„Það er mikið álag á heilsugæslunni núna vegna flensunnar og umgangspesta,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Hinn árlegi flensufaraldur virðist vera skollinn á með nokkrum þunga því mikið er um veikindi víða.
„Við reynum að beina fólki í netspjall á heilsuveru eða að hringja í 1700, upplýsingasíma Heilsugæslunnar, til að minnka heimsóknir á heilsugæslustöðvarnar. Það er oft ekki mikið hægt að gera við þessum pestum þegar fólk hefur veikst nema taka hitalækkandi lyf og taka það rólega,“ segir Sigríður Dóra en bætir við að hægt sé að fara í bólusetningar á heilsugæslustöðvum gegn bæði inflúensu og covid, en þá þurfi að panta tíma.
Álag færist á Læknavaktina
„Það er stöðugt mikið álag, ekki síst vegna þess að heilsugæslan er illa mönnuð á dagtíma og fáir heimilislæknar, þannig að fólk þarf því miður að leita á náðir Læknavaktarinnar,“ segir Þórður Ólafsson yfirlæknir Læknavaktarinnar, en bætir við að staðan sé svipuð og verið hefur.
„Það eru engar töfralausnir til við flensu. Undir venjulegum kringumstæðum áttu bara að hvíla þig heima og passa upp á svefn og næringu. Þetta er verst fyrstu 3-4 dagana og svo fer það skánandi, þótt fólk geti átt í kvefi og hósta eitthvað lengur.“
Þórður segir Íslendinga vilja helst fá lækningu strax. „Við erum óþolinmóð Íslendingar og höldum alltaf að það sé hægt að redda hlutunum helst fyrr en seinna, en það virkar ekki á inflúensuna. Það er ekki hægt að fá neina skemmri skírn þar.“ doraosk@mbl.is