— Morgunblaðið/Marta María Winkel Jónasdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvað hefði gerst ef Johannes Steen, bakarasnúður í Danmörku, hefði verið með Disaronno-flösku við höndina þegar hann heillaðist af Söruh Bernhardt?

Íslendingar kalla sörur bara sörur en þær eru ættaðar frá Danmörku og fór fyrsta bökunarplatan inn í ofn í kringum 1911. Danskir kökusérfræðingar segja að bakari nokkur, Johannes Steen, hafi heillast upp úr skónum af franskri leikkonu. Hún hét Sarah Bernhardt og eftir að hafa séð hana á sviði ákvað bakarasnúðurinn að búa til kökur sem vísuðu í frönsku makkarónurnar, sem eru löngu heimsfrægar, og bæta við dönskum áhrifum í formi smjörkrems og súkkulaðis. Við munum líklega flest eftir því hvenær við smökkuðum fyrstu söruna og einhvern veginn var þetta alltaf þannig að sem barn mátti maður ekki borða sörur eins og popp. Ein átti að duga en auðvitað er ekkert hægt að borða bara eina söru.

Hér má finna auðvelda útgáfu af sörum en í stað kaffikrems kemur möndlulíkjörinn Disaronno við sögu. Bakarasnúðurinn hann Johannes Steen hefði örugglega frekar notað hann í kremið en kaffi ef hann hefði haft hann við höndina. Eina sem fólk verður að gæta að í sörubakstrinum er að setja Disaronno bara út í kremið – ekki drekka það á meðan.

Disaronno-sörur (um það bil 60 stykki)

200 g möndlur

180 g flórsykur

3 eggjahvítur

salt á hnífsoddi

Stillið ofninn á 180°.

Byrjið á því að hakka möndlurnar í hakkavél – ekki setja þær í blandara því þá fer olían úr þeim sem gerir deigið ríkulegra. Ef þær eru hakkaðar hægt og rólega þá verða sörurnar upp á 10.

Stífþeytið eggjahvítur og bætið flórsykrinum varlega út í.

Þá er möndlunum blandað varlega saman og svo er gott að salta smá. Það má sleppa því.

Setjið bökunarpappír á bökunarplötu.

Vandið ykkur þegar þið setjið deigið á plötuna og reynið að hafa kökurnar eins litlar og hægt er (u.þ.b. 1 tsk. af deigi)

Bakið hverja plötu 12 mínútur og ekki opna ofninn á meðan – þetta er heilög stund.

Krem

6 eggjarauður

450 g flórsykur

6-8 msk. Disaronno-líkjör. Má vera meira ef fólk vill.

Þeytið eggjarauðurnar vel og vandlega. Sigtið flórsykurinn og bætið út í eggjarauðurnar.

Þá líkjörnum bætt út í og smakkað til. Gott er að setja kremið í frysti í um 15 mínútur áður en það er sett á kökurnar ef það er með linara móti. Þá má líka bæta smá flórsykri út í til að gera það stífara.

Þegar kremið er komið á sörurnar er best að frysta þær þannig að þær séu frosnar í gegn áður en þær eru hjúpaðar með dökku súkkulaði. Lífræna súkkulaðið frá Änglamark er mjög gott á sörurnar og gefur þeim fallega áferð.

Höf.: Marta María Winkel Jónasdóttir |