Fjölskyldan Kristín og Helgi ásamt dætrum sínum og tengdasonum.
Fjölskyldan Kristín og Helgi ásamt dætrum sínum og tengdasonum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristín Helga Gunnarsdóttir fæddist 24. nóvember 1963 í Reykjavík og ólst upp í Garðahreppi. „Ég fór ung í sumarsveit til ömmu og afa í Dölum, sá stutti tími hafði djúpstæð áhrif, enda voru þau sagnamenn af annarri öld með beintengingu við náttúru og þjóðtrú

Kristín Helga Gunnarsdóttir fæddist 24. nóvember 1963 í Reykjavík og ólst upp í Garðahreppi.

„Ég fór ung í sumarsveit til ömmu og afa í Dölum, sá stutti tími hafði djúpstæð áhrif, enda voru þau sagnamenn af annarri öld með beintengingu við náttúru og þjóðtrú. Svo flakkaði ég á æskuárum um hálendið með foreldrunum þar sem pabbi vann hjá Orkustofnun og starf hans leiddi okkur mikið upp á fjöll.“

Kristín, eða Dinna eins og hún er oftast kölluð, gekk í barnaskóla í hreppnum og varð svo stúdent úr Menntaskólanum í Reykjavík 1983. „Ég fór til Barcelona í eitt ár til að læra spænsku, lærði svo spænsku í HÍ og hélt því næst til Utah með kærastanum og síðar eiginmanni og lauk BA í fjölmiðlafræði og spænsku frá Utah-háskóla haustið 1987. Utah var valið vegna nálægðar við Klettafjöllin og alla þá útivistarmöguleika sem þau buðu upp á.“

Á námsárunum var Dinna fararstjóri á Ibiza sumarlangt og flugfreyja hjá Flugleiðum.

Svo kom hún heim frá Ameríku og fór að vinna við fréttamennsku á Bylgjunni við Snorrabraut og var svo ráðin á fréttastofu Stöðvar tvö haustið 1989 þar sem hún vann allt til ársins 1998. „Mín fyrsta bók kom út hjá Máli og menningu 1997, Elsku besta Binna mín, og þá varð ekki aftur snúið. Þarna hafði ég fundið hilluna mína og nú skipta ritverkin einhverjum tugum og hefur skáldskapurinn verið mitt aðalstarf í 26 ár.“

Helstu verk Kristínar Helgu eru meðal annars Draugaslóð, Strandanornir, Flóttasaga Ishmaels, Mói hrekkjusvín, Ótemjur, Gallsteinar afa Gissa, Fíusólar-bókaflokkurinn en Fíasól gefst aldrei upp verður frumsýnd sem söngleikur á stóra sviði Borgarleikhússins 2. desember næstkomandi. „Tvær nýjar bækur eru líka að koma út um þessar mundir í bókaflokki okkar Halldórs Baldurssonar: Obbuló í Kósímó.

Útivist og skíðamennska er fjölskylduástríða og því er aukastarfið afar hentugt, en við hjónin erum skíðafararstjórar fyrir Úrval-Útsýn á veturna í Madonna di Campiglio í Dólómítunum.“

Kristín Helga var formaður Rithöfundasambands Íslands 2014-2018, hún hefur kennt skapandi skrif í Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands og gegnt stöðu Jónasar Hallgrímssonar við ritlistardeild HÍ.

Verðlaun og viðurkenningar sem Kristín Helga hefur fengið í grófum dráttum eru: Fjöruverðlaun – bókmenntaverðlaun kvenna, þrisvar sinnum, Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar tvisvar sinnum, Bókaverðlaun barna fimm sinnum, Sögur – heiðursverðlaun barna, Vestnorrænu barnabókaverðlaunin, Sögusteinn IBBY-barnabókaverðlaun, Viðurkenning úr Rithöfundasjóði RÚV, Bóksalaverðlaunin, Vorvindar – viðurkenning IBBY. Tilnefningar sem Kristín Helga hefur hlotið eru m.a.: Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, Hin íslensku bókmenntaverðlaun, Grímuverðlaunin og ALMA – Barnabókaverðlaun Astridar Lindgren þrisvar sinnum.

„Ég er aktivisti og brenn fyrir náttúruvernd, á sæti í stjórn Landverndar og hef alltaf skipt mér af umhverfismálum. Nánustu samstarfsfélagar mínir eru heimilistíkin Lotta og læðan Beta. Ég hef alltaf umgengist aðrar tegundir, vonandi af virðingu og alúð, og tel það hverri manneskju lífsnauðsyn að vera í einhverju samtali við aðrar tegundir til að skilja heiminn betur – og fyrir börn er það verulega dýrmætt og mikilvægt að skilja og skynja aðrar lífverur í uppvextinum. Þannig eru dýraverndarmál mér einnig hugleikin.“

Fjölskylda

Eiginmaður Kristínar er Helgi Geirharðsson, f. 14.12. 1960 í München, iðnaðar- og vélaverkfræðingur og verkefnisstjóri. „Þau eru búsett í Garðabæ, gamla heimabænum hennar Kristínar. Foreldrar Helga: Guðný Helgadóttir, leikkona og tai-chi-kennari, f. 10.12. 1938, búsett í Reykjavík, og Geirharður Þorsteinsson, f. 14.12. 1934, d. 4.5. 1917, arkitekt.

Börn Kristínar og Helga eru: 1) Birta Kristín, f. 8.12. 1988, umhverfis- og orkuverkfræðingur, búsett í Garðabæ. Maki: Bjarni Jakob Gunnarsson iðnaðar- og rekstrarverkfræðingur. Börn þeirra eru Ólíver Helgi, f. 2010, Melkorka Steinunn, f. 2018, og Jakob Helgi, f. 2022; 2) Erla Guðný, f. 25.10. 1993, jarðfræðingur, kennari og fjallaleiðsögumaður, búsett í Kópavogi. Maki: Mike Walker, fjallaleiðsögumaður, kennari og sigmaður; 3) Soffía Sóley, f. 17.7. 1997, fjallaleiðsögumaður, búsett í Garðabæ.

Systir Kristínar er Dagmar Guðrún Gunnarsdóttir, f. 24.6. 1957, þroskaþjálfi, búsett í Hafnarfirði.

Foreldrar Kristínar eru hjónin Helga Erla Hjartardóttir, f. 2.1. 1935, fv. bankastarfsmaður, og Gunnar Jónsson, f. 24.2. 1933, fv. fulltrúi hjá Orkustofnun. Þau eru búsett í Garðabæ og eru skógarbændur í Norðurárdal í Borgarfirði.