Árbjörg Ólafsdóttir fæddist 26. nóvember 1971. Hún lést 4. nóvember 2023. Útför Árbjargar fór fram 17. nóvember 2023.
Helstu minningar mínar um Árbjörgu tengjast útivist, jákvæðni og dugnaði hennar. Snemma árs 2014 bauð Ferðafélag Íslands upp á gönguhóp fyrir fullorðna. Jafnframt var eitthvað í boði fyrir yngra fólk. Á. kynningarfundinn var fjölmennt og kom fólk á öllum aldri, og bæði einhleypir, pör og hjón. Mottóið var „upp úr sófanum“ og allir voru sammála um að takast á við þá hvatningu. Ein af þeim var dugnaðarkonan Árbjörg Ólafsdóttir, þvílík stjarna og gleðigjafi.
Til að byrja með gengum við ýmsar leiðir í grennd við Öskjuhlíðina. Auðveldar fyrst og smám saman erfiðari. Við lærðum líka að gera teygjur. Leiðsögumenn og –konur voru æðisleg og brátt kynntist hópurinn vel og mikill vinskapur myndaðist. Gönguleiðirnar breyttust og urðu lengri og erfiðari. Síðan kom upp sú hugmynd að ganga Fimmvörðuhálsinn um sumarið, nokkuð sem þótti ansi djarft fyrir byrjendur, en viti menn, það gerðum við. Leiðin lá fram hjá gígunum Magna og Móða og við tókum það upp sem nafn hópsins. Í öllu þessu brölti kynntumst við auðvitað vel, við spjölluðum um heima og geima. Og mögulegar gönguleiðir. Og vinskapurinn hefur haldist frá þessum tíma. Við tókum þátt í öðru afreki með hópnum. Þá var gengið frá Hesteyri yfir í Aðalvík, síðan gengið eftir fjörunni á Straumnesfjall og til baka í Aðalvík. Við enduðum á því að vaða og í lokin róa yfir Fljótavíkina og gistum þar í yndislegum bústað. Þangað vorum við svo sótt á báti. Árbjörg var alltaf hress og kát og hrókur alls fagnaðar. Þvílíkur dugnaður í þessari konu! Það kom því eins og reiðarslag fyrir hópinn að frétta af veikindum og síðar andláti hennar. Vona að ég tali fyrir hönd alls hópsins þegar ég segi að við hugsum til hennar með mikilli hlýju og þakklæti fyrir allar góðu minningarnar.
Inga Hersteinsdóttir.