Byrjaðu á því að líta í kringum þig á heimilinu og kíktu inn í skápa, skúffur og geymslur. Leynist þar jóladúkur með gömlum sósubletti sem ekki þvæst úr, kassi af gömlum teiknimyndablöðum sem enginn les lengur eða falleg dós undan sælgæti sem rann ljúflega ofan í maga á jólunum fyrir þremur árum? Allt þetta geturðu nýtt í að skapa þínar eigin gjafaumbúðir. Oft getur jafnvel hluti gjafarinnar, eins og klútur, koddaver eða annar textíll, nýst til innpökkunar.
Á árum áður straujaði fólk jólapappírinn til að hægt væri að nýta hann aftur jólin á eftir og það er góð hefð, en einnig er hægt að nota blað dagsins, auglýsingabæklinga, gömlu kórnóturnar eða teikningar barnanna til að búa til gjafaumbúðir. Skapandi og öðruvísi leið til að nýta pappír er að sauma arkirnar saman, annaðhvort í höndunum eða á saumavél, og þá er hægt að pakka utan um stærri gjafir eða útbúa gjafapoka.
Ef ekkert er um efnivið inni á heimilinu er hægt að gera sér ferð í Rauðakrossbúðirnar, Góða hirðinn eða á aðra nytjamarkaði. Þar má finna alls konar textíl, dósir, bauka, bækur, blöð og hvers konar jólaskraut sem hægt er að nýta til að skreyta pakka. Að búa til umbúðir úr því sem til er á heimilinu getur verið hugguleg samvera fyrir alla fjölskylduna í aðdraganda jólanna. Það eina sem þarf er að setja jólalög á fóninn, virkja hugarflugið og sköpunargleðina og eiga notalega stund saman. Um leið er hægt að draga úr því mikla magni úrgangs sem fylgir jólahaldinu og best er ef umbúðirnar má svo nota aftur, ár eftir ár eftir ár.