Grindavíkurbær yfirgefinn Varðskipið Freyja er fyrir utan ef á þarf að halda.
Grindavíkurbær yfirgefinn Varðskipið Freyja er fyrir utan ef á þarf að halda. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tvær vikur eru liðnar frá því að íbúum í Grindavík var gert að yfirgefa sveitarfélagið þar sem hætta var talin á að eldgos gæti hafist í byggð eins og gerðist í Vestmannaeyjum fyrir hálfri öld. Eins og sjá má hér að ofan hefur dregið mjög úr skjálftavirkninni síðustu dagana

Viðtal

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Tvær vikur eru liðnar frá því að íbúum í Grindavík var gert að yfirgefa sveitarfélagið þar sem hætta var talin á að eldgos gæti hafist í byggð eins og gerðist í Vestmannaeyjum fyrir hálfri öld. Eins og sjá má hér að ofan hefur dregið mjög úr skjálftavirkninni síðustu dagana. Skjálftarnir voru mun fleiri og sumir hverjir harðir. Stórar sprungur opnuðust í Grindavík þegar kvikugangur myndaðist undir bænum.

Páll Einarsson, prófessor emeritus við jarðvísindadeild HÍ, segir að athyglisvert sé hve hratt hlutirnir gengu fyrir sig til að byrja með. Atburðarásin hafi verið mjög hröð.

„Hún var mjög hröð 10. og 11. nóvember. Þá gerðust miklir hlutir því gríðarmikið rúmmál af kviku lagði af stað og fór í þennan gang. Á nokkrum klukkutímum var hann nánast fullmyndaður,“ segir Páll og nefnir tvo möguleika sem geti valdið því að skjálftavirknin hafi minnkað eins og hún hefur gert síðustu daga.

„Annað er að það hafi komið leki að kerfinu, ef þannig má að orði komast. Kerfið þoli ekki þrýstinginn og gos sé að nálgast. Hitt er að kvikugangurinn hafi storknað. Erfitt er að segja til um hvort veldur þessu enda eru einungis 13 dagar frá því að þetta hófst. Til að byrja með gerðust hlutirnir mjög hratt en eftir það hefur hægt á þessu. Smám saman hefur dregið úr þessu og eins og málið stendur núna virðist sem storknunin sé ríkjandi. Það getur hins vegar breyst snögglega og rétt að hafa allan varann á.“

Margar hliðar á málinu

Fram hefur komið að jarðvísindamenn Veðurstofunnar telji nú að litlar líkur séu á skyndilegri gosopnun innan bæjarmarka Grindavíkur.

„Nú er friðvænlegra í Grindavík en var á tímabili og ég held að það fari ekki á milli mála. Ennþá er talsverð hreyfing á kvikuganginum norðan við Grindavík og menn vilja ekki útiloka að á því svæði gæti orðið gos. Á næstu dögum er ef til vill hægt að finna út úr því hvort gangurinn sé storknaður í gegn. Gangurinn er ekki mjög þykkur og þunnir gangar storkna fljótt. Það sem eykur hins vegar á tvíræðnina er að aftur er bullandi landris í Svartsengi. Þar gæti nýr gangur hreinlega verið í bígerð. Málið er því býsna flókið og margar hliðar á því. Fyrir vikið þarf að halda öllum möguleikum á lofti til að ekkert geti komið mönnum á óvart.“

Gæti verið til góðs

Páll nefnir að sú staða gæti komið upp að storknaður gangur undir byggðinni í Grindavík gæti verið til góðs til lengri tíma litið.

„Ef svo fer að gangurinn storknar þar sem hann er, og verður ekki frekar til vandræða, þá er það til stórra bóta upp á framtíðina. Þegar gangur treður sér svona inn þá breytir hann spennunni í jarðskorpunni og hindrar aðra ganga frá því að fylgja í sama sporið. Með öðrum orðum myndi það minnka líkurnar á því að þessi staða komi aftur upp í Grindavík. Ef nýr gangur leggur af stað þá eru auknar líkur á því að hann fari eitthvað annað en undir Grindavík, sem er auðvitað alversti staðurinn á þessu svæði,“ segir Páll Einarsson.

Höf.: Kristján Jónsson