóvember sl. birtist í Morgunblaðinu grein eftir kínverska sendiherrann á Íslandi sem bar heitið „Sameinumst í þágu friðar um lausn á átökum Palestínu og Ísraels“. Þessi skrif hans gefa mér tilefni til að velta vöngum vegna þeirra og tjá mig um þau í sem stystu og einföldustu máli.

Hvað formhlið greinar hans varðar, þá er hún skrifuð á góðu máli og vel sett upp og jafnframt efnislega aðgengileg fyrir lesandann. Má hrósa sendiherranum fyrir það.

Hvað snertir aftur á móti efnisinnihaldið, þá skrifar hér starfsmaður kínverskra stjórnvalda, þjóðar sem ætlar sér víðtæk áhrif í heiminum í náinni framtíð með sína heimsveldisdrauma og áróður og ber greinin þess glögg merki.

Tekið skal undir það með sendiherranum, að leita eigi allra leiða til að friður geti skapast milli Ísraels og Palestínu, en vegna notkunar sendiherrans á orðunum „ríkjum Evrasíu“, þ.e. Kína og Evrópu, til að stilla til friðar í Mið-Austurlöndum, þá tel ég fullljóst að ríki Evrópu munu eftir sem áður halla sér að Bandaríkjunum og öðrum vestrænum ríkjum, sem við eigum samleið með í flestum málum, en ekki Kína.

Hvað snertir frásögn sendiherrans um svokallað Belti og braut, sem er þróunarverkefni er Kínverjar komu fyrst og fremst á laggirnar í eigin hagsmunaskyni, þá hefur það því miður leitt til þess að margar þjóðir eru að sligast undan þeim lánum sem Kínverjar veittu þeim til ýmissa framkvæmda eða jafnvel farnar á hausinn, samanber t.d. Srí Lanka, eða mjög háðar Kínverjum.

Í grein sendiherrans koma fyrir setningar sem mér finnst hljóma einkennilega og ekki standast raunveruleikann. Vil ég leyfa mér að taka nokkrar þeirra hér upp. „Kína er harðlega andsnúið og fordæmir allar aðgerðir sem skaða almenning og brjóta í bága við alþjóðalög.“ Jafnframt þar sem segir: „Hugmyndin um að styrkleiki stuðli að yfirráðum og forræði einstakra ríkja grefur undan sjálfstæði og jafnræði þjóða og ógnar friði og stöðugleika í heiminum.“ Þá er í grein sendiherrans minnt á svokallaða hvítbók Xi Jinpings, forseta alræðisstjórnar kínverska kommúnistaflokksins, varðandi aðgerðir til að stuðla að alþjóðasamfélagi, þar sem ekki eigi að skipta einu stjórnskipulagi út fyrir annað „eða steypa einu menningarsamfélagi í stað annars. Þess í stað er fjallað um margvísleg samfélög á mismunandi þróunarstigum og með margs konar stjórnskipulag, hugmyndafræði, sögu og menningu sem geti lifað saman í sátt og samlyndi í alþjóðlegu umhverfi með öðrum þjóðum.“

Ég spyr: Eru þessi orð í samræmi við framkomu Kínverja sjálfra árum saman gagnvart öðrum þjóðum og þjóðarbrotum? Alkunna er hvernig Kínverjar hafa gegnum tíðina kúgað íbúa Tíbet, lands sem þeir lögðu undir sig árið 1954. Lítið hefur enn verið fjallað um Nepal og meðferð Kínverja á íbúunum þar. Mest hefur nú verið fjallað um skelfilega meðferð Kínverja á hinum múslímsku Úígúrum, sem settir hafa verið m.a. í svokallaðar endurhæfingarbúðir til að „Kínverja“ þá og mikið hefur verið fjallað um hér sem erlendis í fjölmiðlum. Framkoma sem Ísland, sem önnur siðuð ríki, fordæmdi og greinarhöfundur fékk jafnframt bágt fyrir og settur á svartan lista hjá stjórnvöldum í Kína.

Hvernig getur þetta farið saman við fagurgalann eins og lesa má þarna í orðum sendiherrans í grein hans um frið, jafnræði þjóða og að lifa í sátt og samlyndi í alþjóðlegu umhverfi o.s.frv.? Ekki passa heldur þessi orð saman við yfirgang Kínverja í Suður-Kínahafi gagnvart nágrannaríkjum sínum. Þar telja Kínverjar sig eiga yfirráðarétt á hafsvæði nánast upp að fjöruborði hinna mörgu nágrannaríkja. Dóm Alþjóðagerðardómsins í Haag að svo sé ekki ætla Kínverjar að virða að vettugi, enda passar niðurstaða hans þeim ekki. Þetta kann allt að breytast ef og þegar Kínverjar verða fyrr en síðar búnir að leggja Taívan undir sig með sínum mikla hernaðarmætti. Að lifa í sátt og samkomulagi við umheiminn og virða alþjóðalög hljómar hér illa, sé litið til orða sendiherrans annars vegar og raunveruleikans hins vegar.

Eftir þessa stuttu og fábrotnu samantekt mína, sem áróðursgrein sendiherrans gaf tilefni til, þá læt ég hér staðar numið. En vegna trúverðugleika framangreindra hugleiðinga minna og til að gæta allrar sanngirni gagnvart Kínverjum, þá þykir mér rétt að taka hér upp umsögn þeirra um mig þegar þeir settu mig á svartan lista árið 2021 m.a. með þessum orðum vegna fyrri skrifa minna um Kínverja og kínversk málefni. Að orð mín „skaði verulega fullveldi og hagsmuni Kína af illgirni með því að dreifa lygum og fölskum upplýsingum“. Má ætla að framangreindar hugleiðingar mínar fái svipaða umsögn hjá Kínverjum, hvað svo sem raunveruleikinn segir til um réttmæti þeirra og sannleiksgildi. Hvernig skrif mín eiga að hafa getað verulega skaðað fullveldi Kína, þessa fjölmennasta ríkis í heimi og heimsveldis hinum megin á hnettinum, þá held ég að það sé oflof Kínverja í minn garð. Alla vega vona ég þó, að þeir glati ekki fullveldi sínu núna vegna þessara framangreindu skrifa minna. Það væri skiljanlega meira en ég gæti haft á samviskunni.

Höfundur er lögfræðingur.

Höf.: Jónas Haraldsson