Sigurður Þráinn Kárason, byggingafræðingur og kennari, fæddist 21. nóvember 1935 í Reykjavík. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 12. nóvember 2023.

Foreldrar hans voru Þórdís Jóna Jónsdóttir, f. 1907, d. 1973, húsfreyja frá Eyrarbakka. Eiginmaður hennar Kári Sigurðsson, f. 1897, d. 1976, húsasmiður frá Eyrarbakka. Bræður hans voru Hrafnkell, f. 1938, d. 2021, og Guðni, f. 1942, d. 2001.

Hinn 31. desember 1932 kvæntist Sigurður Þráinn eftirlifandi eiginkonu sinni, Kristínu Guðmundsdóttur, f. 1940. Foreldrar hennar voru Þuríður Kristín Vigfúsdóttir, f. 1901, d. 1987, og Guðmundur Filippusson, f. 1891, d. 1955.

Dætur þeirra eru: 1) Kristín, f. 1963, gift Sigurjóni Hjartarsyni, f. 1958. Börn þeirra eru Hlynur Þráinn, sambýliskona hans er Stefanía R. Ragnarsdóttir. Dóttir þeirra er Berglind Lóa; Erna Rós og Björk. 2) Hildur, f. 1968, gift Jóni Ármanni Gíslasyni, f. 1969, og eiga þau synina Þorstein Gísla og Sigurð Kára. 3) Rúna (Guðrún Jóna), f. 1969. Eiginmaður hennar er Bjarni Gunnarsson, f. 1965. Dætur þeirra eru Hildur Mínerva og Lilja.

Sigurður Þráinn var húsasmíðameistari frá Iðnskólanum í Reykjavík. Hann lærði byggingarfræði í Kaupmannahöfn. Eftir að hann kom heim starfaði hann fyrir gatnamáladeildir í Hafnarfirði og í Reykjavík og hjá Vegagerðinni. Hann kenndi í Iðnskólanum í Reykjavík í rúmlega þrjátíu ár, eða til starfsloka.

Hann var virkur í Róðrafélagi Reykjavíkur. Hann var einn fyrstur Íslendinga til að taka svarta beltið í júdó. Hann var mikill áhugamaður um skák og æfði sund og sundknattleik hjá Sundfélagi Reykjavíkur.

Sigurður Þráinn verður jarðsunginn frá Digraneskirkju í dag, 24. nóvember 2023, og hefst athöfnin klukkan 15.

Pabbi var virkilega góður pabbi og mikill uppalandi. Hann var góður, ljúfur, barnakarl og dýrakarl. Eftir langan og krefjandi vinnudag gaf hann sér alltaf tíma fyrir okkur. Öll kvöld fór hann með okkur upp í rúm, las fyrir okkur, sagði bullusögur, sögur frá því hann var krakki, sögur af prakkarastrikum, kenndi okkur um himingeiminn og norrænu goðafræðina, ræddi fréttamál dagsins áður en hann svæfði okkur. Stundum voru Hildur og Rúna að hlera hvað pabbi var að segja við Kristínu áður en hann kom í herbergið þeirra. Á aðfangadagskvöld og á afmælunum okkar gaf hann okkur alltaf aukagjöf, sem var bók til að lesa.

Pabbi var mjög þolinmóður. Hann lék oft við okkur og var stundum hesturinn okkar. Hann kenndi okkur margt og okkur fannst hann kunna allt og geta allt. Hann kom okkur í gegnum stærðfræði, dönsku og þýsku í framhaldsskóla. Hann kenndi okkur um stjörnumerkin og stjörnurnar. Einnig kenndi hann okkur ýmsar varnaraðferðir eins og hryggspennu, hálstak og pota milli rifbeinanna svo dæmi séu tekin. Það kom Hildi og Rúnu til góðra nota enda þurftu þær stundum að berjast við stráka, kom fyrir að einhverjir af þeim fengju spörk og einhver höfuð fengu að skella saman. Við æfðum allar júdó á tímabili eins og pabbi.

