— Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Atburðarásin í Grindavík síðustu vikurnar hefur verið hröð, en þó ekki jafn hröð og föstudaginn 10. nóvember eins og fjallað er um framar í blaðinu. Kröftugir skjálftar riðu yfir fyrstu dagana í nóvember og land reis hratt í Svartsengi, áður en…

Atburðarásin í Grindavík síðustu vikurnar hefur verið hröð, en þó ekki jafn hröð og föstudaginn 10. nóvember eins og fjallað er um framar í blaðinu.

Kröftugir skjálftar riðu yfir fyrstu dagana í nóvember og land reis hratt í Svartsengi, áður en kvika virðist hafa hlaupið í austur undir Grindavíkurveginn og í sprungu undir Sundhnúkagígaröðinni og myndað þar kvikugang, sem náði í suður undir Grindavík og jafnvel út í haf.

Þessum miklu umbrotum í jarðskorpunni hafa einnig fylgt miklar vendingar í lífi fólks ofan hennar, sem neyðst hefur til að yfirgefa heimili sín og segja um leið skilið að sinni við sitt litla og nána samfélag.

Ljóst er að mikið verk er fyrir höndum við að koma Grindvíkingum í hús á ný og verja samfélagið fyrir frekari skakkaföllum.

Á sama tíma þykir alls óvíst hvers má vænta úr iðrum jarðar, en Svartsengi hefur tekið að þenjast að nýju og allt bendir til þess að kvika safnist þar nú fyrir á nýjan leik, og miklum mun hraðar en á dögunum fyrir kvikuhlaupið afdrifaríka föstudaginn 10. nóvember. Atburðarásinni virðist því síður en svo lokið.