Í gær skrifaði borgarfulltrúi grein í blaðið um að fækka þyrfti borgarfulltrúum! Þar reit Kjartan Magnússon um fjárhagserfiðleika Reykjavíkurborgar.
Kjartan segir víða bruðlað hjá borginni og mikið megi spara ef vilji er til. „Yfirstjórn Reykjavíkurborgar gæti byrjað að spara hjá sjálfri sér,“ segir hann og bendir á að í fjárhagsáætlun sé gert ráð fyrir 22% hækkun á skrifstofu hins nýja borgarstjóra breytinganna.
Sjálf borgarstjórnin þurfi þó enn meiri hækkanir, enda séu þar 23 borgarfulltrúar og 8 varaborgarfulltrúar, alls 31 kjörinn fulltrúi, á fullum launum, langtum fleiri en þekkist annars staðar.
Hann segir: „Augljóst er að mikil hagræðing næðist með því að fækka borgarfulltrúum á ný, t.d. í fimmtán eins og tíðkaðist lengi vel. Að auki yrði verulegur afleiddur sparnaður af slíkri breytingu því hún myndi draga úr umfangi og flækjustigi annars staðar í borgarkerfinu.“
Til að fækka þeim þarf borgin heimild frá Alþingi, en tillögur um slíka málaleitan eru alltaf felldar af meirihlutanum. Væri það ekki tilvalin „kveðjutillaga“ Dags. B. Eggertssonar, þegar hann hverfur úr borgarstjórn, að gangast fyrir því? Að borgarfulltrúar sýni gott fordæmi og láti hagsmuni blankra borgarbúa ganga framar sínum eigin um þægilega og vel launaða innivinnu?