Pabbi var alltaf boðinn og búinn. Vildi skutla og sækja okkur út um allt. Sagði reglulega: „Hringdu ef það er eitthvað.“ „Get ég gert eitthvað fyrir þig?“ Hann vildi hjálpa með allt. Við leituðum alltaf til hans ef það var eitthvað sem bjátaði á og hann hlustaði alltaf. Pabba var alltaf umhugað um fólkið sitt. Eitt skipti hélt hann grillinu heitu um miðja nótt fyrir Hildi og Jón þegar þau voru að koma að norðan alla leið á Apó, bústaðinn sem þau áttu. Hann hugsaði mikið um mömmu, ef það var eitthvað sem honum fannst gott spurði hann hvort mamma gæti fengið svoleiðis líka. Einnig bauð hann okkur alltaf að fá bílinn sinn lánaðan.

Pabbi var alltaf að brasa og fann út úr hlutunum. Hann byggði Giljalandið og stundum vorum við með hvort sem við vorum fyrir eða að aðstoða. Það kom fyrir að Kristín fór í Giljó eftir skóla og var með pabba. Hann kunni að skipta um rennilás á buxum og strengi í gítar. Eitt skiptið þegar pabbi var að þurrka eftir uppvask missti hann disk en náði að sparka honum upp í loft og grípa hann.

Við matarborðið sagði hann okkur sögur sem höfðu gerst í vinnunni hjá honum þegar hann var að kenna. Okkur er minnisstæð sagan af nemanda sem fór oft úr tíma hjá pabba. Eftir nokkurt ráp spurði pabbi hvað væri í gangi, þá var hann með hund úti í bíl og það var svo kalt. Pabbi tók ekki annað í mál en að fá hundinn inn í kennslustofu. Pabba dýrakarli fannst það ekki leiðinlegt og gaf hundinum mjólk að drekka. Einnig var einstæð móðir að flosna upp úr náminu því hún hafði ekki neinn til að hugsa um barnið sitt, pabbi barnakarl bauð barninu að koma með í kennslu og gaf því blöð og liti.

Takk elsku pabbi fyrir allt, og eins og þú sagðir alltaf „við biðjum að heilsa öllum og hundum og köttum“.

Þínar

Kristín, Hildur og
Guðrún Jóna (Rúna).

Í dag kveð ég tengdaföður minn, Sigurð Þráin Kárason eða Þráin eins og hann var ávallt kallaður innan fjölskyldunnar. Hann var þolinmóður rólegheitamaður og hafði góða nærveru. Það var sama hvenær kíkt var í heimsókn eða hann kom við hjá okkur, það voru ávallt sömu rólegheitin. Gjarnan var Þráinn með skrifblokk og penna í brjóstvasanum. Í henni mátti finna einhverja þraut, gátu eða jafnvel vísu og þá oftast í léttum dúr. Eitthvað af þessu var síðan lagt fyrir viðkomandi og urðu oft skemmtilegar umræður í framhaldinu. Það mátti síðan krydda skemmtilegheitin með smá stríðni ef þurfti, að mati Þráins. Ef unga fólkið var þreytt eða illa fyrirkallað þá átti Þráinn leynivopn sem dugði nær alltaf. Það var munnharpan. Þetta leynivopn notaði Þráinn reglulega og ekki er langt síðan munnharpan var brúkuð fyrir langafabarn Þráins, hana Berglindi Lóu, og virkaði vel sem endranær. Þessi notalega nærvera og hógværð Þráins hafði mjög smitandi áhrif, flestir í fjölskyldunni geta vitnað um það.

Við fjölskyldan urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að búa nánast við hlið tengdaforeldranna, í um tvo áratugi, og var oft skotist milli Hjalló og Giljó, ég tala nú ekki um yngri meðlimi fjölskyldunnar. Það var ekki eingöngu verið að skottast þar á milli því reglulega var skotist á Apó. Í sumarbústað sem Þráinn og vinir hans í Iðnskólanum höfðu komið sér upp nálægt Laugarvatni.

Lækur rann meðfram landareigninni sem hægt var að sigla á. Þarna var Þráinn í essinu sínu, að smíða pramma, leika og sulla með barnabörnunum þar sem allir skemmtu sér. Þarna fékk íþróttamaðurinn að njóta sín en á sínum yngri árum æfði Þráinn og keppti í róðri. Einnig æfði hann og keppti í sundi. Seinna meir, á besta aldri, æfði hann og keppti í júdó alla leið í svarta beltið. Þegar ég kynntist fyrst Þráni átti hann hjól og hjólaði töluvert. Hann hafði alla tíð mikinn áhuga á hjólreiðum og öllum þeim nýjungum sem þeim fylgdu. Áttum við ófá samtöl um þessa hluti og undraðist ég hve Þráinn var inni í þessum nýjungum allt fram á síðasta dag.

