Fyrir tæplega ári stóð uppistandarinn Ari Eldjárn á sviði Háskólabíós og fékk salinn til að gráta af hlátri þegar hann lýsti nýjum fjölskylduaðstæðum á dramatískan hátt. Hvað það væri glatað að vera fertugur, fráskilinn, einstæður faðir sem byggi…

Fyrir tæplega ári stóð uppistandarinn Ari Eldjárn á sviði Háskólabíós og fékk salinn til að gráta af hlátri þegar hann lýsti nýjum fjölskylduaðstæðum á dramatískan hátt. Hvað það væri glatað að vera fertugur, fráskilinn, einstæður faðir sem byggi aðra hverja viku í unglingaherbergi heima hjá foreldrum sínum.

Fólk sem hefur verið í sömu sporum og Ari, fráskilið í unglingaherbergi eða jafnvel í þvottahúsi, fær líklega ískaldan straum niður allan líkamann og ofan í tær þegar það heyrir minnst á skilnað. Það er alveg sama hvað fólk ætlar að fara hvort í sína áttina mikið í góðu. Einmanaleikinn getur orðið nístandi og andleg eymd alger.

Þrátt fyrir skilnaði og skipbrot er sem betur fer ennþá til fólk sem trúir á ástina og veit að hún getur næstum því breytt svörtu í hvítt og fært fjöll. Jafnvel breytt vatni í vín eins og Jesús gerði.

Það var einmitt þess vegna sem fólk með hjartað á réttum stað fagnaði þegar fréttir bárust af því að Ari hefði fundið ástina á ný. Fundið Tinnu Brá Baldvinsdóttur eða Tinnu í Hrími eins og hún er kölluð. Þótt Tinna starfi ekki sem uppistandari er hún bráðfyndin og sniðug en þau Ari prýða einmitt forsíðu Jólablaðs Morgunblaðsins.

„Að kynnast Tinnu er klárlega það sem stendur upp úr í ár. Gullfalleg og eldklár kona með hlýtt hjarta og ómótstæðilegt skopskyn. Hún er gjöfin sem heldur áfram að gefa. Enda á hún gjafavöruverslun,“ segir Ari í viðtalinu og Tinna segist vera farin að huga að jólagjöf fyrir hann.

„Ég er svona að spá hvort ég gefi ekki Ara bara allt úr Hrími sem mig langar ótrúlega mikið í. Alla lampana sem ég hef ekki pláss fyrir. Fínu speglana frá Seletti og Kintsugi-stellið. Er það ekki sniðugt? Ég var mjög sein að klára gjafirnar í fyrra. Gleymdi að skrifa kort og frekar mikið rugluð af þreytu. Sjáum til hvernig þetta fer núna,“ segir Tinna.

Það er svo fallegt þegar ástin tekur hús á fólki. Ástin hreinlega frussast yfir allt umhverfið af svo miklum krafti að erfitt er að leyna því. Yfirbragð hinna ástföngnu breytist. Göngulagið, sem áður var kannski þungt og klunnalegt, verður tignarlegra með örlitlum danstakti. Ástföngnu fólki finnst líka allt fyndið og framkallar að meðaltali eitt mjög gott hláturskast á dag. Það er náttúrlega frábært fyrir heilsuna því gleðihormónin í heilanum örvast um leið. Aukið blóðflæði kallar á frísklegra útlit (ef fólk hefur áhuga á því – það er smekksatriði reyndar). Auk þess örvar það gleðihormónin í heilanum að horfa á eitthvað fallegt en í huga ástfanginna er ekkert fegurra í heiminum en sá sem fólk elskar af öllu hjarta.

Hugsið ykkur hvað myndi gerast ef ástin tæki hús á hverjum einasta landsmanni. Öll þjóðin myndi svífa um á bleiku skýi. Væri bara að kyssast uppi í sófa í stað þess að ausa eigin gremju og glötuðu skoðunum yfir umhverfið. Það er kannski aðeins of bratt að biðja fólkið í landinu að finna sér framtíðarmaka fyrir jólin en hver og einn getur allavega byrjað á því að vera svolítið góður við sjálfan sig. Elskað sig án þess að fólk detti í sjálfsdýrkun. Það má ekki ruglast á þessu tvennu. Fólk sem getur elskað sig í sínum ófullkomleika er líklegra til að geta elskað aðra. Það að finna ástina er líklega besta gjöf sem hægt er að fá og eins og Ari segir: „Gjöf sem heldur áfram að gefa.“