Halla Sigrún Sigurðardóttir fæddist í Reykjavík 2. ágúst 1947. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á Ísafirði 11. nóvember 2023 eftir erfiða baráttu við krabbamein.

Foreldrar hennar voru hjónin Soffía I.S. Sigurðardóttir frá Norðfirði, f. 4. nóvember 1925, d. 28. september 2005, og Sigurður Valdimarsson frá Sóleyjarbakka í Hraunamannahreppi, f. 30. maí 1914, d. 15. nóvember 1994.

Bræður Höllu eru Hilmar, f. 2.9. 1949, kvæntur Hrefnu Jónsdóttur frá Vestmannaeyjum og eiga þau saman einn son. Eru búsett í Garðabæ. Sigurður Zófus, f. 6.7. 1954, kvæntur Helgu Harðardóttur frá Ísafirði og eiga þau tvær dætur og einn son. Eru búsett í Kópavogi.

Halla ólst upp í Reykjavík þar sem hún kynntist eftirlifandi eiginmanni sínum, J. Hafsteini Vilhjálmssyni, f. 7. mars 1944. Foreldrar hans voru Aðalbjörg Júlíusdóttir frá Seyðisfirði, f. 20. janúar 1914, d. 15. mars 2002, og Arngrímur Vilhjálmur Angantýsson frá Angantýsbæ á Snæfjallaströnd, f. 15. nóvember 1906, d. 16. ágúst 1984.

Halla og Hafsteinn gengu í hjónaband 18. mars 1968. Dóttir þeirra er Dagbjört Fjóla, f. 3. janúar 1976. Eiginmaður hennar er Bjarni J.M. Henrysson úr Stykkishólmi og eiga þau soninn Hafstein Henry, f. 5. júní 2004.

Eftir annasöm starfsár í Reykjavík fluttu þau Halla og Hafsteinn til Ísafjarðar árið 1977. Hún starfaði á skrifstofu Norðurtangans og kynntist þar félögum Litla leikklúbbsins. Þessi félagsskapur varð líf og yndi þeirra hjóna og þá sérstaklega Höllu, því fljótlega var hún kosin formaður og eyddi miklum tíma og þreki í þá starfsemi. Með því síðasta sem hún vann að var afmælisárið 2015 er félagið varð 50 ára. Félagsstörf á Ísafirði og á landsvísu munu þó halda nafni hennar lengst á loft. Hún var stofnfélagi að Golfklúbbi Ísafjarðar og Zontaklúbbi á Ísafirði 1996. Fyrir hönd LL vann hún að stofnun Félags áhugaleikfélaga á Vestfjörðum í samvinnu við önnur leikfélög á Vestjörðum. Halla sat í Íþrótta- og æskulýðsráði Ísafjarðarbæjar og starfaði fyrir Skíðafélag Ísafjarðar um tíma. Hún gekk snemma í Kvenfélagið Hlíf. Halla vann á leikskólum Ísafjarðarbæjar og kynntist þar starfi barna með sérþarfir. Hún starfaði hjá Svæðisskrifstofu málefna fatlaðra m.a. við að aðstoða skjólstæðinga sem þurftu stuðning til að komast á vinnumarkað og að koma á laggirnar dagvistun fyrir fötluð börn á Ísafirði.

Hún kom að uppbyggingu Edinborgarhússins. Halla lét af störfum 65 ára og gekk þá í Félag eldri borgara, þar var henni fengið verk að vinna, sat m.a. í Öldungaráði bæjarins. Í samvinnu við aðra félaga vann hún að því að koma á því sem kallast Bókarabb fyrir alla eldri borgara.

Hinsta kveðja Höllu verður í Háteigskirkju í dag, 24. nóvember 2023, klukkan 13.

