Minnisvarði Styttan af séra Friðriki stendur á horni Lækjargötu og Amtmannsstígs í miðbæ Reykjavíkurborgar.
Minnisvarði Styttan af séra Friðriki stendur á horni Lækjargötu og Amtmannsstígs í miðbæ Reykjavíkurborgar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Borgarráð ákvað í gær að styttan af séra Friðriki Friðrikssyni á horni Lækjargötu og Amtmannsstígs skyldi tekin niður og henni fundinn staður í listaverkageymslum Listasafns Reykjavíkur. Styttan var reist árið 1955 að tilstuðlan gamalla nemenda séra …

Mist Þ. Grönvold

mist@mbl.is

Borgarráð ákvað í gær að styttan af séra Friðriki Friðrikssyni á horni Lækjargötu og Amtmannsstígs skyldi tekin niður og henni fundinn staður í listaverkageymslum Listasafns Reykjavíkur. Styttan var reist árið 1955 að tilstuðlan gamalla nemenda séra Friðriks og var einn fremsti myndhöggvari þess tíma, Sigurjón Ólafsson, fenginn til verksins.

Einar Þorsteinsson formaður borgarráðs segir ákvörðunina hafa hlotið einróma samþykki í ráðinu. Að sögn Einars litu hugmyndir um að fjarlægja ætti styttuna dagsins ljós í kjölfar háværrar opinberrar umræðu og gagnrýni innan samfélagsins í garð séra Friðriks, en fyrr í haust sendi Guðmundur Magnússon sagnfræðingur frá sér nýja ævisögu séra Friðriks þar sem hann greinir meðal annars frá því að séra Friðrik hafi leitað á ungan dreng. Einar segir ákvörðunina hafa verið vel ígrundaða og unna í góðu og einlægu samstarfi við KFUM og KFUK.

Sýna málinu skilning

„Við höfum tekið okkur tíma til þess að vinna þetta mál vel í góðri samvinnu við KFUM og KFUK og óskuðum eftir því að þau kæmu inn á fund borgarráðs fyrir nokkrum vikum,“ segir Einar og bætir við að samtökin hafi sýnt málinu mikinn skilning.

„Við óskuðum eftir formlegri umsögn frá þeim til þess að taka fyrir í ráðinu af því að það duldist engum að það var uppi umræða um það að styttan þyrfti að víkja. Þau skiluðu síðan inn umsögn þar sem þau segja að þegar styttur sem ætlað er að senda ákveðin skilaboð út í samfélagið séu farnar að senda annars konar skilaboð sé ekki óeðlilegt að þær víki.“

Einar sem sjálfur er fylgjandi ákvörðuninni kveðst taka undir með KFUM og KFUK. Hann segir það hvorki liggja fyrir hvenær styttunni verði steypt af stalli, né hvað það verði sem komi í hennar stað.

„Það er ekki komin áætlun um það [hvenær styttan verði tekin niður], en borgarráð fól umhverfis- og skipulagssviði að útfæra tillögur um það hvað kæmi í staðinn,“ segir Einar. „Það er þá bara næsta skref að undirbúa það.“

Höf.: Mist Þ. Grönvold