Höskuldur Daði Magnússon
hdm@mbl.is
„Fyrstu kassarnir eru á leið úr landi,“ segir Gyða Dröfn Sveinbjörnsdóttir, vörumerkjastjóri hjá Ölgerðinni.
Þrátt fyrir að sala á CBD-drykkjum sé ennþá ólögleg á Íslandi hóf fyrirtækið nýverið að framleiða einn slíkan undir vörumerkinu Mist. Varan er eingöngu framleidd til útflutnings enn sem komið er en Gyða segir að vonir standi til að Mist-CBD verði fáanlegur á heimamarkaði á næstunni.
Hún segir að vaxandi áhugi sé á CBD-drykkjum víða erlendis, en CBD er kannabídíól sem unnið er úr kannabisplöntunni. „Vinsældirnar hafa til að mynda vaxið mjög hratt í Bretlandi undanfarið ár og teljum við enn fremur að slíkur drykkur eigi fullt erindi á markað hér heima. Lagaumhverfið er þó þannig hérlendis að CBD er ekki ennþá leyft í drykkjarvöru, en CBD-olíur hafa notið vaxandi vinsælda á seinustu árum og eru orðnar vinsælar húð- eða munnskolsolíur sem auðvitað enginn er að kyngja, því það er jú bannað.“
Gyða segir að það sé talsvert langt ferli að koma vöru sem þessari í almenna sölu erlendis en vonast sé til að Mist-CBD verði fáanlegur bæði í Bretlandi og Hollandi á næstu mánuðum. „Við vonum að sjálfsögðu að löggjöfin varðandi CBD-olíu í drykkjum verði endurskoðuð, og við fáum tækifæri til að kynna þennan frábæra drykk fyrir íslenskum neytendum. Mist-CBD hefur margs konar eftirsóknarverða virkni en auk CBD-olíunnar eru bæði L-theanín og mátulegt magn af náttúrulegu koffíni í drykknum.“