Einar Ingvi Magnússon
Einar Ingvi Magnússon
Sæl er sú þjóð, sem á Drottin að guði.

Einar Ingvi Magnússon

Þegar ég var í barnaskóla byrjaði skólastjórinn daginn með bæn með okkur nemendunum. Kvöldin áður fór ég alltaf með bænirnar mínar. Kynslóðir á undan ólust upp við húslestra þegar guðsorð var lesið á kvöldvökum. Þá var guðað á glugga þegar gest bar að garði og menn „blessaðir“ bæði þegar þeir komu og fóru. Þá var farið með borðbæn og Guði færðar þakkir í öllu. „Guði sé lof og dýrð“ og „Þökk sé Guði“ voru orðatiltæki sem heyrðust alla daga.

Vegna þessa var þjóðfélagið betra, enda fór fólk flest eftir boðorðum Ritningarinnar; samfélagið gæfusamara og siðavandara vegna þess. Enda er ritað: „Sæl er sú þjóð, sem á Drottin að guði.“ (Sálmur 144:15)

Þá voru vandamálin sem við þekkjum í dag færri og öðruvísi en þau sem við þjáumst af nú til dags. Fólk vissi hve Heilagar ritningar voru dýrmætar. „Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Jesú Krist.“ (2. Tímóteusarbréf 3:15)

Nú er þjóðin í ógöngum. Alls staðar er voðinn vís, hin andlega vosbúð, hungur sálna.

En það er til vörðuð leið til lífshamingju. Hana er að finna í orði Guðs. Sú leið er stráð gimsteinum á götuslóðum.

En þau verðmæti eru ekki ætluð til að greiða fyrir árlegar ferðir til sólarstranda og fimm stjörnu hótel. Þau eru ávísun á frið í hjarta og lífsfyllingu, sem veraldarauður hefur ekki efni á. Þau eru gleði sem veitist fyrir það að ganga í takt við boðorð lífgjafans og fylgja lögmáli hans, sem ritað er mönnunum til leiðbeiningar á vegum lífsins hér á jörð.

Einar Ingvi Magnússon,

áhugamaður um samfélagsmál.

Höfundur er áhugamaður um samfélagsmál.

Höf.: Einar Ingvi Magnússon