Þráinn hafði áhuga á tækninýjungum og þar naut kennarinn sín vel. Ég man vel eftir þegar þau hjónin og dætur komu í heimsókn til okkar Kristínar í Illinois í Bandaríkjunum þar sem við vorum í námi. Þar mátti finna ýmsar nýjungar, meðal annars var Macintosh-tölvan vinsæl og Þráinn ákveðinn í að tileinka sér þessa nýju tækni. Við keyrðum niður til Flórída á Canaveral-höfða. Þar var mikið spáð í hlutina og ljóst að geimför voru mikið áhugamál Þráins.

Þráinn vann í nokkur ár hjá Vegagerðinni meðal annars við að mæla út veginn á Skeiðarársandi. Margar sögur átti hann til frá þeim árum og ljóst að hann naut sín á þessu svæði. Hann hafði verið í sveit á Blómsturvöllum undir Harðskafa. Þar komst hann í kynni við gamla tímann, naut þess að aðstoða í lífsbaráttu þessa fólks. Þráinn naut þess að aðstoða. Það þurfti ekki mörg orð ef þurfti að mæla fyrir sólpalli eða þvíumlíku. Hann var mættur með þrífótinn, kíkinn og appelsínugula snærið og var drifið í hlutunum og vinnubrögðin ávallt fagmannleg.

Það verða ekki fleiri heimsóknir, sögur, þrautir og gátur leystar með Þráni. Eftir situr ljúf minning um einstakan mann, takk fyrir allt.

Sigurjón Hjartarson.

Afi í Giljó, eins og við kölluðum hann alltaf, var virkilega þolinmóður og góðhjartaður afi. Hann setti okkur fjölskylduna alltaf í fyrsta sæti og var boðinn og búinn að gera allt fyrir okkur. Afi var hinn mesti dýrakarl og kisur voru þar í miklu uppáhaldi. Hann átti nokkra kaffibolla sem allir voru með mynd af kisum. Við sjáum afa fyrir okkur í köflóttri skyrtu með brjóstvasa og í joggingbuxum, helst með blettum á. Í brjóstvasanum var alltaf skrifblokk, penni og oft munnharpa sem hann spilaði á. Afi sagði okkur margar sögur, vísur og brandara. Hann talaði oft um þegar hann vann hjá Vegagerðinni og ferðaðist um landið og vann að mælingum og vegalagningum. Afi hafði mikinn húmor sem honum einum var lagið, hann hló hrossahlátri og manna hæst!

Við systkinin bjuggum í næstu götu við ömmu og afa og því varð Giljó okkar annað heimili. Við vorum alltaf velkomin þangað og nýttum það óspart ef enginn var heima, við læst úti, langaði í félagsskap, fara í tölvuna eða fá annan kvöldmat en var heima. Okkur er minnisstætt að sjá afa við endann á matborðinu að skræla kartöflur, skera ost beint upp í sig og borða endana af kjúklingabeinum.

Amma og afi voru alltaf svo sæt saman. Þau voru greinilega ástfangin, leiddust og kysstust oft á munninn. Afi var mikill græju- og tæknikarl og átti því alltaf flotta tölvu sem gaman var að leika sér í. Það var alltaf notalegt í Giljó, amma að ráða krossgátur og afi alltaf að brasa eitthvað, alltaf! Ef hann var ekki að skreppa eitthvað á bílnum þá var hann í sudoku, skák, að fræðast um tækni, smíða, raula eða spila á munnhörpu, svo dæmi séu tekin. Hann aðstoðaði okkur systkinin í náminu enda starfaði hann sem kennari.

Það var alltaf stutt í grínið og góðlátlega stríðni enda var afi algjör grallari. Nokkur jólin klæddi afi sig upp sem Leppalúði og mætti þannig á jólaböllin og hræddi líftóruna úr okkur. Hann lék mikið við okkur þegar við vorum lítil, hann tók oft af okkur nefið, tók okkur í kleinu, setti sokkabuxur á hausinn á sér og spilaði við okkur myllu. Einnig kenndi hann okkur mannganginn, refskák á plötu sem hann bjó til og lét okkur veiða hluti milli hæða. Hann kenndi okkur ýmis fanta- og júdóbrögð ef einhver var að abbast upp á okkur (sem við þurftum sem betur fer ekki að nota).

