Óeirðir Í gær mátti sjá bíla brenna á götum úti í miðborg Dyflinnar.
Óeirðir Í gær mátti sjá bíla brenna á götum úti í miðborg Dyflinnar. — AFP/Peter Murphy
Mikil alda óeirða og ofbeldis reið yfir Dyflinn höfuðborg Írlands í gærkvöldi í kjölfar hnífstunguárásar fyrir utan grunnskóla í miðborginni fyrr um daginn. Maður réðst þar á þrjú börn á aldrinum 5-6 ára og tvo fullorðna

Mikil alda óeirða og ofbeldis reið yfir Dyflinn höfuðborg Írlands í gærkvöldi í kjölfar hnífstunguárásar fyrir utan grunnskóla í miðborginni fyrr um daginn. Maður réðst þar á þrjú börn á aldrinum 5-6 ára og tvo fullorðna.

Árásin vakti mikla reiði og mótmælendur söfnuðust saman í miðborginni eftir hana. Átök brutust út á milli þeirra og lögreglunnar. Ráðist var á lögregluþjóna og var flugeldum og flöskum meðal annars kastað í þá. Kveikt var í bílum og þeim hvolft, auk þess sem kveikt var í strætisvagni og sporvagni. Einnig var ráðist inn í verslanir.

Lögreglustjóri Dyflinnar kennir „snarvitlausum skemmdarvörgum“ um óeirðirnar og varar við röngum upplýsingum. Á félagsmiðlum hefur verið uppi orðrómur um þjóðerni árásarmannsins.

Hafþór Ægir Þórsson, sem dvelur á hóteli í miðborginni ásamt níu öðrum Íslendingum, segist hafa orðið var við sprengjuhvelli og eldsvoða. Þyrlur hafi sveimað yfir. „Þetta er eins og maður sér í bíómyndum,“ segir Hafþór í samtali við mbl.is.