Fanney hlakkar til að eiga róleg jól með fjölskyldunni.
Fanney hlakkar til að eiga róleg jól með fjölskyldunni.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvernig klæðir þú þig um hátíðarnar, ertu afslöppuð eða mjög sparileg? „Ég reyni að vera mjög sparileg en samt í þægilegum fötum. Á mínu heimili var alltaf spariklæðnaður um jólin og ég hef haldið í þá hefð

Hvernig klæðir þú þig um hátíðarnar, ertu afslöppuð
eða mjög sparileg?

„Ég reyni að vera mjög sparileg en samt í þægilegum fötum. Á mínu heimili var alltaf spariklæðnaður um jólin og ég hef haldið í þá hefð. Við höfum einu sinni breytt út af vananum en þá eyddum við jólunum í náttfötunum uppi í sumarbústað, það var mjög notalegt. Ég er samt ein af þeim sem finnst mjög skemmtilegt að klæða sig upp á og mun líklegast halda í þá hefð fyrir fjölskylduna mína.“

Eruð þið fjölskyldan samstillt í klæðaburði yfir hátíðarnar?

„Já, við erum það eða svona að mestu leyti. Það byrja allir í sparifötunum en enda í kósífötunum svona þegar líða fer á kvöldið. Pabbi minn vill sjá alla í sparifötum og hann byrjaði litla krúttlega hefð, fyrstu jólin hennar Thaliu Guðrúnar. Þegar hún var lítil var ég ekkert að stressa mig á því að kaupa á hana jólakjól en pabba fannst það sko alveg ómögulegt og mætti með glænýjan jólakjól á hana á Þorláksmessu. Þetta hefur hann gert síðustu tvenn jól, græjað jólakjólinn.“

Áttu þér uppáhaldsjólakjól?

„Fyrsti kjóllinn sem kom upp í hugann var þessi silfurlitaði „one shoulder“-kjóll sem ég klæddist þegar ég var unglingur. Hann var geggjaður og mér fannst ég mjög „elegant“. Síðustu ár hef ég verið meira í svörtu þannig að þessi silfurlitaði stendur upp úr.“

Ertu mikil kjólakona?

„Nei, ekki beint. Það er vegna andúðar minnar á sokkabuxum. Ég elska kjóla á sumrin, þegar ég get verið berleggja, en þar sem ég hef ekki enn þá hitt sokkabuxur sem ég elska þá flækir það kjólamálin fyrir mér á veturna. Ég læt mig samt hafa það að fara í sokkabuxur til þess eins að geta klæðst fallegum kjól um jólin.“

Pælirðu mikið í jólafötum?

„Ég gerði það mun meira þegar ég var yngri, en ef ég sé hinn fullkomna jólakjól þá auðvitað gríp ég hann. Ég vil samt ekki kaupa kjól bara til þess eins að klæðast honum á aðfangadag, mér finnst það sóun á góðri flík.“

Höf.: Erna Ýr Guðjónsdóttir |