Hægt er að nálgast hlekk á streymi á mbl.is/andlat

Í dag viljum við minnast elsku systur minnar. Þegar hugsað er til baka var Halla systir mín alltaf minn verndari og bar hag minn fyrir brjósti. Hvar skal byrja þegar maður hugsar til Höllu systur. Þau hjón Halla og Hafsteinn fluttu vestur til Ísafjarðar fyrir 46 árum og í framhaldi af því flutti ég vestur til þeirra og kynntist þar konu minni Helgu og var hjá þeim í eitt ár. Alltaf var reglulega farið vestur og þá var blásið til veislu og það voru engin smá veisluhöld og líka börnunum skemmt. Munum vel eftir garðveislum þeirra hjóna þar sem voru þekktir skemmtikraftar og fullt af frábæru fólki. Höllu var alltaf umhugað um okkur og okkar þrjú börn og svo síðar líka okkar átta barnabörn. Við fórum með þeim í nokkrar utanlandsferðir og meðal annars í þriggja vikna ferð til Krítar sem er ógleymanleg. Alla tíð var gott að leita til Höllu. Sumarið 2022 í erfiðum veikindum náði Halla að fara til Þrándheims í Noregi í brúðkaup dóttur okkar sem hún naut vel. Það er margs að minnast þegar hugsað er til Höllu en í sama orði er líka talað um Hafstein. Samúðarkveðjur til Hafsteins og Dagbjartar og fjölskyldu. Takk fyrir allt elsku Halla.

Zófus bróðir og Helga.

Hún elsku Halla frænka hefur kvatt. Ég held að allir sem þekktu hana geti verið sammála um að hún hafi verið einstök kona.

Halla var mikill veisluhaldari og í gegnum tíðina voru margar veislur haldnar hjá henni og Hafsteini á Hlíðarveginum en mér eru minnisstæðastar allar páskaveislurnar. Borðhald í veislum var aldrei eins skemmtilegt og það var í veislum hjá þeim hjónum. Þar voru gátur eða vísur undir öllum diskum, farið í leiki, haldin leikrit eða leyfilegt að teikna á dúkana, engum skyldi leiðast. Og svo var Halla líka svo frábær kokkur að allir fóru afvelta heim.

Síðustu daga er ég búin að rifja upp svo mikið af minningum um hana Höllu, allar næturnar sem maður fékk að gista á Hlíðarveginum, Æsku-blöðin uppi á lofti, endalaus föndurverkefni, rólegheit í garðhúsinu, aðventu-jólakassana sem við fengum senda í Kópavoginn til að stytta biðina eftir jólunum og svo margt fleira.

Halla var svo miklu meira en frænka fyrir okkur systkinin og hún hefur alltaf átt smá part í okkur, enda þegar ég svo eignaðist börn sjálf fannst börnunum mínum hún vera mun meira en Halla frænka og kölluðu hana alltaf Höllu langömmu.

Þegar þriðja stelpan okkar Árna kom í heiminn fyrr á árinu kom ekkert annað til greina en að nefna hana eftir þér og ég er svo glöð að þið Halla litla hafið getað hist fyrir nokkrum vikum þegar við mæðgurnar komum til Ísafjarðar. Þær minningar munu ylja um ókomna tíð.

Takk fyrir allt elsku frænka.

Soffía.

Undanfarna daga hef ég verið að rifja upp góðar minningar af Höllu og þær eru ekki fáar. Krítarferðin þegar ég var tólf ára, heimsóknirnar vestur og margt, margt fleira. Það sem hins vegar stendur mest upp úr eru matarboðin heima hjá Höllu og Hafsteini á Hlíðarveginum. Maturinn, gáturnar undir diskunum, leikritin og skemmtiatriðin voru öll frábær og það var alltaf ævintýri að heimsækja þau Höllu og Hafstein. Það er ein skopleg minning sem ég mun alltaf muna frá þessum matarboðum en það er þegar ég og yngri frændi minn vorum þar saman. Þessi frændi minn, sem er ekki skyldur Höllu, vildi meina að Halla væri frænka sín. Ég tók alls ekki vel í það og sagði honum sko að Halla væri frænka mín, ekki frænka hans. Það er þannig sem ég minnist Höllu. Það er heiður að hafa kynnst Höllu og geta sagt að hún hafi verið frænka mín. Betri manneskju er varla hægt að finna.

Hvíldu í friði elsku Halla, þín verður minnst að eilífu.

Hörður Sigurðsson.

Nú hefur hún Halla mágkona fengið hvíld eftir erfiða baráttu við krabbamein.

Hún var gift Hafsteini bróður mínum og hafa þau Dagbjört verið hennar stoð og stytta í þessum erfiðu veikindum.

Halla og Hafsteinn hófu sinn búskap í Sæviðarsundi í Reykjavík en fluttu til Ísafjarðar fyrir tæpum 50 árum. Þau undu sér vel á Ísafirði og eignuðust þar marga vini bæði tengda vinnu og áhugamálum. Helsta áhugamál Höllu var Litli leikklúbburinn og var hún m.a. formaður um tíma, auk annarra starfa sem féllu til hjá leikklúbbnum. Tengt þessu áhugamáli ver vel fylgst með hvað var á fjölunum hjá öðrum leikfélögum á landinu og voru þau hjónin iðin að sækja sýningar.

