Feðgar Magnús Þór Bjarnason (Bubbi) og Bjarni Þór Pétursson standa í ströngu þessa dagana, hvor á sínu sviði.
Feðgar Magnús Þór Bjarnason (Bubbi) og Bjarni Þór Pétursson standa í ströngu þessa dagana, hvor á sínu sviði. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Nóvellan Megir þú upplifa eftir Bjarna Þór Pétursson er komin út hjá Króníku bókaforlagi. Bókin er fyrsta skáldsaga Bjarna Þórs sem er fæddur 1980, býr í Laugarnesinu og starfar sem ráðgjafi á skrifstofu forstjóra Vinnumálastofnunar

Höskuldur Ólafsson

hoskuldur@mbl.is

Nóvellan Megir þú upplifa eftir Bjarna Þór Pétursson er komin út hjá Króníku bókaforlagi. Bókin er fyrsta skáldsaga Bjarna Þórs sem er fæddur 1980, býr í Laugarnesinu og starfar sem ráðgjafi á skrifstofu forstjóra Vinnumálastofnunar.

Um bókina segir Bjarni að hún sé óður til margra hluta og þar á meðal hans innsta kjarna.

„Hér er verið að fjalla um staði, tónlist, fólk, tilfinningar og minningar í formi skáldskapar og eins og gerist þá er sumt tekið beint úr lífi höfundar, annað afbakað og restin uppspuni frá rótum.“

Bjarni segir að nóvellan fjalli um breyskan mann, rúmlega fertugan, sem er að kljást við spurningar lífsins.

„Hann er bæði að takast á við hamingjuna og harminn, fegurðina og frelsið og er að endurupplifa staði og minningar sem eru að hverfa úr minni hans. Síbreytilegar minningar sem margir þekkja sem eiga sér til dæmis uppáhaldsborg. Þeir heimsækja borgina og rifja upp hitt og þetta í ferðinni sem þeir hefðu ekki munað annars. Inn í þetta fléttast svo hjákátleg samskipti við konurnar í lífi hans.“

Skrifuð á fjórum vikum

Maður þarf ekki að lesa margar blaðsíður í bókinni til að sjá að Bjarni Þór er vel skrifandi og lesinn. En hvers vegna núna, á virðulegum skulum við segja, miðaldri?

„Það eru tveir atburðir sem hvöttu mig til að skrifa þessa bók. Annar mjög gleðilegur en hinn mjög sorglegur. Vorið 2022 rætist draumur sonar míns þegar hann er ráðinn sem litli Bubbi í leikritinu 9 líf. Hann gjörsamlega negldi hlutverkið og þegar ég fylgdist með þessu gerast fór ég að velta fyrir mér hvort ég ætti mér draum sem ég gæti látið rætast. Þannig að sonur minn varð allt í einu að minni fyrirmynd og ég ákvað að slá til og fylgja hans fordæmi. Hinn atburðurinn er svo andlát Eiríks Guðmundssonar, rithöfundar og útvarpsmanns, haustið 2022. Fyrir mér var hann rödd minnar kynslóðar en mér til skammar hafði ég ekki lesið neitt eftir hann svo ég greip í þessa bók hans, Ritgerð mín um sársaukann, sem er alveg stórkostleg bók og talaði til mín eins og töfraþula. Hún kveikti á heilastöðvum sem ég hafði ekki notað í mjög langan tíma þannig að eftir lesturinn settist ég niður og skrifaði þessa bók á tæpum fjórum vikum.“

Mætti lesa meira

Hafðirðu þá ekki skrifað neitt af þessum texta eða hugleiðingum áður?

„Ég hafði skrifað brot úr einum kafla og birt sem færslu á Facebook en að öðru leyti ekki.“

Þessi bók virkar samt ekki á mann sem fyrstu skrif rithöfundar þannig að ég velti fyrir mér hvar þú kunnir að hafa þróað með þér stílbrögð og rödd.

„Ég hef í gegnum tíðina verið að skrifa blogg og þegar Mannlíf var ennþá tímarit og Eyjan virtur fjölmiðill þá skrifaði ég dálítið þar. Aldrei skáldskap samt. En ég þakka hrósið,“ segir hann og hlær.

Þú hlýtur þá líka að lesa mikið og alltaf gert kannski?

„Já, svona eftir fremsta megni. Mætti gera meira af því eins og við flest.“

Einhverjir ákveðnir rithöfundar í uppáhaldi?

„Eins og ég sagði þá er ég mjög inspíreraður af Eiríki og sérstaklega þessari bók þó að hin verkin hans séu glimrandi fín. Svo er vinur hans Jón Kalman líka í miklu uppáhaldi. Þegar maður var yngri las maður mikið Hallgrím Helgason og það má örugglega finna áhrif frá honum. Þar fyrir utan er ég mikill Megasar-­aðdáandi. Hann hafði mikil áhrif á mig hvað tungumálið varðar.“

Er von á annarri bók eða ertu kannski búinn að segja allt sem þú ætlaðir að segja, sestur í helgan stein?

„Ég er búinn að láta minn útgefanda vita að ég sé byrjaður á þremur skáldsögum en við tökum bara stöðuna eftir áramót þegar þessi vertíð er liðin og sölutölurnar komnar í hús.“

Þannig að þú ert kominn með bakteríuna?

„Já, algjörlega. Trúi því að þetta sé eitthvað sem ég mun gera um ókomna framtíð.“

Höf.: Höskuldur Ólafsson