Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, segir það munu skýrast á næstu vikum hvort Miklabraut verður sett í stokk eða göng.
Eigendur félagsins Betri samgangna, ríkið og sveitarfélögin sex á höfuðborgarsvæðinu, meti nú kosti hvorrar leiðar um sig.
„Ég reikna með að eigendurnir taki ákvörðun um hvort göng eða stokkur verður fyrir valinu á næstu vikum. Þannig að þegar að við sjáum uppfærðan samgöngusáttmála verði hægt að kynna útfærsluna,“ segir Davíð. Spurður hvar gangamunnarnir verði, ef jarðgöng verða grafin, segir Davíð miðað við að annar verði vestan við Snorrabraut og hinn við Grensásveg. Það liggi ekki endanlega fyrir né heldur hversu djúpt göngin muni liggja eða hver kostnaðurinn við þau verður.
„Það hefur verið unnið að frumdrögum Miklubrautarstokksins. Samhliða hefur verið skoðað að gera göng. Það er verið að meta kostnaðinn við göng og hvernig umferðarflæðið verður á framkvæmdatímanum og þegar framkvæmdum lýkur. Þetta er í skoðun en ég reikna með að við leggjum áherslu á að í þessari uppfærslu samgöngusáttmálans muni hluthafar okkar taka ákvörðun um hvort þeir vilja göng eða stokk. Það er ljóst að kostirnir við göng eru fjölmargir.
Í fyrsta lagi fylgir þeim minna rask á framkvæmdatímanum en við stokkagerð. Þá er aðeins rask við gangamunanna sitt hvorum megin en við stokkagerð þarf að loka götu í áföngum og útbúa hjáleiðir. Það verður því miklu meira rask á framkvæmdatímanum.
Í öðru lagi eru margar lagnir undir Miklubraut. Það þarf ekki að hafa áhyggjur af því við gangagerð en ef stokkur er gerður þarf að taka þær að miklu leyti upp og endurgera. Það er hægt að byggja nánast að vild á aðliggjandi landi ef umferðin er í göngum en þegar stokkur er gerður þarf hins vegar að ákveða áður hversu mikið eigi að byggja á yfirborðinu enda hefur það áhrif á hönnun burðarþolsins.
Kostirnir við stokk eru að hann er líklega ódýrari en göng. Hversu mikið á eftir að koma í ljós en það er kannski ekki gríðarlegur munur á kostnaði. Einnig þarf að skoða hversu miklu munar í framkvæmdatíma, en það má búast við að stokkur yrði aðeins fljótgerðari,“ segir Davíð.
Leið til fjármögnunar
– Fram kom í kynningu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra síðasta föstudag að nú sé ekki gert ráð fyrir mörgum íbúðum við Sæbrautarstokkinn. Hvernig byggð sjáið þið fyrir ykkur við Sæbrautarstokk?
„Skipulagsvaldið er hjá borginni. Borgin hóf fyrir tveimur árum að leita hugmynda fyrir skipulag við báða stokkana, Sæbrautarstokk og Miklubrautarstokk, en í hugmyndasamkeppni borgarinnar var gert ráð fyrir að það yrði byggt meira við Miklubrautarstokk en Sæbrautarstokk. Það er skynsamlegt. Miklubrautarstokkurinn verður meira miðsvæðis og þar er verðmætara land. Það er í höndum borgarinnar að ákveða þetta en mín persónulega skoðun er sú að þetta gæti verið leið til að fjármagna stokkana að hluta.
Þarna verða til heilmikil verðmæti í byggingarlandi sem væri hægt að nýta til að fjármagna stokkana. Það er hins vegar ljóst að ef það á að byggja ofan á stokkunum eru þeir nokkru dýrari. Það þarf að byggja mismunandi stokka eftir því hvort borgarlína eða byggingar eru ofan á. Miklubrautarstokkur yrði dýrari en Sæbrautarstokkur enda þarf hann að vera sérstyrktur til að þola byggingar.
Stokkur með byggingum ofan á er dýrari en þá losnar um meiri verðmæti í formi lands. Hvort sem það eru íbúðir eða atvinnuhúsnæði tel ég eðlilegt og sanngjarnt að þegar byggingarréttur myndast við gerð stokkanna séu þau verðmæti notuð til að fjármagna stokkana að hluta.“
Sæbrautarstokkur á undan
Davíð segir að í núverandi áætlunum sé gert ráð fyrir að Sæbrautarstokkur komi á undan Miklubrautarstokknum og fyrsti áfangi borgarlínu fari þar yfir og upp á Ártúnshöfða.
„Þess vegna er Sæbrautarstokkurinn framar í röðinni af því að borgarlínan þarf að komast yfir Sæbrautina og Sæbrautarstokkurinn leysir það mál. Jafnframt leysir hann vandamál vegna Sundabrautar en það mál er ekki á okkar borði heldur eru ríkið og borgin að undirbúa Sundabraut. Sæbrautarstokkur er forsenda þess að hægt sé að fara í Sundabraut af því að annars er ekki hægt að tengja hana Sæbrautarmegin,“ segir Davíð.
Spurður hvað kílómetrinn í Miklubrautargöngum muni kosta segir Davíð að í almennri umræðu reyni menn gjarnan að reikna kílómetraverð á vegum, göngum og brúm.
„Málið er hins vegar ekki alveg svo einfalt af því að munnarnir í göngum eru dýrir og svo er spurning hvernig þeir eru útfærðir. Eru hliðartengingar? Eru fleiri munnar? Og svo framvegis. Þessu fylgir mikill kostnaður. Til dæmis eru lengri göng líklega hlutfallslega ódýrari en stutt af því að munnarnir eru dýrir.“
– Ef gerð verða göng í stað stokks við Miklubraut þýðir það að þið getið byggt enn meira ofanjarðar en við sérstyrktan stokk?
„Það má reikna með að göngin yrðu lengri en stokkurinn. Við höfum yfirleitt aðeins gert ráð fyrir að stokkurinn nái að Kringlunni en göngin nái að Grensásvegi. Það skapast því stærra svæði undir íbúðabyggð með göngum.“