Landeyjar Stóra-Hildisey I er kúabú í fullum rekstri. Rúmur fullvirðisréttur fylgir jörðinni, svo og búpeningur, vélar og öll tæki.
Landeyjar Stóra-Hildisey I er kúabú í fullum rekstri. Rúmur fullvirðisréttur fylgir jörðinni, svo og búpeningur, vélar og öll tæki. — Ljósmynd/Fasteignamiðstöðin
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Landbúnaðurinn fer alltaf og reglulega í gegnum sveiflur. Stundum herðir að en svo lagast staðan þannig að alltaf gildir að fólk skuli horfa til lengri framtíðar,“ segir Magnús Leópoldsson lgf

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Landbúnaðurinn fer alltaf og reglulega í gegnum sveiflur. Stundum herðir að en svo lagast staðan þannig að alltaf gildir að fólk skuli horfa til lengri framtíðar,“ segir Magnús Leópoldsson lgf. hjá Fasteignamiðstöðinni. Í löngu starfi sínu þar hefur Magnús sérstaklega lagt sig eftir að selja eignir í sveitum landsins og er um þessar mundir með til sölu vildarjarðir og kostabú.

Nokkrar jarðir sem nú eru á skrá Fasteignamiðstöðvarinnar vekja sérstaka athygli. Þar skal fyrst nefnd jörðin Álftanes á Mýrum í Borgarfirði sem talin er vera um 2.400 hektarar. Í sölukynningu segir að Álftanes sé óvenjulega áhugaverða jörð í fögru umhverfi og staðsetning og umhverfi gefi marga möguleika til nýtingar. „Þarna eru víðfeðm mýrarlönd og hagar sem eru góð beitarlönd til dæmis fyrir hross og sauðfé,“ segir Magnús um Álftanes þar sem eru íbúðarhús, fjárhús, hesthús, hlöður og vélageymsla.

Flóar í landi Álftaness eru settir klapparásum, en sandbakkar og fitjar við ströndina. Útfiri er mikið og breiðar fjörur með fjölda skerja. Kirkja hefur verið á Álftanesi um aldir og sú sem þar stendur var reist árið 1904. Þess má geta að Haraldur heitinn Sveinsson framkvæmdastjóri Árvakurs átti lengi Álftanes, en nú vilja afkomendur hans selja jörðina og óska tilboða.

Rjómi, ostur og ís

Í Miðdölum eru til sölu tvær samliggjandi jarðir; Erpsstaðir og Þórólfsstaðir, sem eru samanlagt um 600 ha. að flatarmáli. Þetta er í Miðdölum, fljótlega eftir að komið er af Bröttubrekku niður í Dalina. Þarna er rekið rjómabúið Erpsstaðir hvar framleiddar eru ýmsar vörur úr kúamjólk; svo sem ostar og ís. Framleiðsluréttur í mjólk á Erpsstöðum er um 380 þúsund lítrar og nautgripir í fjósi eru um 210: þar af um 70 mjólkurkýr.

Erpsstaðir eru vel ræktuð jörð og þar eru tvö íbúðarhús, hlöður og tvö fjós, annað með ágætri aðstöðu fyrir matvælavinnsluna sem fyrr er nefnd. Magnús segir að í þeirri starfsemi felist ýmis tækifæri. Erpsstaðir standi við þjóðbraut þvera, Vestfjarðaveg nr. 60, og vinsælt sé meðal ferðafólks að renna í hlað og kaupa heimaunnar afurðir. Einnig gildi á þessum jörðum samningar um bændaskógrækt, sem ætti að geta skilað ágætum arði í framtíðinni.

Kúabú í fullum rekstri

Þriðja jörðin hjá Fateignamiðstöðinni nú er Stóra-Hildisey I í Landeyjum. Þar er stórt íbúðarhús og kúabú í fullum rekstri; en þetta er á þeim slóðum þar sem margir af umsvifamestu mjólkurframleiðendum landsins búa. Fjósið þar á bæ er nýlega byggt, en fullvirðisréttur til mjólkurframleiðslu á bænum er 438 þúsund lítrar. Alls er jörðin um 300 ha. og þar af er ræktarland um þriðjungur. Allur bústofn, vélar og annað fylgja jörðinni, sem óskað er eftir tilboðum í. Ætla má að virði jarðarinnar sé um hálfur milljarður króna, segir Magnús Leopoldsson.

„Á markaði jarða og lendna er alltaf nokkur hreyfing. Þegar bændafólk er komið yfir miðjan aldur og sér ekki fram á að börn þess taki við kemur stundum hreyfing á mál. Fólk þreytist og vill hugsanlega breyta til. Sú staða sem ungir bændur er í nú, meðal annars vegna hárra vaxta og verðbólgu, eins og þeir lýstu á dögunum, er þröng. Samt hefur þetta ekki leitt til þess að fólk sem er kannski nýlega byrjað búskap sé að setja jarðir sínar á söluskrá. Að minnsta kosti ekki enn sem komið er, enda þótt mörg séu kannski að velta hlutunum fyrir sér. Vel fjáð fólk erlendis sýnir svona málum líka alltaf nokkurn áhuga,“ segir Magnús Leopoldsson og að síðustu:

Lán fást en vextir háir

„Annars er veruleikinn sá að ef fólk héðan af höfuðborgarsvæðinu á skuldlitla eign hér, til dæmis einbýlishús sem nýtist sem milligjöf í jarðakaupum, greiðir slíkt fyrir viðskiptum. Góðar rekstraráætlanir og þokkaleg eiginfjárstaða þýða að yfirleitt gengur vel að fá lán frá bönkum vilji fólk í búrekstur og jarðakaup, en vissulega eru vextirnir háir um þessar mundir.“

Höf.: Sigurður Bogi Sævarsson