Amma og afi áttu sumarbústað nálægt Laugarvatni sem kallaðist Apó. Þaðan eigum við ótal frábærar minningar! Við vorum þar heilu sumrin, á afmælum og fleiri góðum stundum. Oftar en ekki var afi með hamarinn á lofti og kenndi okkur á ýmis verkfæri og leyfði okkur að prófa. Þar voru ótal flekar smíðaðir, bæði fyrir menn og dýr. Einnig nýtti hann gamlan sófa og útbjó rólu úr honum. Þegar þurfti að dytta að og græja þá voru oft nýttar hjólbörur í verkið og oftar en ekki fengum við krakkarnir far í hjólbörunum. Afi var líka oft að fljúga flugdrekum með okkur á Apó. Í kjarrinu fundu „afgarnir“ leynilaut þar sem við stálumst til að grilla pylsur og sykurpúða.

Elsku besti afi lafi eplasafi, við minnumst þín með bros á vör en söknuð í hjarta.

Þín afabörn,

Hlynur Þráinn,
Erna Rós og Björk.

Þegar ég tók að mér starf við bókasafn Iðnskólans í Reykjavík haustið 1994 þá kynntist ég mörgum afburða kennurum skólans. Þeir kenndu mismunandi námsgreinar og var það fyrir mig mjög áhugavert og ánægjulegt í alla staði að kynnast öllum kennurunum og þeim iðngreinum sem þá voru kenndar við skólann.

Sigurður Þráinn Kárason var einn af eftirminnilegustu kennurunum sem kenndu við byggingadeild skólans. Við áttum mjög gott samstarf og áttum oft góðar samræður. Sigurður sagði mjög vel frá og var oft mjög nákvæmur í frásögnum sínum. Hann var gamansamur og sá jafnan skoplegustu hliðar mannlífsins. Alltaf voru góðar stundir með Sigurði.

Vorið 2007 fór dálítill hópur kennara við skólann til Berlínar í ferð sem Reynir Vilhjálmsson eðlisfræðingur átti veg og vanda af að skipuleggja og stjórna. Undir leiðsögn hans var haldið gangandi og með neðanjarðarlestum vítt og breitt um þessa gömlu höfuðborg Þýskalands. Heimsóttum við ýmsa þá staði sem koma við sögu Þýskalands. Þar á meðal var þinghúsið þar sem tekið var mjög vel á móti okkur af einum þingmanni sem Reynir þekkti vel. Þannig fengum við að skoða ýmsa ranghala sem venjulega eru ekki hafðir til sýnis. Þannig sáum við leifar af neðanjarðargöngum þeim sem talið er að stormsveitarmenn hafi farið eftir þegar þeir kveiktu í þinghúsinu á sínum tíma.

Þá var gengið eftir Wilhelmstrasse þar sem ráðuneytin og kanslarahöllin voru áður. Við heimsóttum meðal annars Checkpoint Charlie og lítið safn skammt þar frá sem veitti okkur innsýn í daglegt líf venjulegs fólks í Austur-Berlín á tímum DDR. Þar rétt hjá var skransali með varning sinn sem einkum var alls konar munir frá þessum einkennilegu tímum. Þarna voru m.a. húfur ýmissa fyrirmenna í austurþýska hernum til sölu og Sigurður tók eina skrautlegustu húfuna, setti á höfuð sér, gretti sig ögn og glotti við tönn. Vakti þetta mikla kátínu okkar Íslendinganna enda uppákoman í anda Sigurðar. Já, þetta var góð ferð og ánægjuleg í alla staði enda er alltaf gaman að koma til Berlínar og ganga á móts við söguna sem hvarvetna leynist við hvert fótmál.

Eftir að skólinn okkar var einkavæddur og sameinaður öðrum skóla 2008 hættu flestir af okkur eldri störfum. Annaðhvort var komið að töku eftirlauna eða við áttum rétt á biðlaunum eftir meira en 20 ára starf hjá ríkinu. Því miður skildu leiðir okkar en við höfum kappkostað að halda hópinn og hittumst gjarnan á gömlu kaffistofunni í skólanum á Skólavörðuholti einu sinni í mánuði yfir vetrartímann. Þá eru rifjaðar upp sameiginlega minningar okkar ásamt öðru spjalli.

Sigurðar Þráins verður minnst með virðingu. Aðstandendum öllum sem vinum og vandamönnum er vottuð samúð á kveðjustund. Góðar minningar fylgja þessum afburða samstarfsmanni.

Guðjón Jensson.