Trausti Valsson
Trausti Valsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Við Íslendingar verðum að hætta að byggja á sprungusvæðum þar sem líkur eru á jarðskjálftum og hraunrennsli.

Trausti Valsson

Atburðirnir í gossprungunni undir Grindavík leiða til spurningar um hvort ásættanlegt hafi verið að láta byggð þróast þarna. Stutta svarið: Byggð byrjaði að myndast við víkina áður en menn áttuðu sig á jarðvánni á þessu svæði og þetta því afsakanlegt Langa svarið: Þarna bjuggu aðeins 500 manns 1950, og því er meirihluti hinnar 3.800 manna byggðar reistur eftir að mönnum varð ljóst að gosið gæti á gömlum sprungusvæðum. Vestmanneyjagosið 1973 kenndi okkur það!

Einnig komu fram gögn á síðustu áratugum um að nýtt gostímabil væri farið að nálgast á Reykjanesi. Þetta leiddi til þess að ég, undirritaður, lýsti í bók 1993 að ekki gengi að aðeins einn vegur væri út á völl, og þyrfti því að leggja Suðurstrandarveg, vegur sem eykur mjög öryggi á því hættutímabili sem nú er hafið.

Níu árum eftir Vestmanneyjagosið 1973 kom upp umræða í Reykjavík um hvort áhætta væri tekin með að skipuleggja byggð á sprungusvæðinu við Rauðavatn. Tilefnið var að vinstri meirihlutinn hafði látið skipuleggja þar byggð stuttu fyrir kosningarnar 1982.

Er Halldór Torfason jarðfræðingur birti sprungukort sitt af svæðinu kom í ljós að sum hús og lagnir lágu þvert á sprungurnar. Svörin við áhyggjum fólks voru þau að þessar sprungur væru gamlar og óvirkar. Ekki þótti kjósendum þetta nægilega sannfærandi og fékk meirihlutinn því það mikinn skell að hann tapaði kosningunum!

Reyndar er það svo, að hægt er að skipuleggja þannig að hús liggi ekki yfir sprungur, og einnig; ef hannað er þannig að leiðslur eru teygjanlegar þar sem þær liggja yfir sprungur sem líklegt er að gliðni má minnka tjón ef sprunguvíkkun verður í jarðhræringum. Þetta hefur væntanlega verið gert í því skipulagi sem núverandi byggð var reist eftir. – Um þessi mál fjallaði ég á bls. 92 í skipulagssögu minni „Reykjavík – Vaxtarbroddur“ (1986) og birti sprungukort Halldórs.

Vegna lexíunnar úr Vestmanneyjagosinu varð mér ljóst að kortleggja þyrfti öll hættusvæði landsins til að yfirvöld gætu séð til þess að ekki yrði byggt á þeim. Jafnframt þessu varð mér ljóst að kortleggja þyrfti svæði mestu landgæða og beina byggð inn á þau … ekki síst inn á svæði með jarðhita. Mikilvægi þessa varð ljóst haustið 1973 þegar olíukrísa skall á og hitun með olíu á köldum svæðum varð óbærilega dýr.

Af þessu öllu fæddist sú hugmynd hjá mér 1975 að gera Íslandsskipulag sem byggðist á svona hættu- og auðlindakortum. Hóf ég nú að safna saman gögnum hjá vísindamönnum fyrir þessa kortagerð. Teiknaði ég níu neikvæðnis- eða hættukort og tíu landgæðakort. Ég sótti um styrki til verksins hjá skipulagsstofnunum, en var hafnað. Það bjargaði framgangi verkefnisins að ég fékk ársstyrk úr erlendum sjóði.

Kortin teiknaði ég á glært plast, en með að leggja þessi glærukort hvert ofan á annað kemur í ljós hvar mest jarðvá, og landgæði, safnast saman í landinu … og á þessu byggði ég Íslandsskipulagstillögu mína. Kortasafnið og tillöguna gaf ég út í bókinni „Hugmynd að fyrsta heildarskipulagi Íslands“ (1987). Bækur mínar er hægt að skoða á www.tv.hi.is, en síðuna má líka finna með því að gúgla nafn mitt. Jafnframt hef ég mikið fjallað um þessi mál á FB-síðu minni.

Þessi grunngögn hef ég notað í mörgum ritum mínum. Besta yfirlitið um þetta er að finna í starfsævisögu minni, „Mótun framtíðar“ (2015). Þar birti ég t.d. kort sem sýna hvar víðfeðmustu náttúruvárnar, og náttúrugæðin, þjappast saman í landinu. Þarna kemur fram að mestu náttúrugæðin og mestu náttúruhætturnar liggja á sömu svæðum! Er hér fyrst og fremst um eldvirknisvæði landsins að ræða, því þar eru í senn hætturnar og dýrmætu jarðhitagæðin sem nýtast okkur til húshitunar, ylræktar og iðnaðar. Þessi flókna staða kallar á vandaða skipulagsvinnu á þessum svæðum. – Í samantekt skal það undirstrikað að við Íslendingar verðum að hætta að byggja á sprungusvæðum þar sem líkur eru á jarðskjálftum og hraunrennsli. Þar er bæði líf fjölda fólks og geysilegir efnahagshagsmunir í húfi.

Höfundur er prófessor emeritus í skipulagi við HÍ.

Höf.: Trausti Valsson