Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin WHO hefur óskað eftir því að kínversk stjórnvöld veiti stofnuninni frekari gögn um þá öndunarfærasjúkdóma sem nú eru sagðir í vexti í norðurhluta landsins, en þar hefur verið tilkynnt um fleiri tilfelli veikinda „sem líktust inflúensu“ síðustu vikur en á sama árstíma undanfarin þrjú ár. Þar á meðal hefur verið tilkynnt um aukinn fjölda lungnabólgutilfella hjá börnum.
Kínversk stjórnvöld sögðu í síðustu viku að aukningin væri vegna afléttingar sóttvarnaaðgerða sem settar voru á vegna kórónuveirufaraldursins. Þá lögðu Kínverjar áherslu á að um þekkta og tiltölulega algenga sjúkdóma væri að ræða, en hefðbundið flensutímabil er nú gengið í garð í landinu.