Ólöf er algjört jólabarn og heldur mikið í hefðir og siði tengda jólunum þegar kemur að mat. „Jólamatseðillinn hjá mér er nánast heilagur, það er ávallt dýrindis humarsúpa sem bróðir minn Ásgeir Ólafsson býr til og síðan er það hamborgarhryggurinn sem hann lagar einnig. Í eftirrétt er það toblerone-ís sem ég og systir mín Bríet Eriksdóttir skiptumst á að gera ár hvert.“ Aðspurð segist Ólöf vilja bæði sjávarfang og steikur um hátíðirnar. „Ég get eiginlega ekki valið, finnst hvort tveggja ómissandi um hátíðirnar og fjölbreytnin er ávallt góð. Áramótamatseðillinn er hins vegar alltaf eitthvað nýtt enda eigum við oft til að vera ekki á sama staðnum yfir áramótin. Í fyrra fórum við út að borða í miðbænum og sáum síðan flugeldasýninguna hjá Hallgrímskirkju, það var stórfenglegt,“ segir Ólöf.
Frómasinn hennar Huldu frænku í nýjum búningi
Ólöf deilir hér með lesendum eftirrétti úr bókinni sem hentar í öll hátíðarmatarboðin sem fram undan eru. „Á jólunum kom Hulda frænka mín heitin alltaf með sérrífrómas fyrir öll hátíðartilefnin. Ég man að mér fannst hann ekkert sérstaklega góður þegar ég var lítil en fannst hann síðan betri og betri eftir því sem árin liðu og með hækkandi aldri. Til heiðurs Huldu frænku langaði mig að gera frómasinn hennar í nýjum búningi og kynni hér til leiks Baileys-saltkaramellufrómas með gamaldags makkarónum og sykurlegnum kirsuberjum. Þegar mamma smakkaði þennan frómas ferðaðist hún aftur í tímann. Hann minnti hana á jólin hennar sem barn þegar sérrífrómas var á borðum við hvert tilefni,“ segir eftirréttadrottningin Ólöf.
Hægt er að fylgjast með Ólöfu í eldhúsinu og í eftirréttagerð á instagramsíðu hennar @olofolafs.
Botninn
Fyrir 6
65 g makkarónur, þessar gamaldags með engu kremi
120 g kirsuberjasósa með heilum kirsuberjum
2–3 msk. saltkaramellu-Baileys
Setjið makkarónurnar í botninn á skálinni, bleytið upp í þeim með saltkaramellu-Baileys og hellið að lokum kirsuberjasósunni jafnt yfir.
Frómas
6 g matarlím
3 egg
80 g sykur
100 g saltkaramellu-Baileys
400 g léttþeyttur rjómi
Til skrauts
Gamaldags makkarónur
Hindber
Brómber
Fersk ber að eigin vali
Leggið matarlímsblöðin í kalt vatn þangað til þau eru orðin mjúk.
Þetta getur tekið nokkrar mínútur.
Þeytið egg og sykur þangað til að eggin eru orðin ljós og setjið til hliðar.
Hitið Baileys í litlum potti eða í örbylgjuofni.
Takið mjúku matarlímsblöðin úr vatninu, kreistið umframvatn úr þeim og og bræðið þau saman við.
Hrærið Baileys-blöndunni saman við eggjablönduna.
Baileys-eggjablandan er svo að lokum hrærð varlega saman við léttþeytta rjómann. Hellið frómasinum í skálina og sléttið úr toppnum.
Setjið skálina inn í kæli í 4–5 klukkutíma eða yfir nótt.
Mér finnst gott að gera þessa uppskrift morguninn fyrir matarboð.
Ég skreytti skálina mína með makkarónum og ferskum berjum.
Berið fram og njótið.