Áhugaverður „Seinni hluti bókarinnar, ljóðin, er heildstæðari og býsna áhugaverður. Það form hentar Guðmundi sýnilega vel við að leika sér með hugmyndir og draga upp myndir með knöppum og vel mótuðum hætti,“ segir um nýjustu bók Guðmundar Brynjólfssonar.
Áhugaverður „Seinni hluti bókarinnar, ljóðin, er heildstæðari og býsna áhugaverður. Það form hentar Guðmundi sýnilega vel við að leika sér með hugmyndir og draga upp myndir með knöppum og vel mótuðum hætti,“ segir um nýjustu bók Guðmundar Brynjólfssonar. — Ljósmynd/Margrét Unnur Guðmundsdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Athugasemdir og ljóð Hrópað úr tímaþvottavélinni ★★★½· Eftir Guðmund Brynjólfsson. Sæmundur, 2023. Mjúk kápa með innslögum, 72 bls.

Bækur

Einar Falur

Ingólfsson

Það er allt bilað

í tímavélinni

nema hemlarnir. (49)

Þetta óstöðvandi flug tímans og ástandið í menningunni í flóknum nútímanum er umfjöllunarefni eða uppspretta athugasemda, hugleiðinga, kersknislegra sagnabrota og írónísks tuðs sögumanns eða hvað sem annars á að kalla vitundina að baki þeim misstuttu og nafnlausu textum sem mynda meginhluta þessarar bókar Guðmundar Brynjólfssonar; nær fimmtíu blaðsíður með textum sem höfundurinn hefur kallað greiningu á stöðu nútímamannsins. Aftast eru svo ein sautján vel mótuð ljóð sem mynda býsna góða heild sem eins og vegur salt í bókinni á móti athugasemdunum sem stundum eru ljóðrænar en líka mjög brotakenndar og fara út í nöldur, en yfirleitt má þó finna fyrir kaldri íróníunni.

Guðmundur er fjölmenntaður höfundur: leiklistarfræðingur, doktor í bókmenntum og djákni. Hann hefur skrifað ein sjö leikrit, sum með Bergi Þór Ingólfssyni, og verið ötull við skáldsagnaskrif undanfarið, sent frá sér átta sögur á ellefu árum. Fjölbreytilegar og býsna athyglisverðar sögur enda er Guðmundur góður sögumaður og hefur löngum vakið athygli fyrir að koma vel fyrir sig orði og geta leikið sér listavel með orð og hugmyndir. En þessi bók, Hrópað úr tímaþvottavélinni, er ólík öðru sem hann hefur áður sent frá sér.

Viðfangsefni athugasemdanna í fyrri hluta bókarinnar má segja að snúist um hraðann í lífi nútímamannsins, sem getur ekki lengur notið þess að vera til, er bara með augun á samfélagsmiðlum meðan lífið hleypur fram hjá. Og því er velt upp á ýmsan hátt, í myndum og athugasemdum. Svona hefst fyrsti textinn: „Framfarahugmyndin er svo rík á meðal okkar að við erum hætt að eldast, hætt að lifa, hætt að fæðast. Við bara erum og svo ekki. Ánægð með hlutskiptið þegar það kemur upp á skjáinn á gráum morgni undir yfirskriftinni // Minning“ (7). Vöngum er ítrekað velt yfir tímanum, sem bent er réttilega á að sé undarleg skepna og sá sem talar (söguvitundin minnir þennan lesanda á stundum á tuðgjarna sögumenn sagna Guðbergs Bergssonar) segir fáa vera jafn illa áttaða og tíminn er. Einn fíni prósinn sem þessu tengist er um karl sem skoðaði fyrri hjónabönd sín í myndaalbúmum og saknaði allra kvenna sinna. „Skaut sig svo og taldi að þannig myndi hann sleppa. / Það var nú eitthvað annað. Þá tók við bévað / Sumarlandið með öllu hinu jarðneska sýsli aftur upp á / nýtt. Sömu konurnar, sama tengdafólkið, sama baslið. / Sömu kjötbollurnar.“ Í neðanmálsgrein er svo skýrt fyrir (ungum) lesendum hvað myndaalbúm eru í samanburði við ljósmyndaiðkan nú: „Í dag eru teknar milljónir mynda. Þær eru helst aldrei skoðaðar. Enda ekki teknar til þess. Heldur til að drepa tímann. Festa tímann. Frysta tímann. Ef tíminn er þá til“ (12). Býsna góð greining þetta.

En það er líka stutt í tuðið, eins og í hugleiðingu um styttingu vinnutímans og framhaldsskólanna – það fyrrnefnda sagt blekking enda þreytan sú sama og það eina sem vex er gróðinn sem fer óstyttur til hinna óþreyttu; stytting skólanna sögð auka djöfulgang á húsnæðismarkaði og drepa leiklistar- og kórastarf. Sitthvað til í þessu en sem bókmenntalegur texti er flugið ekki hátt. Og sumar athugasemdanna falla flatar. En það er ánægjulegt og hugvekjandi að lesa aðrar. Í sumum er vitnað í hitt og þetta bókmenntalegt, í Neruda sem Biblíuna. Eins og hér, þar sem höfundurinn fer í ljóðformið:

Þegar Guð sagði Abraham að fórna Ísak

var einungis

línuleg

dagskrá. (22)

Seinni hluti bókarinnar, ljóðin, er heildstæðari og býsna áhugaverður. Það form hentar Guðmundi sýnilega vel við að leika sér með hugmyndir og draga upp myndir með knöppum og vel mótuðum hætti. Sum ljóðanna eru prósar sem minna í formi á skrif Sigurðar Pálssonar og Óskars Árna Óskarssonar en Guðmundur finnur samt sína persónulegu leið inn í prósann. Í „Rondó“ er því lýst hvernig lag með þeim Crosby, Stills, Nash og Young hljómar skyndilega í líkhúsi og stemningin þar gjörbreytist. Í öðrum vel mótuðum prósa hugsar ljóðmælandinn aftur til liðins tíma þegar hann var með ástinni sinni á Mokka og heimurinn var fallegur: „Það var sérkennileg lykt og merkileg birta. Ég elskaði þig og vissi að þannig yrði það alltaf. Enda var Mokka alltaf á sömu kennitölu og kaffivélin antík …“ (58).

Skopskyn skáldsins nýtur sín vel í sumum ljóðanna, til dæmis í „Ávarp snjallkonunnar“, þar sem vélrænar raddir hafa tekið yfir samskipti fólks. Önnur einkennast af tregafullu endurliti og eru býsna vel orðuð, eins og í „Hvarf“, þar sem ljóðmælandinn spyr hvert æska sín hafi horfið. Og dagur gleymdra drauma verður að fallegu ljóði sem heitir „Draumaþögn“:

Í dag verður draumaþögn,

man ekki lengur myndirnar

dreg bát minn hljóðan úr nóttinni

inn á rauðgula vík.

Landa engu. (70)