Halla las mikið og var gott að fá álit hjá henni um hvað stæði upp úr þegar árlegt bókaflóð skall á.

Halla og Hafsteinn voru góðir gestgjafar og höfðu ánægju af að taka á móti fólki og rækta tengsl við vini sína. Í mörg ár héldu þau garðveislur hjá sér á Hlíðarveginum. Þar mætti fjöldi gesta sem nutu veitinga og lifandi tónlistar.

Eitt sumar vorum við hjónin á ferð fyrir vestan og var okkur boðið í garðveislu og höfðum ánægju af.

Það var alltaf gott að koma til þeirra á Hlíðarveginn og ætíð tekið vel á móti okkur. Við minnumst með þakklæti ánægjulegra samverustunda í gegnum árin og munum sakna þin Halla.

Elsku Hafsteinn, Dagbjört, Hafsteinn H. og Bjarni, við vottum ykkur innilega samúð við fráfall Höllu. Blessuð sé minning hennar.

Kær kveðja,

Guðrún og Karl.

„Hvað sagði Halla?“ spurði Jón þegar ég kom heim af fundi með þeirri góðu konu. Það skipti nefnilega máli hvað Halla sagði. Við störfuðum saman í menningarnefnd Edinborgarhússins í áratugi. Nú hefur hún kvatt okkur. Það er víst gangur lífsins, en sumir fara allt of fljótt. Höllu kynntist ég fyrst þegar ég kom heim frá námi og fékk að kenna Dagbjörtu, dásamlegu dóttur þeirra Hafsteins. Gjafmildi og tryggð þeirra hjóna var einstök. Þess nutum við fjölskyldan alla tíð.

Gunnar sonur okkar Jóns var í leikskólanum þar sem Halla vann um tíma. Hún hafði gaman af börnum og það er ógleymanlegt þegar hún, í gervi grýlu, bankaði á gluggann á bílnum okkar og hræddi líftóruna úr drengnum.

Halla var fulltrúi Litla leikklúbbsins í menningarnefnd Edinborgarhússins og sátum við ótal fundi saman við undirbúning hinna ýmsu viðburða. Hún var mjög hugmyndarík, fylgdist með öllu af miklum áhuga, var skipulögð og einbeitt í öllum sínum störfum. Hún var mjög hreinskilin og hreinskiptin. Eitt sinn spurði hún okkur hjónin: „Ætlið þið að standa fyrir myndlistarsýningu sem þið viljið sjá eða sem fólk vill sjá?“ Maður kom ekki að tómum kofunum hjá henni Höllu og alltaf varð maður vísari eftir hvern fund.

Ísafjörður er fátækari eftir fráfall hennar, en við sem kynntumst henni höfum fengið gott veganesti. Ég votta klettinum hennar honum Hafsteini og allri fjölskyldunni mína dýpstu samúð. Blessuð sé minning Höllu Sigurðardóttur.

Margrét Gunnarsdóttir.

Hún Halla Sigurðardóttir er látin eftir löng og erfið veikindi. Við minnumst hennar sem formanns og ógleymanlegs félaga í Litla leikklúbbnum á Ísafirði, árum og áratugum saman, nánast frá því að þau hjónin fluttu í bæinn árið 1977, en hún gekk þá strax í félagið og lét þar til sín taka. Ekki leið langur tími þar til hún var kjörin formaður klúbbsins og vann fyrir hann af lífi og sál, og bar alltaf hagsæld hans og velferð fyrir brjósti. Frábær skipuleggjandi og útsjónarsöm, að ekki sé talað um þegar verið var að smala saman leikurum og öðrum starfsmönnum sem þarf til að koma leikriti á svið.

Ekki var hún sjálf fyrir sviðsljósið og steig líklega aðeins einu sinni á svið og sagði örfáar setningar. Ekki viljum við gleyma eiginmanninum honum Hafsteini sem stóð svo sannarlega með sinni konu í öllu hennar brambolti sem alltof langt væri upp að telja, en margs er að minnast. Við gamlir félagar Höllu þökkum samstarf og vináttu og ógleymanlegar samverustundir innan og utan klúbbstarfsins. Við sendum Hafsteini og fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur og minnumst góðs félaga með virðingu og þökk.

Fyrir hönd félaga í Litla leikklúbbnum,

Magni Örvar
Guðmundsson.