Bergþór Ólason
Bergþór Ólason
Eftir tæpa viku mun mikill fjöldi fólks, tugir þúsunda raunar, leggja leið sína til Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, með það að yfirlýstu markmiði að bjarga heiminum. Nú er það nefnilega 28

Eftir tæpa viku mun mikill fjöldi fólks, tugir þúsunda raunar, leggja leið sína til Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum, með það að yfirlýstu markmiði að bjarga heiminum. Nú er það nefnilega 28. lokatilraunin til að bjarga honum, á COP28. Þrátt fyrir heilar 28 tilraunir til að bjarga heiminum hefur sáralítið annað gerst en að nokkur lönd hafa sett sér háleit óraunhæf markmið sem er ógjörningur að ná og þaðan af síður líkleg til að breyta neinu hvað varðar loftslag heimsins – þar sem stóru löndin sem mest menga gera mest lítið.

En áfram skal haldið með hvert síðasta tækifærið á fætur öðru, víðsvegar um heiminn. Svolítið eins og drengurinn sem kallaði alltaf „úlfur, úlfur!“ þar til allir hættu að hlusta og enginn brást við þegar úlfurinn lét sjá sig.

En áfram mæta öll fyrirmennin á einkaþotunum sínum og þúsundir embættismanna og annarra áhugamanna um loftslagsmál á almenningsþotunum. Það er gott að finna fyrir samtakamætti á staðnum þegar segja á almúganum að hætta að fljúga, það sé svo vont fyrir loftslagið.

Það tókst meira að segja að sannfæra íslensk stjórnvöld um að þau yrðu að taka þátt í FitFor55-aðgerðum Evrópusambandsins sem kveða á um að Íslendingar eigi að ferðast í lest en ekki flugvélum – íbúar eyjunnar sem eiga allt undir góðum loftsamgöngum eiga bara að taka lest. Það má gera því skóna að raunheimarofið verði varla meira.

En það virðist engu skipta þó að heimsendaspár loftslagskirkjunnar gangi ekki eftir, predikararnir bara tvíeflast á milli funda – sannfæring þeirra eykst í öfugu hlutfalli við spádómsgáfur þeirra.

Auðvitað eigum við að ganga vel um náttúruna og fara varlega í þeim efnum. En öll kerfin sem innleidd hafa verið til að mæta þessu virðast beinlínis ganga gegn yfirlýstum markmiðum kerfanna.

Þá gildir einu hvort um er að ræða furðuleg sölukerfi aflátsbréfa, svokallaðar upprunavottanir, eða íþyngjandi regluverk og gjöld sem verða til þess að iðnaðarframleiðsla flyst frá Vesturlöndum til ríkja þar sem losun gróðurhúsalofttegunda er margföld á við það sem sama framleiðsla olli áður.

Það yrði til mikilla bóta ef íslensk stjórnvöld áttuðu sig á því að rafmagnið verður ekki til í innstungunni – það þarf að virkja grænu orkuna hér á Íslandi til að standa undir jákvæðum breytingum í orkufrekum iðnaði. Það væri ágætis byrjunarpunktur.

Þá væri líka til bóta ef íslensk stjórnvöld drægju sig út úr því regluverki sem Evrópusambandið hefur formað í loftslagsmálum. Við höfum verið og erum best í heimi hvað loftslagsmálin varðar og eigum að stefna að því að halda þeirri stöðu. En höldum henni á okkar forsendum en festumst ekki í regluverki sem er hannað utan um allt annan veruleika en þann sem við búum við hér á landi.

Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is

Höf.: Bergþór Ólason