Svefn Núna eru um 11 þúsund Íslendingar í meðferð við kæfisvefni með svefnöndunarvél en talið er að raunveruleg þörf gæti verið miklu meiri.
Svefn Núna eru um 11 þúsund Íslendingar í meðferð við kæfisvefni með svefnöndunarvél en talið er að raunveruleg þörf gæti verið miklu meiri. — Ljósmynd/Colourbox
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Dóra Ósk Halldórsdóttir doraosk@mbl.is Við höfum verið að sjá með nákvæmari greiningum síðustu ár að miklu fleira fólk þjáist af kæfisvefni en áður var talið síðustu 30 ár,“ segir Jordan Cunningham, yfirlæknir svefnrannsókna á Landspítala. Auk hefðbundinnar kæfisvefnsskimunar hafa PSG-svefnrannsóknir með heilarita aukist á Norðurlöndum þar sem hópar eins og konur og yngra fólk greinast frekar en áður voru það nánast eingöngu eldri karlmenn í ofþyngd sem greindust.

Viðtal

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Við höfum verið að sjá með nákvæmari greiningum síðustu ár að miklu fleira fólk þjáist af kæfisvefni en áður var talið síðustu 30 ár,“ segir Jordan Cunningham, yfirlæknir svefnrannsókna á Landspítala. Auk hefðbundinnar kæfisvefnsskimunar hafa PSG-svefnrannsóknir með heilarita aukist á Norðurlöndum þar sem hópar eins og konur og yngra fólk greinast frekar en áður voru það nánast eingöngu eldri karlmenn í ofþyngd sem greindust.

„Enn eru einfaldar rannsóknir algengastar, en áður voru þær 95% allra rannsókna á kæfisvefni. Núna hefur hlutfallið lagast svolítið en mikil áhersla hefur verið á það innan Landspítalans undanfarin ár,“ segir hann. Þær rannsóknir eru eingöngu gerðar á Landspítalanum.

„Í dag er meiri skilningur á samspili líkamans og stjórnun öndunar og hvernig það getur haft áhrif á hvort fólk sefur laust eða fast,“ segir Cunningham og bendir á að Íslendingar séu framarlega í rannsóknum á kæfisvefni. Megi þar nefna Svefnsetrið í HR undir stjórn Ernu Sifjar Arnardóttur og langtímarannsókn Háskóla Íslands, Landspítala og Nox Research undir stjórn Þórarins Gíslasonar sem hafi unnið þrekvirki í rannsóknum á þessu sviði.

Helstu einkenni kæfisvefns eru háværar hrotur, tíð öndunarhlé og almennt óvær svefn sem leiðir síðan til dagsyfju og einbeitingarskorts á daginn. Ef kæfisvefn er ekki meðhöndlaður er fólk í aukinni hættu á hjarta- og æðasjúkdómum, háum blóðþrýstingi, heilablóðfalli og þunglyndi. Konur og yngra fólk greinist síður í kæfisvefnsskimun því að þótt svefn þeirra raskist mikið vegna kæfisvefns vaknar þessi hópur áður en súrefni í blóði þeirra lækkar. Því eru PSG-svefnrannsóknir með heilarita mikilvægar fyrir þennan hóp.

Fyrir rúmu ári var biðtími þess sem hafði fengið greiningu á kæfisvefni u.þ.b. eitt og hálft ár áður en hægt var að fá meðferð í formi svefnöndunarvélar. Það breyttist þegar heilbrigðisráðuneytið styrkti rannsóknir á kæfisvefni um 100 milljónir króna í október 2022 svo hægt var að fjárfesta í fleiri svefnöndunarvélum. „Núna er bið sjúklings sem hefur greinst með kæfisvefn og hefur fengið tilvísun á svefnöndunarvél um það bil tveir mánuðir. Það er miklu betra en það var en þörfin er samt enn gífurleg.“

Algengari en sykursýki

Núna eru í kringum 11 þúsund Íslendingar sem nota svefnöndunarvélar og Cunningham segir að ef litið sé til faraldursfræða megi gera ráð fyrir að það séu 20-40 þúsund ógreindra Íslendinga sem myndu fá aukin lífsgæði við að nota slíka vél. Það er ansi há tala.

„Já, kæfisvefn er algengari en sykursýki,“ segir Cunningham og bætir við að einn af mörgum áhættuþáttum við að þróa með sér sjúkdóminn sé ofþyngd sem hafi aukist mikið á Íslandi. „Íslendingar hafa verið að koma út sem ein af þyngstu þjóðum Vestur-Evrópu miðað við höfðatölu sem þýðir að tilfellum kæfisvefns fjölgar.“

Núna er biðin eftir greiningu á kæfisvefni löng og Cunningham segir að ein ástæða þess sé að það séu fáir læknar með sérþekkingu til að lesa í niðurstöður rannsóknanna. „Við erum með svefnsálfræðinga sem gera fyrsta matið á greiningunni, en þá þarf þjálfaður læknir að lesa heildrænt úr niðurstöðunum og tengja við sjúkrasögu sjúklingsins og einkenni og ákveða næstu skref.“ Hann segir að á morgun verði fyrsta af röð auka laugardagsvakta á Landspítalanum þar sem læknar muni vinna yfirvinnu við að reyna að ná biðlistum um greiningu eitthvað niður, en biðin er núna margir mánuðir.

Kostar þjóðfélagið mikið

Cunningham segir að bæði í Bandaríkjunum og í heimalandi hans, Ástralíu, hafi verið gerðar margar rannsóknir á hvaða kostnað þjóðfélagið ber af vangreindum kæfisvefni. „Árið 2017 var rannsókn gerð í Bandaríkjunum af American Academy of Sleep Medicine þar sem áætlað var að beint fjárhagstjón samfélagsins af vangreindum kæfisvefni væri 150 billjónir dollara. Þar var tekinn inn kostnaður vegna aukinna sjúkdóma sem fylgja vangreindum kæfisvefni og áhrifa dagsyfju í þjóðfélaginu. Stór hluti alvarlegra bílslysa er talinn vera vegna dagsyfju, slys á vinnustöðum og eins minni virkni á vinnustöðum.“ Það sama er uppi á teningnum í Ástralíu. „Rannsóknir sýna að fyrir hverja krónu sem eytt er í rannsóknir fær þjóðfélagið þrjár krónur til baka. Svo það er stórmál fyrir samfélagið að vinna bug á kæfisvefni.“

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir